Afi, af hverju eigið þið amma engin börn?

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

 

„Afi, af hverju eigið þið amma engin börn?“ spurði ung sonardóttir sem sat sat í aftursætinu á bílnum. Spurningin krafðist útskýringar að þótt ekki væru börn heima hjá ömmu og afa værum við amma búin að eiga börn og ala þau upp og svo kæmu nýjar kynslóðir. Fræðsla um lífið og tilveruna og svar við einlægum spurningum er hluti af þeim ánægjulegu stundum sem við eigum með börnum og barnabörnum. Ég hef oft hugsað um hve skemmtilegt hefði verið að skrifa upp öll gullkornin sem koma frá börnum og barnabörnum. Ég hef því miður ekki gert það. Mörg skemmtileg tilsvör og spurningar koma samt upp í hugann. Hér fara á eftir nokkur sýnishorn.

Ég minnist þess þegar við Elín fórum eitt sinn í utanlandsferð með börnum okkar. Sonurinn var þá 4 ára að mig minnir. Við feðgarnir sátum saman í sætum, sonurinn við glugga og Elín með dæturnar fyrir aftan okkur. Þegar flugvélin flaug upp fyrir skýin, heiður himinn, skýjavíðáttan og glaða sólskin blasti við, horfði pilturinn um allt himinhvolfið góða stund og spurði svo: „Pabbi, hvar er Guð?“ Þá vissi ég að kristnifræðslan hafði skilað einhverjum boðskap.

Eitt sinn um sumar vorum við að vinna í garðinum og allir í fjölskyldunni hjálpuðu til. Ég hafði lokið slætti og ung dóttir ætlaði að raka saman: „Pabbi, hvar er rakarinn?“ Ég áttaði mig á því að mun eðlilegra heiti á hrífu er rakari.

„Afi, hvar er amma þín?“ spurði 3 ára sonardóttir þegar afi kom einn í heimsókn en ekki í fylgd ömmu eins og venjulega. Amma heitir bara amma í huga lítillar stúlku.

„Já, það er alveg rétt,“ sagði ungur dóttursonur þegar við sátum við stofuborðið með nokkrum af barnabörnunum og ræddum lífið og tilveruna, „annars getur verið að við hættum að tala íslensku á Íslandi.“ Amma telur mikilvægt að hamla á móti enskuslettum í íslensku málfari og leggur ríka áherslu á að ekki sé sagt hæ og bæ heldur sæl og bless, þegar komið er í heimsókn. Amma hafði nýlokið orðræðu um um að vaxandi notkun erlendra orða gæti haft í för með sér að íslenskt mál breytist á komandi árum.

Hvað er skemmtilegast við að verða fullorðin var umræðuefnið. „Ég hlakka svo til að vera fullorðin,“ lýsti dótturdóttir yfir, „því þá get ég farið að eignast börn.“ „Vinur minn“ sagði ungur dóttursonur, „segir að skemmtilegast við að vera fullorðinn er að fá bílpróf.“ Framtíðarsýn unga fólksins er misjöfn.

Í morgunútvarpinu einn morgun var rætt við kennara sem sagðist verða var við minnkandi orðaforða barna. Kennarinn ræddi m.a. um að algengt væri að börn virtust ekki skilja mörg orð sem tákna tilfinningar. Svo virðist vera sem foreldrar ræði minna við börn sín um tilfinningar en áður. Kennarinn sagði að barn hefði beðið um útskýringar á orðinu heiðarleiki. Ég ákvað að kanna máltilfinningu barnabarnanna. Við hittum 9 ára dótturson og fótboltakappa og ég spurði hann hvort hann þekkti orðin heiðarleiki og óheiðarleiki. Hann hugsaði sig um nokkra stund og sagði síðan: „Í fótboltaleik, þegar boltinn fer út af vellinum og einhver í liði tekur innkast sem hans lið á ekki, þá er það óheiðarleiki.“ Þetta fannst mér gott svar tekið úr daglegu lífi hans.

Svona atvik eru skemmtileg og eftirminnileg í samskiptum við börnin og barnabörnin.

(Endurbirt frá 2018)

Þráinn Þorvaldsson mars 19, 2018 09:15