Að njóta kyrrðar í náttúrunni

Edda Laufey Pálsdóttir

Hún Edda Laufey Pálsdóttir gekk hinn fræga Jakobsveg árið 2014. Á göngunni fór hún að velta því fyrir sér hvort ekki væri hægt að bjóða upp á pílagrímagöngu á Íslandi. Henni varð hugsað til þess að með suðurströnd Íslands eru margar fallegar litlar kirkjur. Þegar heim var komið settist hún niður og gerði leiðarlýsingu fyrir göngu frá Strandakirkju og í Skálholt. Hugmyndina kynnti hún svo fyrir sveitastjórnum á svæðinu og var vel tekið. “Það er vaxandi áhugi hjá fólki að komast út í náttúruna, njóta kyrrðar og eiga stundir með sjálfu sér, félögum sínum og vinum. Mér datt í hug að við sem búum hér á Suðurströndinni gætum komið til móts við þennan hóp með því að skipuleggja gönguleið frá Strandakirkju að Skálholtskirkju. Pílagrímaleið þar sem ferðalangar ganga frá kirkju til kirkju,” segir Edda Laufey.

Göngunni er skipt upp í fimm áfanga og er gengið annan hvern sunnudag frá því í maí og fram á sumarið. Í fyrstu gönguna í maí í fyrra mættu um 60 manns en að meðaltali voru 25 til 35 sem gengu hvern legg. Við upphaf hverrar göngu hafa prestar og djáknar komið í kirkjurnar og haldið bænastund með hópnum áður en lagt er af stað. Svo hafa heimamenn og staðkunnugir tekið þátt í göngunni og deilt vitneskju sinni og minningum af heimahögunum með göngumönnum.

“Þessar göngur hafa verið alveg yndislegar. Fólk gengur hluta leiðarinnar í þögn og hefur þá tækifæri til að hugsa og velta fyrir sér lífinu og tilverunni,” segir Edda Laufey. Pílagrímagangan er nú farin í samvinnu við Ferðafélag Íslands. “Dagleiðirnar eru mislangar en þær eru allar á flatlendi og því geta allir sem eru í þokkalegu formi tekið þátt í þeim. Fólk á öllum aldri hefur tekið þátt í göngunum sá yngsti var tólf ára. Þetta hentar öllum,” segir Edda Laufey. Sjá einnig Pílagrímagöngur njóta mikilla vinsælda.

Ritstjórn júlí 7, 2017 10:28