Vítamín sem ekki ætti að taka með kaffi

Margir taka vítamín og fæðubótarefni á morgnana og drekka fyrsta kaffibollan strax eftir að töflurnar hafa verið gleyptar. Í vissum tilfellum eru það stór mistök því upptaka sumra vítamína og steinefna verður ekki eins skilvirk og góð séu ýmis efni sem er að finna í kaffi í meltingakerfinu á sama tíma.

Með aldrinum minnkar hæfni okkar til að vinna ýmis efni úr fæðunni og einnig geta margvísleg lyf haft áhrif á hversu vel við vinnum nauðsynleg Kaffi getur hjálpað líkamanum að vinna D-vítamín úr fæðu og skila því út sé það tekið inn en sink, kalk og B-vítamín eru viðkvæm fyrir fjölfenólum sem eru í kaffi og frásogast ekki eins vel með kaffi og án þess. Polyphenol antioxidants eða fjölfenól eru góð fyrir heilsuna, einkum hjálpa þau til við að draga úr líkum á hjartasjúkdómum en þau geta truflað upptöku margra vítamína og steinaefna úr fæðu. Fjölfenól er reyndar einnig að finna í ávöxtum, m.a. kirsuberjum, jarðarberjum, bláberjum, eplum og ólífum og í möndlum, sojabaunum, spínati, hörfræjum, dökku súkkulaði og negul. Það er því gott að huga að því hvenær þessara fæðutegunda er neytt og taka ekki inn fæðubótarefni á sama tíma. Tilbúin fæðubótarefni eru dýr og þess vegna sjálfsagt að tempra kaffidrykkju þegar og ef þau eru tekin inn í þeim tilgangi að nýta sem best þá heilsubót sem fá má með hjálp þeirra.

kaffi Hér eru nokkur næringarefni sem eru viðkvæm fyrir fjölfenólum:

Járn

Að drekka kaffi um leið og járn er tekið inn getur dregið verulega úr frásogi á því í meltingarveginum. Þetta var niðurstaða svissneskrar rannsóknar frá árinu 2022. Þar kom í ljós að þegar konur sem þjáðust af járnskorti og tóku inn járn drukku kaffi á svipuðum tíma og fæðubótarefnisins var neytt fengu 54% minna út úr töflunum en þær sem ekki drukku kaffi. Járnið vinnur ekki vel með tanníni sem einnig er í kaffi. Ef kaffið var hins vegar drukkið tveimur tímum áður eða eftir að járnið var tekið inn hafði það ekki áhrif á upptöku þess.

D-vítamín

Gerð var rannsókn á D-vítamíni árið 2021 með tilliti til hversu vel það nýtist fólki að taka það inn í töfluformi. Í ljós kom að ef kaffi var drukkið um leið og töflurnar voru teknar inn vann fólk mun verr úr D-vítamíninu. Koffín hefur þau áhrif á D-vítamín að það frásogast illa eða alls ekki.

B-vítamín

Koffín er þvagræsandi efni og þar B-vítamín er vatnsuppleysanlegt efni. Sé kaffi drukkið um leið og tekið er inn B-vítamín er líklegt að það leysist burt úr líkamanum með þvagi um leið og það hefur verið tekið inn. Hið sama á raunar við um C-vítamín. Fjölfenólin í kaffi hafa einnig áhrif á hversu skilvirk upptaka efnisins er í meltingarveginum. Ef verið er að taka inn þessi vítamín er gott að bíða með kaffibollann í tvær klukkustundir eftir að vítamín hafa verið tekin inn.

Kalk

D-vítamín hefur mikil áhrif á hvernig við vinnum kalk úr fæðunni og hversu vel það nýtist við að byggja upp og halda beinunum heilbrigðum. Kaffidrykkja hefur bein áhrif á hversu vel við nýtum kalkið. Þar sem kalk og D-vítamín vinna saman og frásog beggja truflast sé kaffi drukkið áður en unnið hefur verið úr fæðubótarefnum sem innihalda þau er betra að forðast kaffi séu menn að bygga upp bein eða vilja koma í veg fyrir beinþynningu.

Sérfræðingar telja að best sé að borða morgunmat fyrst, drekka sinn kaffibolla með matnum og bíða í tvær klukkustundir með að taka inn fæðubótarefnin. Það er vert að muna að hið sama gildir um te, kók og aðra drykki sem innihalda koffein. Gott er einnig að hafa í huga að borða næringarríkan mat til að vera viss um að fá öll þau fjölbreyttu næringarefni sem líkaminn þarfnast í gegnum fæðuna.

Það er líka mikilvægt að passa að drekka nóg. Kaffi er ekki góður vökvi að drekka til að halda því rakastigi sem líkaminn þarf á að halda. Koffín er þvagræsiefni og veldur því að líkaminn skilar frá sér vökva fljótlega eftir að hafa drukkið það og þá skilast einnig út mikið að mikilvægum vítamínum og steinefnum. Það er því gott að velja vel hvenær dagsins menn njóta þess að drekka kaffi og borða næringarríkt og hollt snakk annað hvort tveimur tímum áður eða eftir að menn njóta ilmandi bollans.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.