„Þetta er snúið, en ekki búið.“ Einstaklingar á miðjum aldri og framtíðarsýn þeirra er yfirskrift á mastersverkefni Lindu Bjarkar Hávarðardóttur í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Í ritgerðinnin leitast hún við að varpa ljósi á upplifun einstaklinga á miðjum aldri þegar kemur að því að skipta um starf eða stefnu í lífinu. Linda Björk tók viðtöl við átta enstaklinga á aldrinum 52 til 57 ára, þrjá karla og fimm konur. Sumir viðmælendanna höfðu fundið hjá sér köllun til að skipta um starf, aðrir voru knúnir til þess af örðum ástæðum svo sem atvinnumissi. Meðal viðmælenda var kennari, listamaður, ritstjóri, fyrirtækjaeigandi og leiðsögumaður.
Linda Björk lagði upp með þrjár spurningar í rannsókn sinni. Þær voru: Er endursköpun á atvinnuhæfni á miðjum aldri nauðsynleg? Hvernig geta stjórnendur komið til móts við þarfir starfsmanna á miðjum aldri? Er kreppa á miðjum aldri óhjákvæmileg afleiðing þess að eldast?
Í samantektarkafla ritgerðarinnar segir Linda Björk: „Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að einstaklingar þurfa ekki að kvíða fyrir að komast á miðjan aldur, heldur frekar mætti fara að hlakka til. Þeir einstaklingar sem hafa farið í endursköpun á atvinnuhæfni sinni eru ánægðir með það. Þeir fundu fyrir stöðnun og leiða áður en þeir fóru út í þessar breytingar. Því er ekki hægt annað en mæla með því að einstaklingarnir leiti leiða sem þeim hentar til þess að endurskapa sjálfan sig. Starfsfólk á miðjum aldri mætti nýta enn betur en gert er í dag þar sem margt af hæfileikum þess er fólgið í reynslu og þekkingu. Því ættu stjórnendur að huga að því að nýta þennan starfskraft og jafnvel aðstoða við endurmenntun eða áherslubreytingar innan skipulagsheildarinnar. Þessir einstaklingar hafa samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar ánægju af því að miðla þekkingu sinni og kenna og deila með öðrum því sem þeir þekkja og kunna. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að það að þrátt fyrir að vera á miðjum aldri er ekki sammerkt því að ganga í gegnum einhverskonar kreppu. Flestir fara í gegnum þetta æviskeið án þess að finna mikið fyrir því og líta jafnvel á það sem blómaskeið lífs síns. Líkurnar á kreppu eru hins vegar til staðar, einkum sökum þess að mikið álag er á þessum aldri. Koma þarf börnum á legg, sinna öldruðum foreldrum og borga af húsnæðislánum. Að auki verður einstaklingurinn meðvitaðri um ódauðleika sinn og getur það leitt til kreppu hjá einhverjum einstaklingum. Alls ekki allir ganga í gegnum slíka kreppu, ekki frekar en allar konur þjáist af miklu svitakófi á þessum aldri. Mennirnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir og eins er það með það hvernig þessi aldur leggst á einstaklinginn. Sumir finna ekki fyrir honum á meðan aðrir fara alla leið og kaupa sér rauða sportbílinn, fara í fallhlífastökk og skipta konunni út fyrir yngra módel.“