Morgunblaðið greinir frá athyglisverðu máli í dag.
99 ára kona sem sótti nýverið um varanlegt pláss á hjúkrunarheimili í Reykjavík fékk höfnun á þeim forsendum að önnur úrræði væru ekki fullreynd.
Konan, sem fram að þessu hefur verið mjög hraust, er nú nánast rúmliggjandi og háð aðstoð ættingja.
„Amma hefur alltaf verið hraust og ern, en nú er líkaminn farinn að gefa sig. Ég og mamma höfum séð um þarfir hennar og ekki sótt um neina aðstoð frá borginni. Henni hrakaði mjög á síðasta ári, svo að við ákváðum í vor að sækja um hjúkrunarheimili. Hún hafði tvisvar nýtt sér hvíldarinnlögn á Hrafnistu og fannst það gott fyrir sig. Við töluðum við heimilislækni sem skrifaði bréf sem sagði að hún gæti ekki lengur verið heima og hefði þörf fyrir hjúkrunarheimili, elliheimili væri ekki nægjanlegt fyrir hana. Við fengum höfnun á þeim forsendum að það væri ekki fullreynt að nýta sér þau úrræði sem byðust til stuðnings til áframhaldandi búsetu á eigin heimili, eins og að fá þjónustu heim, en málið er að við höfum hjálpað henni með þá þjónustu,“ segir Hólmfríður Kristjánsdóttir, barnabarn konunnar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.