Njóta lífisins í sólskini um jól

kristin-tryggvadottir-passamynd„Það færist í vöxt að Íslendingar fari til Kanaríeyja um jól og áramót“, segir Kristín Tryggvadóttir fararstjóri hjá Ferðaskrifstofu Íslands á Gran Canaría en bætir við að þessar ferðir hafi verið mjög vinsælar í mörg ár. Það er blandaður hópur farþega sem sækir Kanarí heim um jólin. „Við fáum fjölskyldur með börn, hjónafólk og einstaklinga á öllum aldri. Allir koma hingað til að hafa það notalegt í góða veðrinu og njóta lífsins. Margir koma ár eftir ár um jól og áramót og sumir hafa það fyrir venju að koma hingað annað hvert ár og vera til skiptis á Kanarí og heima á Íslandi. Það koma hingað líka farþegar sem eiga erfitt um jól, til dæmis vegna fráfalls ástvinar og vilja breyta til og fara á suðrænar slóðir til að hreinsa hugann“, segir hún .

Jólamessa á ýmsum tungumálum

Jólin eru hátíð gleði og friðar, bæði á Íslandi og á Kanarí og Kristín segir að margir finni jólafriðinn þar syðra. „Fólk klæðir sig upp á aðfangadag og gamlársdag eins og við gerum heima og fer út að borða eða eldar heima. Það er mjög misjafnt hvað fólk gerir varðandi jólapakkana, sumir taka þá með og aðrir opna þá á Íslandi daginn áður en ferðin er farin Ferðaskrifstofan er svo með skoðunarferðir sem margir taka þátt í og ef einhver vill fara í kirkju þá er hér ferðamanna kirkja í Kasbah, kirkjan heitir  Templo Ecumenico  og  þar er messað um jólin á ensku, skandinavísku og spænsku“.

Íslenskir staðir bjóða uppá hangikjöt

Á Gran Canaría, þar sem Kristín starfar eru veitingastaðir í eigu íslendinga sem bjóða uppá hangikjöt um jólin og einnig svínahamborgarahrygg sem er keyptur á Kanarí. Kristín segir að hann sé mjög góður og svo sé mikið úrval af góðum veitingastöðum þar sem allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. „Fólk getur fundið góðan veitingastað, farið á ströndina, út að ganga eða farið í skoðunarferðir með fararstjóra“, segir hún. „Það er mikið er hér af skemmtigörðum, fuglagarður, krókodílagarður, go kart, tívolí  og einnig er hægt að fara í bátsferðir, köfun og fleira. Hér er líka mikið úrval af góðum matvöruverslununum og mörgum finnst gaman að elda heima og prófa ýmislegt nýtt sem finnst hér í búðunum“, segir Kristín um jólin á Kanarí. Þar þarf heldur ekki að kvarta yfir jólaveðrinu sem hún segir yfirleitt mjög gott, sól og 24-28 stiga hiti.

 

Ritstjórn desember 2, 2016 11:00