Vinna er ekki bara leið til að þéna peninga því vinnufélagarnir geta orðið góðir vinir. Á vinnustað þar sem fólk á öllum aldri vinnur myndast oft vinatengsl milli fólks á ólíkum aldri. Samtök eftirlaunaþega í Bandaríkjunum gerðu könnun á þessu fyrir skömmu og birtu niðurstöðurnar á síðu samtakanna aarp.org. 1500 tóku þátt á aldrinum 18 ára til 70 ára. Samkvæmt henni sögðust 37 prósent eiga vini sem eru fimmtán árum eldri eða yngri en þeir sjálfir. Rösklega fjórðungur sagðist hafa eignast þessa vini á vinnustað. „Á mörgum stórum vinnustöðum eru þrjár til fjórar kynslóðir við störf,“ segir Colette Thayer einn stjórnanda rannsóknarinnar. Vinnustaðurinn getur því verið góður staður til að hitta fólk á öllum aldri og eignast nýja vini sem eru annað hvort eldri eða yngri en maður sjálfur,“ segir hún.
Vinasambönd fólks á ólíkum aldri endast oft lengi eða að meðaltali í ellefu ár. Eitt vinasamband af fimm endist mun lengur eða yfir tuttugu ár. Allir aldurshópar telja að þeir hagnist á því að eiga vini sem eru eldri eða yngri en þeir. 61 prósent af hópnum sem átti eldri vini en það sjálft sögðu að eldri vinir gefi þeim annað sjónarhorn á lífið og tilveruna, 44 prósent segja að þeir fylli þá andagift, 40 prósent telja þá sem eldri eru vera góðar fyrirmyndir.
Rúmlega helmingur þeirra sem átti yngri vini en þeir voru sjálfir sögðu að vinirnir gæfu þeim nýtt sjónarhorn á menn og málefni, 37 prósent sögðu að þeir vildu gjarnan læra af reynslu þeirra og álíka margir sögðu að yngri vinirnir vildu deila með þeim skoðunum á öllu mögulegu.
Fólk sem á vini á ólíkum aldri segja að þeir tali um allt milli himins og jarðar við vini sína. Tæplega 40 prósent þeirra sem áttu vini sem voru annaðhvort fimmtán árum eldri eða yngri en þeir sjálfir, sögðust ekki leyna neinu fyrir vinum sínum og tæplega helmingur sagðist vera opinn í samskiptunum þó þeir deili ekki alveg öllu.
Í aarp greininni segir að það megi auðveldlega draga þær ályktanir af rannsókninni að það auðgi líf allra að eiga vini á mismunandi aldri. Það séu líka oft vinabönd sem trosni ekki auðveldlega. Það sé því gott að vinna á stað þar sem kynslóðirnar mætist.