„Jólin fyrir austan voru stór og mikil fjölskylduhátíð, enda skiptir það okkur mestu að vera með fjölskyldunni á jólunum“, segir Björg Blöndal, sem bjó í 30 ár ásamt fjölskyldu sinni á Seyðisfirði. Hún og eiginmaðurinn Theodór Blöndal fluttu til Reykajvíkur á eftir börnunum sínum, þegar barnabörnin fóru að koma í heiminn. Þá voru þau hjónin fimmtug. Þau segjast vera svo heppin að eiga stóra og samheldna fjölskyldu, sú yngsta sé 3ja ára og sá elsti 91 árs, en það er faðir Theodórs.
Íbúðin sprengdi jólaboðið utan af sér
Björg segir að á Seyðisfirði hafi fjölskyldan verið saman heima á aðfangadag og á jóladag hafi þau haldið stórt boð fyrir alla fjölskylduna. „Við héldum þessari hefð fyrst eftir að við fluttum suður, en svo vorum við orðin svo mörg að íbúðin sprengdi boðið utanaf sér. Ég predikaði yfir börnunum mínum að þegar þau væru komin með börn, ættu þau að skapa sína eigin jólahefð. Þegar að því kom að þau vildu gera það sagði ég, fínt, þá verðum við hjá ykkur að aðfangadagskvöld“, segir hún.
Alltaf ís eftir 50 ára gamalli uppskrift
„Á jóladag höldum við svo stórt fjölskylduboð eins og við gerðum fyrir austan og höldum það heima hjá syni okkar sem hefur meira húspláss. Ég sé um matinn sem er alltaf eins. Það er pottréttur með rjúpunum frá aðfangadagskvöldinu og annar pottréttur með humar. Síðan er alltaf hangikjöt, og á eftir, heimalagaður ís eftir 50 ára gamalli uppskrift frá ömmu Theodórs á Seyðisfirði. Það má alls ekki breyta henni neitt. Laufabrauðsuppskriftin er líka frá henni og lengi vel bökuðum við laufabrauðið sjálf, en höfum í seinni tíð látið bökurunum það eftir“, segir Björg og margir kannast örugglega við íhaldssemina sem fylgir jólunum.
Karlarnir baka alltaf krústaði
Annað sem er óumbreytanleg jólahefð í fjölskyldunni er að karlarnir baka sérstakt brauð eða form, ekki ósvipað tartalettum, en þynnra. Pottréttirnir á jóladag eru bornir fram í þessu bakkelsi, sem er upphaflega danskt og var kallað krústaði á Seyðisfirði. „Þetta byrjaði með því að afi Theodórs kom til okkar með deigið og járnið sem er notað til að baka krústaðið og sagði þetta gerum við karlarnir í fjölskyldunni“, segir Björg. Hún segir að deigið í krústaðið sé látið standa í sólarhring áður en það sé bakað. Járnið sé síðan hitað í potti sem er fullur af heitri feiti. Því sé svo dýft í bolla sem er fullur af deigi, þannig að það festist í járninu og er síðan djúpsteikt í pottinum. „Þetta er ómissandi með potréttunum á jóladag“, segir Björg. Theodór hefur samkvæmt hefðinni séð um að baka krústaðið og nú er hann búinn að kenna syni sínum tæknina, til að tryggja að þessi hefð haldi áfram í fjölskyldunni – í karllegg.
Hvítkál með hangikjötinu
Fjölskylda Bjargar eldaði svo alltaf hvítkál til að hafa með jólamatnum og hún hefur haldið þeirri hefð. „Brúnað hvítkál er mjög gott með hangikjötinu og pottréttunum“, segir hún og bætir við að hún byrji að búa það til uppúr miðjum desember og borði það með öllum kjötréttum.
Hefur alltaf sungið í kirkjukór
Það hefur líka sett sinn svip á jólahald fjölskyldunnar að Theódór hefur sungið í kirkjukór, alveg síðan þau Björg fóru að búa saman á Seyðisfirði, fyrir margt löngu. Fyrst söng hann með kirkjukór Seyðisfjarðarkirkju en eftir að þau fluttu til Reykjavíkur í Grafarvoginn, hefur hann sungið með kirkjukór Grafarvogskirkju. Björg segir að áður en farið var í kirkju á aðfangadagskvöld, hafi allt verið undirbúið þannig að það þyrfti lítið að gera þegar heim væri komið og þá var hjálpast að við að sjá um matinn.
Flytja suður á eftir börnunum
Þau Björg og Theodór eiga þrjú börn og sex barnabörn. Tvö barnanna búa sitt hvoru megin við þau í Grafarvoginum, en það þriðja í Kópavogi. Tvær systur Theodórs búa líka í Grafarvogi. Fjölskylda Theodórs var öll á Seyðisfirði, en tíndist smátt og smátt suður til Reykjavíkur. Þau Björg voru síðust til að flytja þangað. „Ef börnin koma ekki tilbaka, flytja foreldrarnir á eftir þeim“, segir hún. „Við lítum á Grafarvog sem hluta af landsbyggðinni. Theodór er hér í kirkjukórnum og ég í sóknarnefndinni hjá Fúsa, en við vorum samtíða skiptinemar í Ameríku og höfum þekkst síðan við vorum unglingar“, segir hún. „Fúsi“ er Vigfús Þór Árnason sóknarprestur í Grafarvogi sem hætti nýlega störfum vegna aldurs.