Café Atlanta í Kópavogi selur heimilismat á hóflegu verði í hádeginu. Boðið er uppá súpu, salat og rétt dagsins á milli klukkan 11:30 og 14:00, en á öðrum tímum dagsins er hægt að fá kaffi, safa og kökur eins og til dæmis hafraklatta og hrákökur. Sem dæmi um matseðilinn, þá var boðið uppá kartöflusúpu með beikonbitum í dag og aðalrétturinn var Steikt blálanga með rótargrænmeti. Á morgun verður paprikusúpa og ítalskar kjötbollur með pasta í aðalrétt. Máltíðin kostar 1650 krónur, en kaupi menn tíu matarmiða fá þeir 5-10% afslátt og þá getur máltíðin verið komin niður í 1485 kr.
Bjarni Freyr Kristjánsson veitingastjóri í Café Atlanta segir að það sé stefnan að bjóða uppá góðan heimilismat alla virka daga, en staðurinn er lokaður um helgar. Á virkum dögum er hann opinn milli klukkan 8:00 og 16:00. Bjarni segir að það hafi ekki reynst grundvöllur til að hafa hann opinn á kvöldin.
Café Atlanta er í húsi Air Atlanta í Hlíðarsmára í Kópavogi, beint fyrir ofan Smáralind. Áður var rekinn þar veitingastaðurinn Amokka. Eftir að Amokka hætti rekstri tóku Air Atlanta menn við rekstrinum. Starfsmenn Air Atlanta nota staðinn sem mötuneyti en hann er ekki eingöngu fyrir starfsmenn Atlanta, heldur alla sem vilja koma og borða góðan heimilismat í hádeginu.
Bjarni Freyr segir að um 120 manns borði í hádeginu hjá þeim í Café Atlanta. Þetta sé fjölbreyttur hópur og margir komi úr nærliggjandi fyrirtækjum, en uppistaðan í gestahópnum, eða um 60%, séu starfsmenn Atlanta. Hann segir líf og fjör á staðnum í hádeginu og það sé það skemmtilegasta við starfið hvað hann hitti margt fólk.
Hér má sjá vikumatseðilinn hjá Café Atlanta.