Vill byggja á arfleifð en skapa líka nýtt

Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir tók við starfi tónlistarskólastjóra Tónlistarskólans á Ísafirði fyrir skömmu. Hún er Ísfirðingur og segir að tónlistarskólinn hafi verið hluti af hennar uppvexti og uppeldi og að hún vilji nú skila til baka því sem hún hlaut í tónlistaruppeldi. Bjarney er margra manna maki þegar kemur að starfi en hún hefur breiða menntun á sviði tónlistar auk þess að hafa meistaragráðu í verkefnastjórnun sem mun nýtast henni í starfi sem hún segir að muni ganga út á að láta gott af sér leiða, þjóna og gefa til baka.

Einstaklega glæsileg og falleg bygging hýsir Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Tónlistarskóli Ísafjarðar.

Óhætt er að segja á Ísafjörður sé mikill menningarbær og þar hefur tónlistin verið í öndvegi. Bjarney Ingibjörg fór ekki varhluta af því. Hún gekk snemma í Tónlistarskóla Ísafjarðar og var alin upp við tónlist sem varð að ævistarfi hennar. „Þó að foreldrar mínir hafi ekki verið í formlegu tónlistarnámi var mikið um tónlist í kringum mig, ömmur mínar voru báðar í kórum og foreldrum mínum þótti sjálfsagt að setja mig og systkini mín í tónlistarskóla. Ég var sex ára þegar ég byrjaði, þannig að ég hef verið í tónlist allar götur síðan, lært á píanó, fiðlu og svo kom söngnámið. Það var enginn barnakór þegar ég var að alast upp, bara söngur á sal. Ég byrjaði að læra söng 16, 17 ára en Svala Nilsen kom að þjálfa kirkjukórinn og amma mín og nafna bauð mér söngtíma hjá henni. Á síðasta ári mínu í menntaskólanum kom Margrét Bóasdóttir vestur og það varð stóra kveikjan í mínu lífi. Ég kláraði menntaskólann frá tónlistarbraut og samfélagsbraut en þá var komin samvinna milli Tónlistarskólans og Menntaskólans á Ísafirði.

Eftir stúdentspróf 1986 hélt Bjarney til Reykjavíkur í frekara tónlistarnám og fór bæði í söng- og píanónám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. „Ég var hjá Halldóri Haraldssyni í píanónámi, Elísabetu Erlings og svo Sigurði Demetz í söngnámi og kláraði hjá honum 8. stig 1990 og var í þessum tveimur skólum. Ég tók svo pásu, gifti mig, eignaðist börn og fór vestur. Ég byrjaði svo að kenna þar og átta mig á hvað ég vildi gera. Ég fór því suður aftur 1993, fór í söngkennaradeildina í Tónlistarskóla Reykjavíkur, lærði þar hjá Siglede Kahman, lærði kórstjórn líka og var ráðin til Hallgrímskirkju. Þar var ég í níu ár með barna- og unglingakór. Ég hóf að kenna hjá Söngskólanum Hjartansmál, sem síðar varð Söngskóli Sigurðar Demetz, og starfaði þar við unglingadeild, en þar var ég til 2006.“

Bjarney Ingibjörg í íslenska búningnum sem amma hennar og nafna átti.

Ræturnar toguðu
Hugur Bjarneyjar leitaði heim og til Ísafjarðar flutti hún aftur og hóf störf við Tónlistarskólann en það er ekki eini staðurinn þar sem býðst að læra tónlist á Ísafirði. „Það eru tveir tónlistarskólar, hinn er Listaskóli Rögnvaldar og er starfræktur Edinborgarhúsinu sem Margrét Gunnarsdóttir hefur stýrt í um 30 ár og er listamiðstöðin okkar með tónlist, dans og myndlistarnámskeið. Hér er mikill suðupottur en hingað komu tónlistarfrömuðir eins og Jónas Tómasson og í kjölfarið Ragnar H. Ragnar til að stofna tónlistarskóla og við njótum góð af.“

