Fyndnir og fattlausir

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Stundum getur verið erfitt fyrir okkur venjulega fólkið að fatta hvert ráðamenn og aðrir, sem eru áberandi í samfélaginu, eru fara, hvað þeir meina eða hvað þeir eru að segja. Þetta á til dæmis við um nýlegt svar forsætisráðherra við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis til ráðherrans um siðareglur ríkisstjórnarinnar í tengslum við lekamálið umtalaða. Var forsætisráðherra að reyna að vera fyndinn þegar hann svaraði fyrirspurninni með gagnspurningu um siðareglur umboðsmanns sjálfs, eða bjó alvara að baki svörum ráðherrans? Á kannski hvorugt við og er skýringin á viðbrögðum ráðherrans allt önnur?

Ef forsærisráðherra var að reyna að vera fyndinn þegar hann spurði umboðsmann Alþingis um siðareglur hans, þá er næsta víst að sú fyndni hitti að minnsta kosti ekki í mark hjá mörgum, sem er auðvitað ekki gott. Það er hins vegar líklega enn verra ef ráherrannn meinti í alvöru það sem hann spurði umboðsmann um, því það bæri ekki vott um mikinn skilning á störfum og hlutverki umboðsmanns. Auk þess getur það varla talist góð stjórnsýsla að svara spurningum með spurningum. Þriðja skýringin á viðbrögðum forsætisráðherra gæti auðvitað einfaldlega verið skætingur eða eitthvað þess háttar. Annað eins hefur nú sést. Kannski væri það skásta skýringin á viðbrögðunum. Skætingur er reyndar ekki traustvekjandi fyrir stjórnkerfið en það væri hægt að skilja þá skýringu á viðbrögðum ráðherrans með hliðsjón af hinum ýmsu viðbrögðum ýmissa í samfélaginu í hinum margvíslegu málum.

Annað mál. Sú hugsun læðist óhjákvæmilega að, að leiðarahöfundur stærsta áskriftardagsblaðs landsins hafi verið að grínast þegar hann fyrir skömmu blandaði J. Edgar Hoover, fyrrverandi yfirmanni bandarísku alríkislögreglunnar FBI, inn í umræðuna um lekamálið. Af hverju að grínast? Jú, hann segir til dæmis á einum stað í leiðaranum að Hoover hefði notið mikillar virðingar nánast allan sinn langa starfsaldur sem yfirmaður FBI og undanfara hennar. Og á öðrum stað segir hann að margt mjög gott megi auvitað segja um uppbyggingu Hoovers á sinni stofnun þótt sumt væri handan við öll mörk. Það var nefnilega það. Naut mikillar virðingar? Já, virðingar! Þetta er óneitanlega nokkuð sérstök söguskýring. Og uppbygging á sinni stofnun. Sinni!!! stofnun. Ekki er þetta síður sérstakur skilningur á opinberri stofnun. Hvort sem þetta á að vera fyndið eða ekki hjá leiðarahöfundinum, þá er það að minnsta kosti út af fyrir sig fyndið að blanda J. Edgar Hoover í lekamálið hér á landi.

Fyrst leiðarahöfundurinn var að draga fyrrverandi yfirmann FBI inn í lekamálið þá mætti alveg eins, og kannski enn frekar, nefna annan valdamikinn Bandaríkjamann frá síðustu öld, nefnilega fyrrverandi forsetann, Richard M. Nixon. Nixon gat ekki með nokkru móti viðurkennt mistök sín eða manna sinna í tengslum við Watergatemálið og gróf sjálfan sig stöðugt dýpra og dýpra með ummælum sínum fyrir um fjörtíu árum síðan, þangað til hann hrökklaðist frá völdum með skömm. Áköfustu stuðningsmenn Nixons vörðu hann með kjafti og klóm alveg fram í það síðasta. Minnir óneitanlega á ýmislegt og ýmsa, og sérstaklega suma.

En aftur að siðareglum, sem minnst er á hér að framan. Næsta víst er að ef forsætisráðherra hefði tekið þær alvarlega strax í byrjun, eða að minnsta kosti eftir að lekamálið kom fyrst upp, þá hefði verið hægt að komast hjá öllu því írafári sem tröllriðið hefur samfélagið á umliðnum mánuðum. Hvorki J. Edgar Hoover né Richard M. Nixon hefði þá nokkuð verið blandað í málið. Og við, venjulega fólkið, hefðum ekki þurft að klóra okkur í hausnum yfir því hvað forsætisráðherrann er að fara með svörum sínum við fyrirspurn frá umboðsmanni Alþingis.

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson ágúst 22, 2014 16:14