Rafdrifin rúm fyrir þá sem horfa á sjónvarpið í rúminu

Kristín Gísladóttir

Kristín Gísladóttir

Rafdrifin rúm eru orðin býsna algeng og nokkuð margir sem kaupa sér slík rúm til að nota heima. Rafknúin rúm eru með mótor og þau skiptast í 4-5 hluta sem hægt er að færa upp og niður með því að þrýsta á hnapp. Það er hægt að hækka og lækka höfðalagið, svæðið undir baki og svæðið undir lærum og kálfum.  Blaðamaður Lifðu núna sá rúm af þessu tagi í hillingum, en í umræðum um fyrirbærið var honum bent á að það væri hreint ekki skynsamlegt að nota rafdrifin rúm, það gæti  skaðað stoðkerfið að nota rafmagn til að hreyfa sig upp og niður í stað þess að gera það með eigin afli.

Ekki hætta á að stoðkerfið skaðist

Kristín Gísladóttir sjúkraþjálfari ráðleggur fólki varðandi rúmkaup einu sinni í viku, í verslun sem hún og eiginmaður hennar reka saman og heitir Vogue fyrir heimilið.  Þar selja þau tvær tegundir rafdrifinna rúma. „Við bjóðum upp á tvær gerðir rafknúinna rúmbotna“, segir hún. „Annar er hefðbundinn fjaðrandi trérimlabotn sem er svæðaskiptur þannig að mýkra svæði er undir axlir til að hleypa öxlinni niður í rúmið í hliðarlegu og stífara undir þyngri hluta okkar þ.e. mjaðmasvæðið.  Hinn botninn er flóknari að því leyti að fjaðrir hans lagast að hverjum líkamsparti fyrir sig. Þá er hann einnig á svokölluðum sleða, þannig að þegar efri parti botnsins er lyft færist rúmbotninn aftur á við um leið og hann lyftist upp, Þannig verður birtan frá náttlampa á borðinu áfram á réttum stað fyrir þann sem liggur í rúminu“.  Kristín segir enga hættu á að stoðkerfið verði fyrir skaða sofi menn í rafknúnu rúmi enda séu þetta þægindi en almennt ekki notað til að komast fram úr rúminu og almenna reglan sé sú að sofa láréttur en nota þessa tækni sér til hægðarauka.

Gott fyrir fólk með bakflæði

„Það er aðalatriðið að sofa láréttur í rúminu, það er meginmálið“ segir Kristín .“En það getur verið gott að geta hækkað höfðalagið örlítið, ef fólk er til dæms með slæmt kvef eða kinnholusýkingu. Það er einnig þægilegt fyrir þá sem eru með bakflæði  að hafa þennan möguleika“. Kristín bendir á að ef menn slasi sig á fæti eða séu með bjúg eða bólgur á fótum geti verið gott að geta ýtt á hnapp og lyft fótunum upp í rúminu. Það sé líka gott fyrir þá sem séu bakveikir að hvíla hryggjarsúluna með því að leggjast stundarkorn uppí rúm og lyfta upp neðri hlutanum. Þannig minnkar mjóbaksfettan og slökun næst í bakið. „Þetta finnst bakverkjafólki oft mjög slakandi staða. Svo er þetta bara alger lúxus“, segir hún.

Að horfa á sjónvarp eða lesa í rúminu

Kristín segir að þessi rúm séu mjög sniðug fyrir þá sem horfa á sjónvarpið í rúminu, eða lesi bækur á kvöldin. Líka fyrir þá sem vilji vera með Ipad eða tölvu upp í rúmi, en það sé algengt. „ það kemur til mín fólk í sjúkraþjálfunina sem er með verki í hnakka, hálsi og herðum. Það er kannski að kúldrast upp í sófa eða rúmi með marga kodda undir sér og með Ipadinn á hnjánum. Líkamsstaðan verður afleit og bætist kannski ofan á langan vinnudag í tölvu. Þá er betra að vera í rúmi þar sem hægt er að sitja upp við dogg, þó ég sé ekki að mæla með því að fólk sé með rafmagnstækin uppi í rúmi rétt áður en lagst er til hvílu“, segir hún.

Margir eru hrifnir af ragmagnsdrifnu rúmunum

Margir eru hrifnir af ragmagnsdrifnu rúmunum

Rúmið líka hvíldarstaður

Kristín segir að rafknúna rúmið sé ekki eingöngu svefnstaður, heldur líka hvíldarstaður. Fólk hefur sagt mér að það noti hvíldarstöður í rúminu til að  klára vinnu í tölvu, hvíla þreytta fætur eða bak eftir vinnudaginn og til að safna kröftum fyrir önnur verkefni.  „Almennt á  fólk að nota möguleika rúmsins til að finna góða stöðu og hvíld. Maður kemst alveg upp með að sofa með fætur aðeins upp eða lyfta höfðalaginu upp sofi maður á bakinu. En flest snúum við okkur yfir á hliðarnar og því ætti almenna reglan að vera sú að menn sofi láréttir. Sumir eiga líka erfitt með að komast fram úr rúminu og þá er hægt að nýta sér þessa tækni til að auðvelda sér að komast fram úr“, segir hún

Meira eins og sjúkrarúm

Þá eru líka til rafknúin rúm sem hægt er að hækka í heild sinni í lágréttu stöðunni. Kristín segir að þetta sé sérstaklega þægilegt þegar einhver þurfi að annast aðstandanda sem sé rúmliggjandi. Þá sé rúmið orðið meira eins og sjúkrarúm sem líti út eins og venjulegt rúm, en slík rúm þurfi að panta sérstaklega.

Misjafnt verð

Rafmagnsrúmin eru misjöfn og kosta misjafnlega mikið. Það eru botnarnir sem skipta mestu „Ofan á rafknúnu rúmin er  hægt að velja ýmsar dýnur“, segir Kristín. „ Á einfaldari botninn veljum við oft þykkari dýnu en sá tæknilegri nýtur sín betur með þynnri dýnu. Þannig koma eigineikar hans betur í ljós“, segir hún og bætir við að það sé nauðsynlegt að hafa tvær dýnur í hjónarúmi enda vilji kannski annar lesa en hinn hvílast. En það sé einnig hægt að fá rafknúin einstaklingsrúm í 90 og 120 cm breidd.´´

 

Ritstjórn nóvember 30, 2016 10:32