Og nú er komið að Bjarneyju. Hún segist hlakka til að taka við starfi tónlistarskólastjóra og geta gefið til baka allt það sem hún hefur fengið í tónlistaruppeldinu og tók með sér út í lífið en Bjarney er með breiða tónlistarmenntun sem mun án efa nýtast henni vel. Tónlistarmenntun er ekki sú eina sem hún getur sótt styrk í. Bjarney útskrifaðist í fyrra með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá HR. „Þegar maður lifir og hrærist í tónlist frá blautu barnsbeini þá spyr maður sig sjaldan; langar mig að gera eitthvað annað? Þetta nám í verkefnastjórnun hefur nýst mér afar vel í mínu starfi við kennslu og kórstjórn og mun örugglega nýtast í skólastjórastarfinu en ég hef verið í hálfu starfi sem verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða. Við skipuleggjum ráðstefnur, komur og vettvangsferðir erlenda nema, við erum í samstarfi við aðra háskóla og ég sé um Vísindaportið sem er fyrirlestraröð sem er vikulega frá september til maí, júní og við fáum marga áhugaverða fyrirlesara. Svo sé ég um öll fjarpróf fyrir háskólana sem eru tekin hér.“

Bjarney Ingibjörg stjórnar á kóramóti í Fredericia í vor.

Fjölbreytt starf Tónlistarskólans 
Bjarney er þriðja konan til að gegna starfi skólastjóra á Ísafirði. „Sigríður Ragnarsdóttir var fyrst og svo Ingunn Ósk Sturludóttir, þetta voru öflugar konur og gaman að taka við arfleifð þessara sterku kvenna. Við höfum verið gæfusöm með alla okkar skólastjóra sem er gríðarlega mikilvægt. Hér hafa verið settar upp sýningar, t.d. Fiðlarinn á þakinu í samvinnu við Litla leikklúbbinn en hún var valin áhugamannaleiksýning vetrarins og þau munu flytja hana í Þjóðleikhúsinu í vetur. Þetta er í annað sinn sem slík sýning fer í Þjóðleikhúsið, hin var Söngvaseiður. Við höfum sett upp hátíðarkór sem hefur tekið þátt þegar Sinfóníuhljómsveitin kemur vestur og hann var öflugur með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna þannig að það eru víða spor. Það er arfur sem ég mun sannarlega taka með mér en það er líka mikilvægt að skapa eitthvað nýtt. Þetta þarf að haldast í hendur.

Mér finnst mikilvægt að skólastjórinn sé sýnilegur og til taks, ekki bara lokaður inni á einhverri skrifstofu. Bara við það að sitja á

Útskrifuð úr MPM.

kennarastofunni með tölvuna þá heyrir maður samræður og hvað kennurum er ofarlega í huga, hvernig rythminn er í skólanum og hvað fólk er að hugsa. Það gefur manni góða innsýn í starfið og í það sem er að gerast hjá nemendum. Þá er hægt að bregðast við og þannig að mál dagi ekki uppi heldur að leyst sé fljótt úr þeim því það er mjög mikilvægt að mínum dómi.“

Bjarney segir það mikilvægt að geta notað besta tíma dagsins til að fá börnin yfir, þegar þau eru óþreytt, en þetta styttir daginn líka, hann verður ekki eins langur. „Við höfum verið í samstarfi við grunnskólann en þessar stofnanir tvær eru hvor sínum megin við götuna en kennarar hafa verið að fá nemendur sem fara í frístund í tónlistarskólann. Þess vegna kom þessi frístund inn, börnin fá val um hvað þau gera og tónlist er eitt af því sem þau geta valið. Í kjallara Tónlistarskólans er leikskóli, Tangi, og Rúna sem er kennari hjá okkur, fer líka þangað og er með söngstund. Mér finnst mikilvægt og ánægjulegt hvað þessar þrjár stofnanir eru í miklu samstarfi.“

Börnin á Ísafirði njóta góðs, af er óhætt að segja, að fá þetta tónlistaruppeldi enda hafa Ísfirðingar átt öfluga málsvara í tónlistinni, bæði klassíska og í poppi og nægir að nefna Ingunni Sturludóttur, Helga Björns og Mugison. Það er nokkuð ljóst að starf nýs tónlistarskólastjóra verður umfangsmikið og meistaragráðan í verkefnastjórnun mun örugglega nýtast Bjarneyju vel.

