Þýtt, stytt og endursagt úr Economist
Lyfjafyrirtækin hafa staðið sig vel í að þróa meðul við hjartasjúkdómum, lifrar- og lungnasjúkdómum en eiga enn langt í land með að þróa lyf við sjúkdómum sem herja á hugann. Á fundi Alzheimiers samtakanna í Kaupmannahöfn í júlí í sumar, kom fram að meira en 44 milljónir manna áttu á síðasta ári við heilabilun að stríða. Búist er við að þeir verði orðnir þrisvar sinnum fleiri árið 2050. Þetta kemur fram í nýlegu hefti Economist tímaritsins.
Mögulegt að meta hvort hætta er á að menn fái alzheimer
Vísindamenn í lyfjaiðnaðinum halda áfram að leita og vonast eftir að finna lækningu að því er fram kemur í greinini í Economist. En það sem var einna áhugaverðast af því sem kom fram á fundinum snerist ekki um lyf, heldur nýjar leiðir að leita að eða segja fyrir um sjúkdóminn. „Það kann að vera tvíbent, með tilliti til þess að engin lækning er til við honum“, segir í greininni. Aðrir kynntu minna umdeildar upplýsingar sem sýna hvað er hægt að gera til að fresta því að menn fái heilabilun.
Aðferðirnar við að finna eða segja fyrir um sjúkdóminn, felast í því að reyna að finna ákveðin efni eða prótein í fólki sem eru talin valda því að því að menn fái sjúkdóminn. Þessi prótein heita beta-amyloid peptid og tau protein. Þessara próteina er leitað í heila, blóði og jafnvel í augum og nefi. Aðferðunum er lýst nákvæmlega í Economist, en ekki er farið nánar út í þær lýsingar í þessari endursögn. En í greininni kemur fram að áður hafi eingöngu verið hægt að finna sjúkdóminn með því að kryfja heila sjúklinganna þegar þeir voru látnir. Á síðustu tveimur árum hefur í Bandaríkjunum verið leyft að nota efni í tilraunum, sem gera mönnum kleift að finna amyloid prótein í lifandi fólki. Það hefur leitt til þess að unnt er að meta líkur á því hvort menn fái sjúkdóminn og þróun hans.
Til hvers að leita þegar lækning er ekki til?
„Þessar aðferðir lofa góðu“ segir í greininni, en afla þarf frekari gagna til að staðfesta áreiðanleika þeirra. Spurning sem þá vaknar er, ef þessar aðferðir virka er þá rétt að nota þær? Góðar aðferðir til að segja fyrir um sjúkdóminn, leiða nefnilega ekki til þess að unnt sé að lækna sjúkdóminum, þegar lækning er ekki til. Þrátt fyrir það segir Maria Carrillo hjá Alzheimer samtökunum að betri mæliaðferðir muni flýta fyrir þróun lyfja við sjúkdóminum. Sjúklingar sem eru að byrja í sjúkdómsferlinu geti þannig tekið þátt í tilraunum sem miða að því að koma í veg fyrir frekari þróun sjúkdómsins. Nýjasta dæmið um slíka rannsókn er milli Novartis, sem er stórt lyfjafyrirtæki, og Banner Alzheimers stofnunarinnar í Arizona. Greint var frá henni um miðjan júlí.
Líkamsrækt á miðjum aldri getur dregið úr líkum á heilabilun
Sem stendur, eru eru það ekki lyfjatilraunir sem gefa mestar vonir í baráttunni við sjúkdóminn, heldur tilraunir sem snúa að hegðun og lífsháttum. Hópur lækna á Mayo Clinic greindi frá því á Kaupmannahafnarfundinum að nýjar upplýsingar sýndu að líkamsrækt, sérstaklega á miðjum aldri, stuðlaði að heilbrigðiri heilastarfsemi og minnkaði þannig líkurnar á að menn þróuðu með sér heilabilun. Fyrirlestur Miiu Kivipelto frá Heilbrigðisstofnun Finnlands, var einnig mjög uppörvandi. Hún kynnti rannsókn sem náði til 1.200 Finna á aldrinum 60-77 ára. Þetta fólk var látið taka þátt í sérstöku verkefni sem snerist um hjartavandamál og þjálfun líkama og heila. Þegar þessi hópur var tveimur árum síðar borinn saman við annan hóp sem fékk enga sérmeðferð, bara venulega heilbrigðisþjónustu, skoraði hann hærra bæði hvað varðaði minni og skilning.
„Vísindamenn halda áfram að reyna að finna lækningu, en á meðan er hægt að nota sáraeinfaldar leiðir til að bægja heilabilun frá“, segir að lokum í grein Economist.