Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar:
Íslendingar hafa haft Boga Ágústsson á skjánum frá árinu 1977 þegar hann 24 ára gamall tók til starfa á Fréttastofu Sjónvarps. Hann kom inn ferskur úr námi í sagnfræði og íslensku við Háskóla Íslands og hafði verið hvattur til að sækja um. Sér til furðu fékk hann starfið og hefur verið á fréttastofunni síðan, lengi sem fréttastjóri en síðustu árin sem almennur fréttamaður.
„Ég fann mig strax í starfi. Alveg frá því ég man eftir mér hef ég haft áhuga á umheiminum, samfélaginu og því sem er að gerast í þjóðfélaginu. Það var bara spurning um með hvaða hætti ég yrði þátttakandi í því. Ég var virkur í skólapólitíkinni, bæði í háskólanum og menntaskóla en var tiltölulega fljótur að átta mig á því að ég hefði ekki áhuga á að verða pólitíkus,“ segir RÚV-arinn Bogi Ágústsson.
Bylting í fjölmiðlun
Bylting hefur orðið í fjölmiðlun, ekki síst fyrir þá sem eru í erlendum fréttum eins og Bogi hefur alltaf verið. Hann segir að þetta birtist einkum varðandi aðdrætti og heimildir en svo hafi blaðamennskan gjörbreyst með tilkomu netsins og aukins aðgengis að upplýsingum. „Það er eiginlega ekki hægt að líkja því saman,“ segir Bogi um aðstæðurnar í blaðamennskunni nú samanborið við upphaf ferilsins.
Gæði blaðamennskunnar telur hann að hafi aukist þó það sé alltaf huglægt. Að hans mati er það ekki spurning að blaðamennskan er miklu betri núna en hún var fyrir fjörutíu árum síðan. En honum finnst blaðamennskan líka ekki eins góð nú og hún var fyrir nokkrum árum.
„Það hefur þurft að skera svo mikið niður á fjölmiðlunum að undanförnu. Nú eru færri að vinna og hver og einn verður að vinna meira verk en áður og hefur því ekki eins góðan tíma til að afla sér upplýsinga. Að því leytinu til eru aðstæðurnar síðri. En ef við berum saman gæðin nú og fyrir fjörutíu árum síðan þá eru þau miklu meiri núna,“ segir hann.
Bölvað rugl
Bogi bendir á að það sé í tísku að segja að allt hafi verið betra áður fyrr en það sé „bölvað rugl. Stundum er sagt að myndirnar hafi verið miklu betri í sjónvarpinu í gamla daga en þegar kíkt er á þær þá sér maður að það er ekki rétt. Ef maður kíkir í gömul blöð þá er íslenskan betri nú en þá. Blaðamenn eru svo miklu meðvitaðri um nauðsyn þess að skrifa vandað tungumál og gera hlutina eins vel og mögulegt er. Þar að auki er ungdómurinn miklu heilbrigðari að nánast öllu leyti en þegar ég var unglingur.“
Gagnrýni á fjölmiðla telur Bogi að sé „meiri og rætnari“ en áður. „Auðvitað höfum við alltaf orðið fyrir gagnrýni og alveg sérstaklega eiga stjórnmálamenn erfitt með að horfa á hlutina öðruvísi en í tengslum við sín stjórnmál og það sem þeir fást við dags daglega. Þeir eiga erfitt með að skilja að það er fullt af fólki í samfélaginu sem hugsar ekki á sama hátt og þeir,“ heldur hann áfram.
Hlutverkið tekið alvarlega
„Sérkennilegt er að menn sem hafa verið í blaðamennsku komi stundum með fáránlegar, órökstuddar yfirlýsingar um að ákveðnir fjölmiðlar eða fjölmiðlamenn gangi erinda einhverra. Það er ekki þannig,“ segir hann og tekur fram að hann sé að tala um Ríkisútvarpið. „Ég get ekki talað um aðra fjölmiðla en það er út í hött að Ríkisútvarpið gangi erinda einhverra. Við tökum hlutverk okkar alvarlega. Við göngum ekki erinda neinna hagsmunasamtaka eða annarra sérhagsmunaaðila. Við göngum ekki erinda neinna nema almennings í landinu,“ segir hann.
Bogi sinnti stjórnendastörfum á Ríkisútvarpinu í tuttugu ár. Það segir hann að sé meira en nóg fyrir nokkurn mann. Upphaflega hafi hann komið á RÚV til að skrifa fréttir og því hafi hann gaman af, að starfa sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður. „Svo villtist maður inn í stjórnendastarfið án þess að hafa ætlað sér það og þegar maður er kominn þangað inn þá er alltaf eitthvað ógert og auðvelt að festast í því,“ segir hann.
Gaman að vinna fréttir
„Eftir að ég hætti að vera stjórnandi, sem nota bene var ekki að mínu frumkvæði þó að það hefði átt að vera það, uppgötvaði ég hve gaman það er að vinna fréttir og þætti,“ segir hann en finnur samt ekki fyrir neinni eftirsjá þegar hann lítur til baka yfir ferilinn. Hann bendir á að blaðamenn lifi í núinu. Einn af kostunum við blaðamennskuna sé að verkefni dagsins verði að klára því að ný verkefni taki við á morgun. Hvort sem gangi vel eða illa þá þýði ekkert að gráta yfir því því að ný verkefni liggi fyrir á morgun.
„Eftir á að hyggja sé ég pínu oggulítið eftir því að hafa eytt öllum þessum árum í stjórnun því það eru margar myndir sem ég hefði getað gert og viðtöl sem ég hefði getað tekið sem ég gerði ekki. Mér finnst einna skemmtilegast nú að eiga möguleika á því að gera fréttaskýringaþætti og viðtalsþætti eins og ég hef gert á undanförnum árum. Það er það sem er svo jákvætt við þetta starf,“ segir hann.
Vill vinna lengur
Bogi er fæddur árið 1952 og því 62 ára. Þegar hann horfir til framtíðar þá sér hann sjálfan sig ekki beinlínis hlaupa yfir í annað starf en hann er ekki farinn að hugsa mikið um framtíðina. „Eftir rúmlega átta ár er ljóst að ég mun neyðast til að hætta að vinna en ég myndi vilja vinna eins lengi og ég get ef ég hef heilsu til þess. Reglurnar hjá RÚV eru þannig að þegar fólk er orðið sjötugt verður það að hætta að vinna og ég verð sjötugur eftir rúmlega átta ár. Á þeim aldri fer maður ekki beinlínis að leita sér að nýju starfi,“ segir hann og getur ekki ímyndað sér að hann hætti að fylgjast með því sem er að gerast í heiminum þó að hann fái ekki greitt fyrir að skrifa fréttir á hverjum degi.