Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar
Tæp sex ár eru liðin frá bankahruninu. Og rúm fjögur ár eru frá því skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir þessara atburða var gerð opinber. Í fyrra var svo birt ransóknarskýrsla um Íbúðalánasjóð og önnur um sparisjóðina síðastliðið vor. Þrátt fyrir að sumir af helstu þátttakendum og leikendum í þeirri atburðarás sem fjallað er um í þessum rannsóknarskýrslum hafi eytt töluverðu púðri í að reyna að draga úr vægi þeirra, til dæmis með því að telja til einhver smávægileg frávik eða prentvillur sem litlu eða engu máli skiptu fyrir heildarmyndina, þá liggja engu að síður nú fyrir að mörgu leyti stórmerkilegar skýrslur. Skýrslur sem eru vitnisburður um fáránlegar aðstæður sem hægt er að skapa upp úr engu.
En hafa þessar skýrslur haft einhver áhrif? Hefur lærdómur verið dreginn af þeim? Eflaust að einhverju leyti, já. Ekki verður þó annað séð en að einmitt þeir sem einna helst ættu að draga lærdóm af skýrslunum, einni eða fleirum, hafi verið hvað duglegastir að streitast á móti. Ýmsir í atvinnulífinu, sem aðstöðu hafa til, virðast til að mynda haga sér eins og fyrir hrun. Þá segja athafnir ýmissa eigenda fjölmiðla sína sögu. Og ekki er hægt að merkja að ýmsir stjórnmálamenn hafi tekið mikið af því sem fram kemur í rannsóknarskýrslunum til sín. Hinir óbreyttu á þeim vettvangi virðast vera engu minni viljalaus verkfæri í höndum leiðtoga sinna en algengt var, og sumir hinna reynslumeiri virðast haga sér með sama hætti og þeir vafasömustu gerðu fyrir hrun.
Sumir telja að rannsóknarskýrslurnar hafi engu breytt, og hafi verið peningasóun. Svoleiðis raddir heyrast alltaf þegar tilraunir eru gerðar til að varpa ljósi á afglöp, mistök eða það sem aflaga hefur farið. Það er svo erfitt að viðurkenna mistök. Þingmaður nokkur var til að mynda í sjónvarpsviðtali fyrir skömmu spurður út í kostnaðinn við gerð rannsóknarskýrslanna þriggja. Þó viðkomandi sé þekkt fyrir að vera næstum aldrei orðavant þegar hljóðnemi er nálægt, þá gat hún nánast ekki komið upp orði vegna hneykslunar yfir kostnaðinum. Hún stóð eiginlega á gati. Þetta var auðvitað þrælskipulagt og þjónaði þeim augljósa tilgangi að tala skýrslurnar niður. Inntakið í orðum hennar, þegar hún loksins kom þeim frá sér, var að ein skýrslan hefði svo sem verið ágæt að ýmsu leyti en að hinar væru vonlausar. Þetta er líka þekkt aðferð í áróðursfræðunum.
Að beina athyglinni að kostnaði við rannsóknir eða athuganir, sem lendir á skattgreiðendum, er auðvitað þekkt leið þeirra sem vilja ekki taka á hinum raunverulega vanda hverju sinni. Tug þúsunda milljóna króna tap þjóðarbúsins, og þar með skattgreiðenda, vegna ákvarðana og aðgerða í tengslum við Íbúðalánasjóð, annars vegar, og sparisjóðina, hins vegar, ætti auðvitað ekki að hverfa í skuggann af nokkur hundruð milljóna króna kostnaði við rannsóknir á ákvörðunum og aðgerðum þeirra sem stóðu næst þessum fjármálastofnunum. Kostnaðurinn við gerð þessara skýrslna á auðvitað ekki að vera aðalatriðið, þó mikill sé, heldur það sem aflaga fór hjá fjármálastofnunum, hjá stjórnmálamönnunum og hjá atvinnulífinu. Það eru til stjórnmálamenn sem hafa bara ekki áhuga á að taka á þessum málum.
Hvað sem öllu líður þá eru rannsóknarskýrslurnar þarna. Þær liggja fyrir og það er alltaf hægt að rifja upp það sem úrskeiðis fór, sama hvað einhverjum dettur í hug að gera til að freista þess að tala þær niður, sama hvað sumir eru duglegir við að endurrita söguna til að fegra eigin gjörðir, og þrátt fyrir þrotlausar tilraunir til að kenna öðrum um, sérstaklega vondum útlendingum, sem svo mjög hefur tíðkast upp á síðkastið. Rannsóknarskýrslurnar eru vitnisburður um glötuð tækifæri, oflátungshátt, bruðl og vitleysu á fjölmörgum sviðum. Með því að einblína á aukaatriðin, eins sumir gera statt og stöðugt, fer lærdómurinn forgörðum. Það virðist ansi oft eiga við það sem segir í hinni góðu bók um bjálkann og flísina.