Tengdar greinar

Eldra fólki ekki treyst á sama hátt og yngra fólki

Davíð Snær Jónsson.

Inger Erla Tomsen

Hver eru viðhorf þjóðfélagsins gagnvart þeim sem eru farnir að eldast, er umfjöllunarefni þáttarins 50 plús á Hringbraut. Þar er rætt við Albert Guðmundsson laganema og varaþingmann Sjálfstæðisflokksins sem segir að það sé oft sagt að yngri kynslóðin ætti að fjalla meira um málefni eldri borgara. „Ungt fólk á að vera virkara að láta í sér heyra varandi þessi mál,“ segir Albert, sjálfur segist hann vera í góðu sambandi við eldra fólk enda deili hann heimili með móður sinni og ömmu.  Það er samfélagsleg skylda að halda utan um málefni þeirra sem eldri eru en það er ekki síður mikilvægt að kerfið sé þannig byggt upp að fólk sem hefur starfgetu og starfsvilja sjái hag sinn í því að vera virkt á efri árum. Salvör Nordal forstöðumaðurSiðfræðistofnunar Háskóla Íslands segir að þjóðfélagið eigi það til að vannýta þennan hóp. „Að mörgu leyti erum við kassalöguð í hugsun,“ segir hún. Salvör tók dæmi af skólakerfinu og sagði að þar væri lítill sveigjanleiki og það sama gilti um eldra fólk, það væri lítill sveigjanleiki á vinnumarkaði fyrir þennan hóp. „Þetta virkar oft mjög kalt,“ sagði Salvör.  Hún sagði að það væri til dæmis fátítt hér á landi að fólk gæti átt sér annan karríer þegar það væri komið á lífeyrisaldur. Að fólk sem er hokið af reynslu úr stjórnmálum eða fólk sem hefur stýrt stórum fyrirtækjum geti fundið sér nýjan farveg þegar það eldist.  Það er einnig rætt við tvo famhaldsskólanema í þættinum, þau Inger Erlu Tomsen og Davíð Snæ Jónsson. Þau eru sammála um að það séu miklir aldursfordómar í samélaginu. „Aldursfordómar birtast til dæmis á vinnumarkaði þar sem eldri borgarar fá ekki sömu tækifæri og aðrir. Þeim er ekki treyst á sama hátt og yngra fólki og eru taldir lélegri á vinnumarkaði,“ segir Davíð Snær. Hann segir þetta ósanngjarnt því eldra fólk sé oft á tíðum betra starfsfólk en þeir sem yngri eru.  Inger Erla sagði að kynslóðirnar tali ekki nægjanlega saman. „Við vinnum gegn hvort öðru. Við þurfum að vinna saman sem heild. Ekki vera með aldursfordóma.“ Við eigum að vinna saman og gera gott samfélag betra,“ segir Inger Erla.

Fimmtíu plús er á dagskrá klukkan 20.30 á mánudagskvöldum og er endurtekinn sama kvöld klukkan 22.30. Hann er endursýndur á þriðjudögum og um helgar. Hér er slóð inn á þáttinn   https://youtu.be/rLmEpb5XWq8 auk þess sem hægt er að smella á hnappinn 50 plús til hliðar hér á síðunni.

 

 

 

Ritstjórn maí 8, 2017 12:44