Yngstu og elstu ökumennirnir lenda helst í óhöppum

Það er athyglisvert að ungir ökumenn og ökumenn sem eru komnir yfir sjötugt, eru  álíka líklegir til að lenda í óhöppum í umferðinni. Hlutfall eldra fólks fer vaxandi hér á landi og spár gera ráð fyrir að eldri borgarar verði 20% þjóðarinnar árið 2045, eða eftir 20 ár. Reiknað er með að um 80-90% þeirra verði með ökuskírteini. Áætlanir gera ráð fyrir að eldri ökumönnum fjölgi hlutfallslega mest miðað við aðra aldurshópa ökumanna.

Eldri ökumenn 10% þeirra sem slasast

Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu verða dánarlíkur fólks í umferðinni almennt meiri eftir því sem líður á æviárin. Jafnvel þótt ökumenn 65 og eldri séu hlutfallslega aðeins 10% þeirra sem slasast eða látast í umferðinni, er það hlutfall hærra en það ætti að vera miðað við þátttöku þeirra í umferðinni. Slysahætta elstu ökumannanna er svipuð og þeirra yngstu, og í 66% umferðarslysa eru það ökumenn, 65 ára og eldri, sem eru skráðir slysavaldar.

Sérstök námskeið fyrir þá sem eldri eru

Félag eldri borgara ræddi fyrr á þessu ári við Samgöngustofu um sérstök upprifjunarnámskeið fyrir eldri ökumenn eftir fyrirmynd frá Noregi, en þar hafa verið haldin námskeið fyrir ökumenn 65 ára og eldri með góðum árangri. Meginmarkmið námskeiðanna er að auka umferðaröryggi eldri ökumanna og viðhalda möguleikum þeirra til að komast akandi milli staða.  Samgöngustofa vonast til að hægt verði að bjóða ökumönnum 65 ára og eldri upprifjunarnámskeið næsta haust.

Ekki hugmyndin að senda menn aftur í ökupróf

Það skal tekið fram að þáttaka í námskeiðunum verður algerlega frjáls og það er ekki ætlunin að menn gangi að nýju undir ökupróf, eða eigi á hættu að missa ökuréttindin. Hugmyndin er að skipuleggja námskeiðin í samstarfi við Félög eldri borgara í landinu með þáttöku ökukennara eða ökuskóla. Þá er það einnig hugmyndin að bæjar- og sveitarfélög auðveldi námskeiðahaldið með því að útvega húsnæði og kennsluaðstöðu.

 

 

Ritstjórn júlí 1, 2015 12:55