Erum ótrúlega ánægð hérna

Hjónin Stefán B. Veturliðason og Helga Kristjánsdóttir eru nýflutt í glæsilega blokkaríbúð í Sjálandshverfinu í Garðabæ. Þau seldu 340 fermetra hús sem þau áttu þar, en það var einbýlishús með auka íbúð, og keyptu 150 fermetra íbúð í Nýhöfninni, alveg niður við sjóinn.

Kemur á óvart hvað þetta er þægilegt

„Við erum ótrúlega ánægð hérna“ segir Helga, „en þegar maður flytur í sambýli veit maður ekki alveg við hverju er að búast. Maður tekur ákveðna áhættu, en það hefur komið mér á óvart hvað þetta er þægilegt“. Stefán segir að hann hafi haldið að hann væri bundnari húsinu en raun varð á, en húsið byggðu þau sjálf. Hann rifjar upp að foreldrar hans seldu húsið sitt á Ísafirði og fluttu í blokk, þegar börnin voru uppkomin, en Stefán var fæddur og uppalinn í húsinu. „Svo þegar ég kom til þeirra í blokkaríbúðina fannst mér ég bara komin heim“ segir hann. Það er greinilega fólkið en ekki húsnæðið sem skiptir máli.

Byggðu húsið smám saman

Þau voru búin að búa í húsinu í Garðabæ í 25 ár. Keyptu uppsteyptan kjallara og héldu svo byggingunni áfram. Það var eina leiðin fyrir fólk sem var að koma úr námi, til að fjármagna húsbyggingu á þeim tíma. Þau áttu blokkaríbúð sem þau seldu og byggðu húsið smám saman. Helga segir að hún hafi farið að hugsa um það fyrir 5-6 árum að fara að minnka við sig, en þá voru synirnir farnir að heiman. Þau hefðu mikið að gera, væru bæði í fullri vinnu og Stefán í miklu félagsstarfi þar fyrir utan. „Það fór orðið allur tíminn í að halda húsinu við“, segir hún.

Geta ferðast meira

Stefán segist hafa haft meira gaman af garðinum en Helga og líklega hefði hann ekki haft frumkvæði að því að flytja úr húsinu. Hann var hins vegar alveg til í að flytja þegar að því kom. Honum finnst helsti kosturinn við það vera sá, að þau geti verið lausari við og ferðast meira og að minna fjármagn sé nú bundið í íbúðarhúsnæðinu. „Fólk segir að það sé gott að vera búinn að minnka við sig áður en maður eldist of mikið“ segir hann.

Voru fljót að ákveða að kaupa íbúðina

Þau voru sammála um að þau vildu búa áfram í Garðabæ. Helga segir hann „sinn bæ“ enda hefur hún starfað hjá bænum í 25 ár og verið leikskólastjóri í Sunnuhvoli í 7 ár. Helgu, sem hefur gaman af húsagerðarlist og gaman af að skoða ný hverfi í byggingu, fannst Sjálandshverfið spennandi. Fyrir nokkrum mánuðum voru þau á gangi fyrir utan húsið sem þau eru nú flutt í og sáu skilti í stofuglugganum um að íbúðin væri til sölu. Fengu að skoða og voru fljót að ákveða að bjóða í hana. Kaupin áttu sér raunar þann aðdraganda að þau höfðu ári áður, boðið í aðra íbúð í sama húsi en þá gengu kaupin ekki upp. En hugmyndin var komin á kreik.

Gott ef hluturinn fer í góðar hendur

Þau keyptu nýju íbúðina áður en þau seldu húsið sitt, en settu það strax á sölu og það seldist á nokkrum vikum. Það er mikið verk að tæma 340 fermetra hús og hvar á að koma öllu dótinu fyrir? Helga segir að þau hafi selt hluta af búslóðinni á bland.is, kaupandi hússins var tilbúinn að kaupa hluta af henni, en afganginn fluttu þau í nýju íbúðina. Stórt borðstofusett seldu þau til dæmis á bland.is, en þegar þau keyptu það á sínum tíma, tók það þau tvö ár að borga það. „Auðvitað færðu ekki mikið fyrir þetta“, segir Helga „en maður er glaður þegar fólk er ánægt og hluturinn fer í góðar hendur“.

Fórum í gegnum allt okkar líf

„Það tók ekki mikið á að skila lyklunum að húsinu“, segir Stefán og það kom honum nokkuð á óvart. Þau tóku sumarleyfið í að flytja og vissulega var spennandi að koma sér fyrir á nýju heimili. „Við vorum algerlega tilbúin í að breyta til og þetta var full-time job í þrjár vikur“, segir Helga. „Við fórum í gegnum allt okkar líf. Ég hefði ekki viljað búa í húsinu alla ævi og láta einhverja aðra ganga frá því. Það var gott að fara í gegnum öll skjöl, safna því sem var þess virði að geyma og henda hinu. Margir á okkar aldri þurfa að fara í gegnum búslóð foreldra sinna og finnst það heilmikið mál“.

Helst barnabörnin sem setja þetta fyrir sig

Stefán sem er verkfræðingur að mennt pakkaði bókasafninu, merkti alla kassa og gerði lista yfir allar bækur í hverjum kassa. Þau ætla ekki að vera með allar bækurnar uppi við á nýja staðnum, heldur taka rjómann af þeim til að setja í bókaskápa í nýju íbúðinni. Eins og margir af þeirra kynslóð eiga þau mikið af bókum, en Helga segist hætt að kaupa bækur, hún fari á bókasafn ef hana vanti bók.  Enn á eftir að fara yfir dót sem geymt er í nýja bílskúrnum, en allir eru ánægðir með skiptin, Stefán, Helga og synirnir. „Það eru helst barnabörnin sem setja þetta fyrir sig“, segir Stefán „enda vön því úr gamla húsinu að hafa leiksvæði úti algerlega fyrir sig“.

Ritstjórn október 17, 2014 10:47