Viljum ráða eldra fólk til starfa

Kolbeinn Finnsson

Kolbeinn Finnsson

„Við viljum gjarnan ráða eldra fólk til starfa hjá okkur og höfum verið í samstarfi við Gráa herinn um það,“ segir Kolbeinn Finnsson, starfsmannastjóri hjá N1. „Flest störfin sem í boði eru, eru hlutastörf á þjónustustöðvum N1 og ættu að henta bæði konum og körlum jafnvel, þó að útiþjónustan hafi hingað til verið mönnuð með körlum frekar en konum.“ segir hann.

Einn ráðinn

Búið er að ráða einn starfsmann til starfa á þjónustustöðinni Stóragerði. Sá hinn sami er 74 ára gamall og fyrrverandi starfsmaður. Áhugasamir geta sótt um hjá N1 það er opið fyrir umsóknir. Tvær umsóknir um störf hafa borist frá eldra fólki. „Ég átti nú von á fleiri umsóknum en kannski ræður árstíminn einhverju þar um, fólk vill njóta sumarsins, í stað þess að binda sig í vinnu,“ segir Kolbeinn. Hann segist eiga von á að fleiri sæki um störf í haust.

Mannabreytingar á haustin

„Það eru alltaf einhverjar mannabreytingar hjá okkur á haustin þegar krakkarnir fara aftur í skólann,“ segir Kolbeinn og bætir við að fyrirtækið hafi fengið mjög jákvæð viðbrögð frá almenningi eftir að það lét þau boð út ganga að það væri tilbúið að ráða fólk til starfa sem komið er af léttasta skeiði.

 

 

Ritstjórn júlí 13, 2016 10:33