„Við förum í tvær golfferðir á ári, aðallega til Spánar. Við höfum verið á svæðinu í kringum Alicante sem er mjög skemmtileg borg og ekki of stór“, segir Ágústa Hansdóttir sem stundar golf ásamt eiginmanninum Halldóri Péturssyni. Í vor fóru þau og spiluðu golf á velli sem heitir El Plantio, en það er vinsælasti golfstaðurinn hjá Úrvali Útsýn. „Það eru forréttindi að eldast og geta leikið sér“, segir Ágústa og bætir því við að golfvöllurinn á El Plantio sé frábær og alveg sérstaklega vel staðsettur. Það sé hægt að spila golf eins og hverjum og einum henti og fara í sólbað í sundlaugunum á staðnum, sem séu tvær. Hún segir að séu menn tveir saman, séu þeir paraðir við aðra golfara og spili með ákveðnum leikmönnum í dag en öðrum á morgun. „Þannig kynnast menn betur,“ segir hún.
Mæli hiklaust með þessu fyrir alla
Ágústa og Halldór byrjuðu að spila golf árið 2011. Hún segir að það sé aldrei of seint að læra að spila golf. „Ég mæli hiklaust með þessu fyrir alla. Fólk gengur og hreyfir sig, þetta er góð útivera og góður félagsskapur. Ég vildi bara að ég hefði byrjað fyrr og skil ekki hvað ég gat legið á sólarströnd í sólbaði, ég nenni því ekki lengur“. Og hún telur að golfið sé ekki dýrara en margt annað sport. Það þurfi ekki að byrja á að kaupa rándýrt golfsett þegar fólk sé að byrja. Sjálf sé hún ennþá með sama settið og hún byrjaði með á sínum tíma.
Nýta tímann eftir vinnu og um helgar
Hún segir að þau hafi byrjað í golfinu fyrir sjö árum á svipuðum tíma og vinafólk þeirra. Þau eru með eigið fyrirtæki og hafa þess vegna sveigjanlegan tíma. „Maður nýtir tímann eftir vinnu og um helgar. Þetta er bara spurning um að segja sig úr sófavinafélaginu og drífa sig. Það er ekki hægt að hugsa sér neitt betra. Við förum oft á Sandgerðisvöllinn en þar er hægt að spila allt árið. Við höfum spilað golf þar á nýársdag“, segir Ágústa hæstánægð. „Við vorum með hund og löbbuðum út með hann á hverjum degi“, segir hún um tildrög þess að þau byrjuðu í golfinu. „Fólk í kringum okkur var byrjað að spila golf og við ákváðu að þegar hundrinn yrði allur myndum við prófa golfið. Og þegar þar að kom, gerðum við það“.
Toppurinn að fara á námskeið til Spánar
„Að fara á golfnámskeið á Spáni, það er toppurinn“, segir Ágústa. „Þá ertu í kennslu fyrir hádegi og þar er farið með kennaranum yfir sveifluna og ýmislegt fleira. Eftir hádegi getur þú svo spilað ef þú vilt. Fólk hefur misjafnlega mikinn áhuga og mismikla orku. Sumir taka 36 holur, en aðrir 18. Enn aðrir taka 27 holur. „Sjálf er ég bara með eitt lunga og tek 18 holur og stundum 27. Á vellinum notum við golfbíl. Fólk þarf ekkert að óttast það, þó það sé ekki í fínu formi. Það er bara að byrja rólega. Við kolféllum fyrir golfinu og allt okkar vinafólk er komið í þetta. Það er líka gaman að ferðast um landið og spila golf, en hér er allt fullt af litlum golfvöllum.
Spiluðu við níræða konu í Alicante
Þau eru búin að fara í margar golfferðir til útlanda og Spánn hentar þeim vel. Ágústa segir að það sé ódýrara að spila golf í Bandaríkjunum, en fyrirkomulagið þar sé annað en í Evrópu, til dæmis þurfi allir að vera þar á bíl. Þau ætla í haust að fara aftur í golf á El Plantio, enda segir Ágústa það einkar hentugt, völlurinn sé í tíu mínútna fjarlægð frá flugvellinum og það taki 10 mínútur að fara þaðan niður í bæ. Það sé allt til alls í íbúðunum sem yfirleitt séu með 2-3 svefnherbergi og tvö baðherbergi. Þarna sé allt innifalið. Flestir sem þau hitta í golfinu er fólk sem er komið um og yfir miðjan aldur. „Þá er fólk orðið frjálst og komið með fjárhagslegt öryggi“ segir Ágústa. En fólk er á öllum aldri í golfinu. „Við spiluðum í Alicante með níræðri konu sem var í golfi með tveimur vinkonum sínum og hún spilaði 18 holur á hverjum degi“.