Ellert B Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni skrifar
Þegar ég var unglingur var tíminn lengi að silast. Maður var alltaf bíða eftir helginni, jólunum eða vorinu. Bíða eftir framtíðinni, mega taka bílpróf, fá kosningarétt, komast inn í bíó sem sýndu kvikmyndir sem voru bannaðar börnum. Eða komast inn á böllinn í bænum. Sífellt að bíða. En maður lifði þetta af og nú hefur þetta snúist við, því lífið heldur svo hratt áfram, að maður er alltaf að missa af einhverju. Ekki fyrr vaknaðar en dagurinn er allur. Ekki fyrr búinn að undirbúa sig fyrir veturinn en vorið er komið. Og svo rann allt í einu upp sá tími að við, skólasystkinin úr Versló frá 1957, efndum til samsætis, til að halda upp á sextíu ára afmæli útskriftarinnar. Sextíu ár, og við höfðum varla tekið eftir því. Hvað þá fundið fyrir því.
Gamalt fólk á áttræðisaldri flykktist að. Allir kysstust. Karlarnir líka. Long time, no see. En mikið var þetta yndisleg samkoma. Vð blessuðum minningu þeirra sem eru látnir og rifjuðum upp skólagönguna, atburði og sögur frá fyrri tíð. Hláturinn bergmálaði og lífskrafturinn dafnaði. Það var ekki að sjá eða heyra elli eða fararsnið á neinum. Þetta voru aldursvænir krakkar, sömu krakkarnir sem sátu saman á skólabekknum forðum. Strákarnir orðnir virðulegir öðlingar, stelpurnar blómarósir, sem enn eru ekki sprungnar út og það væri helst að lýsa þessu þannig að hópurinn var hokinn af reynslu og fróðleik, fólk sem hefur skilað sínu hlutverki á öllum vígstöðum, verslun og viðskiptum, atvinnulífi, náttúrufræði, stjórnmálum, lækningum, íþróttum og svo gæti ég áfram talið þá vettvanga sem þessir gömlu skólakrakkar hafa auðgað og numið og skrifað sína sögu.
Með öðrum öðrum orðum, kæru lesendur, þá var þetta kynslóðin sem er búinn að skila sínu og vel það. Fólkið sem við köllum gamalmenni og aldraða kalla og kellingar. Eiga auðvitað sín axarsköft og asnaspörk en hafa á móti lífsreynslu og framlag af áratuga þátttöku í samfélaginu. Lagt af mörkum, tekið þátt, verið með, til að rækta akurinn og skilað betra búi. Boðið afkomendunum bjartari framtíð.
Það er yndislegt að eldast ef heilsan leyfir, ef hugurinn fylgir og augun opnast fyrir þeim verðmætum sem standa til boða og allir geta notið, ef þeir eru það heppnir að eiga langan ævidag. Það eru forréttindi, sem við eigum að njóta og nota til að vera glöð og gagnleg í nærveru og þáttöku. Lífið er eins og sólin sem rís og hnígur, eins og árstíðirnar sem koma og fara. Vetur, sumar, vor og haust. Vandinn er sá að þetta gengur of fljótt fyrir sig, árstíðirnar og tilveran. Við getum víst ekki breytt sólarganginum eða ævitímanum. En þess heldur, njótum lífsins meðan við lifum. Vorið er komið og grundirnar gróa.
Gleðilegt sumar, kæru vinir og samferðarmenn