Flestir eru örugglega meðvitaðir um hversu heilsusamlegt það er að hreyfa sig reglulega. Hreyfing lækkar til að mynda blóðþrýsting, minnkar áhættu á ýmsum sjúkdómum, bætir andlega heilsu og eykur lífsgleði. En hvers vegna er þá svona erfitt standa upp úr stólnum og fara út að ganga. Í grein á vefnum aarp.org kemur fram að 8 af hverjum tíu Ameríkönum hreyfa sig ekki nóg samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið þar í landi. Tveir þriðju allra þeirra sem eru á aldrinum 65 til 74 ára eru ekki líkamlega virk eða svokallaðar „sófakartöflur.“ Art Markman prófessor við Háskólann í Austin Texas segir að það sé erfitt fyrir fólk að taka ákvarðanir um eitthvað sem geti hafi góð áhrif á heilsuna til lengri tíma litið. Flestir vilji sjá árangur strax. Til allar hamingju hafa atferlisfræðingar velt þessu fyrir sér og þeir hafa reynt að skilgreina hvað hjálpi fólki til að koma hreyfingu inn í daglega rútínu.
- Ekki hugsa hreyfinguna út frá því að þú ætlir að missa fimm kíló til að líta betur út. Fólk sem setur sér markmið að hreyfa sig á ákveðnum tíma dagsins er mun líklegra til að halda sig við efnið. Í staðinn fyrir að segja ég ætla að missa fimm kíló hafðu þá markmiðið ég ætla að hreyfa mig á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 11 fyrir hádegi eða á einhverjum öðrum tímum sem gætu hentað fólki.
- Finndu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg. Hreyfing er ekki bara að ganga fram af sér á líkamsræktarstöð. Þó svo að líkamsræktarstöðvar séu góðar fyrir suma þá henta þær ekki öllu. Farið í göngutúr um nágrennið, í sund, takið dansnámskeið, farið út að ganga með hundinn, ef þið eigið ekki hund getið þið fengið hund einhvers vinar ykkar eða nágrannanna hundinn lánaðan. Möguleikarnir eru margir. Ef fólk velur sér hreyfingu sem það hefur ánægju af eru miklu meiri líkur á að það standi við markmið sín.
- Samkvæmt breskri rannsókn skiptir miklu máli að fólk hafi markmiðin á hreinu. Rannsakendur skoðuðu fólk sem læknar höfðu ráðlagt að hreyfa sig. Fólkinu var skipt niður í þrjá hópa, sá fyrsti fékk engar upplýsingar um hreyfingu eða ávinning af henni, annar hópurinn fékk upplýsingar um heilsusamlegan ávinning af hreyfingu. Þriðji hópurinn var hins vegar látinn skrifa niður hverskonar hreyfingu fólk ætlaði að stunda, hvar og hvenær dagsins. Þremur vikum síðar var aftur rætt við fólkið þá kom í ljós að 91 prósent þeirra sem höfðu fest á blað hvenær og hvar þeir ætluðu að hreyfa sig höfðu staðið við markmiðin. Innan við 40 prósent þeirra sem voru í hinum hópunum tveimur hafði farið að læknisráði um að hreyfa sig.
- Atferlisfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að viljastyrkur fólks minnkar eftir því sem líður á daginn. Þeir sem einsetja sér að æfa snemma dags eru líklegri til að standa við markmiðin en hinir sem ætla að æfa seinnipartinn. Það er svo ótal margt í dagsins önn sem getur komið upp á og orðið þess valdandi að fólk telur sig ekki hafa tíma til að æfa þrátt fyrir góðan ásetning.
- Ef að líkamsræktarstöð eða sundlaug er í næsta nágrenni er fólk líklegra til að koma sér af stað. Það sama gildir líka um gönguferðir ef góðar gönguleiðir eru í nágrenninu er fólk líklegra til að fara út að ganga. Fólk sem kaupir sér æfingahjól eða göngubretti er helmingi líklegra til að nota tækin ef þau eru staðsett þannig á heimilinu að fólk sjái þau. Göngubretti og hjól sem eru staðsett niður í kjallara eru tvisvar sinnum líklegri til að safna ryki en hin.
- Fólk sem æfir í hóp eða á æfingafélaga er mun líklegra til að halda sig við efnið en þeir sem ætla að æfa einir. Fólk vill ekki bregðast þeim sem það æfir með auk þess finnst flestum gott að vera í félagsskap við aðra. Rannsóknir sýna einnig að þeir sem æfa með öðrum leggja harðar að sér og æfa lengur í hvert skipti. Maður er jú manns gaman.