„Tónlistarhátíðin Við Djúpið fór af stað 17. júní en aðalabækistöðin er í Tónlistarskólanum og hún er samstarf Tónlistarskóla Ísafjarðar, Tónlistarfélags Ísafjarðar og tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið. Þarna kemur fullt af flottu tónlistarfólki. Ég vona að námið í verkefnastjórnum hjálpi mér að hafa yfirsýn og að skipuleggja það sem fram undan er,“ segir Bjarney en hún er eins og valin í skólastjórastarfið með alla sína tónlistarmenntun, reynslu og menntun í verkefnastjórnun og gjörþekkir samfélagið á Ísafirði.

Skólastjóri í þjónustuhlutverki
Bjarney segist vera þakklát fyrir að fá þetta tækifæri, láta gott af sér leiða á þennan hátt og gefa til baka. „Einhvers staðar frá koma hlutirnir, tónlistarfólk sprettur ekki úr engu, það þarf að hlúa að tónlistarnámi. Allir kennarar sem ég hafði höfðu sín áhrif á mig og umhverfið sem ég ólst upp í. Hér voru samæfingar á sunnudögum og það var kannski rosalega gott veður á skíðasvæðinu en maður fór á samæfinguna og ólst upp við að ef maður tók eitthvað að sér þá sinnti maður sínum skuldbindingum, kláraði verkefnið og rækti sínar skyldur. Uppeldislega er þetta mjög mikilvægt, að hlaupast ekki frá skuldbindingum. En stundum er verið að bítast um sömu börnin. Mér finnst vera búið að taka þetta orð agi og gera það svolítið neikvætt. Í stað þess að hugsa; ef ég þjálfa einbeitingu, þá næ ég að gera mitt besta og láta ljós mitt og hæfileika skína. En einhvers staðar á leiðinni tóku við þetta orð og settum það í neikvæða merkingu. Þetta er miður. Það þarf að breyta þessari sýn, agi er tæki til að þjálfa einbeitingu, til að fólk geti látið hæfileika sína njóta sín. Ég hef svolítið verið að ræða þetta við mína nemendur, t.d. varðandi það að æfa sig heima o.fl. Það eru því ýmis verkefni fram undan,“ segir Bjarney og brosir.

Bjarney var í 65% starfi í vetur í tónlistarskólanum, kenndi söng og var með barnakór og skólakór, auk þess að vera með kórinn í kirkjunni sem henni hefur þótt mjög gaman. En nú tekur nýr tími við.

„Ég verð á einum stað í vetur en það hefur hjálpað að vegalengdirnar eru stuttar og það hreinsar hugann þegar vindurinn blæs,“ segir hún og hlær við. „Ég ætla ekki að kenna heldur vera skólastjóri og halda áfram að byggja upp skólann. Ég tek við gríðarlega góðu búi, Bergþór og Albert, sem var aðstoðarskólastjóri og vann að hlutum sem sneru út á við, voru öflugir báðir og sérlega yndislegir í allri samvinnu; við eigum eftir að sakna þeirra mikið. En nú er bara að taka við keflinu. Það var svo fallegt sem Bergþór sagði þegar hann var spurður í hverju það fælist að vera skólastjóri: „Það felst aðallega í því að vera í þjónustu“ sagði hann. Ég mun hafa þessi orð hans að leiðarljósi, maður er þarna til að þjónusta nemendur, foreldra og kennara. Það eru allir með mismunandi þarfir og við reynum að koma til móts við þær og hlusta á fólk til að allir geti fundið sér pláss og farveg í skólanum og geti notið sín. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn júlí 22, 2024 07:00