Flestir afar og ömmur láta barnabörnin ekki vísvitandi vaka of lengi. Það gerist þó iðulega þegar barnabörnin fá að gista. Svo eru það börnin sem eiga erfitt með að sofna annars staðar en heima hjá sér.
Það er kannski ekki svo erfitt þegar eitt barnabarn fær að gista en þegar þau eru orðin tvö eða fleiri getur færst fjör í leikinn sérstaklega þegar börnin eru ekki systkini. Frændum og frænkum finnst það spennandi að fá að hittast og finnst gaman að ærslast saman og þá getur háttatíminn dregist á langinn.
Ef það eru aukaherbergi á heimilinu er í flestum tilvikum auðveldara að koma börnunum í ró að kveldi. Best er að láta þau fara að sofa á svipuðum tíma og þau eru vön heima hjá sér. Það hefur fæst vandamál í för með sér. Ef ekki eru aukaherbergi á heimilinu er hægt að búa um krakkana á gólfinu á vindsængum, dýnum eða upp í sófa. Þeim finnst það ábyggilega dáldið ævintýralegt.
Eftir því sem barnabörnin þekkja ykkur betur þess skemmtilegra finnst þeim að gista. Það er líka ýmislegt hægt að gera til að láta þau finnast þau vera velkomin. Til dæmis að þau hafi ákveðinn stað á heimilinu til að sofa á. Eða þau hafi sérskáp þar sem þau geta geymd dótið sitt, leikföng og annað sem er bara geymt hjá afa og ömmu.
Þrátt fyrir að börnin eigi sinn sess hjá afa og ömmu geta þau fengið mikla heimþrá. Ef barnið er óhuggandi getur hjálpað að senda pabba og mömmu skilaboð og fá svar til baka. Það er oft á tíðum mun betri leið en láta þau hringja það eykur oft á söknuðinn. Ef fleiri börn eru í gistingu er reynandi að semja við eitthvert þeirra um að leika við leiða barnið. Ef barn vaknar upp um miðja nótt ætti afi eða amma að sitja hjá því þangað til það sofnar aftur. Eða að leyfa barninu að skríða upp í og sofna á milli ykkar. Það má svo alltaf færa barnið aftur í sitt rúm eða bara að leyfa því að sofa á milli ykkar til morguns.
En hvernig á að fá börnin til að fara að sofa? Skipulegðu eitthvað skemmtilega leiki síðdegis svo börnin séu þreytt þegar kvöldar. Ekki fara í ærslaleiki með börnunum rétt áður en þau eiga að fara að sofa það æsir þau upp. Það er líka ágætt að gefa þeim eitthvað smá snarl áður en þau bursta tennurnar og eiga að fara upp í rúm. Forðist að gefa þeim sætindi. Ekki byrja of seint að undirbúa háttatímann, það getur komið á óvart hversu tímafrekt það er. Lesið fyrir börnin eða segið þeim sögu þegar þau eru komin undir sæng og segið þeim að þegar sagan sé búin sé komin tími til að sofna. Tuskudýr eða mjúkt teppi geta sefað börn sem eiga erfitt með að sofna annars staðar en í eigin rúmi. Ef þau eiga uppáhalds tuskudýr gætið þess þá að þau fylgi með barninu. Ef börnin eru með snjallsíma eða einhver raftæki látið þau þá slökkva á þeim , það gildir hins vegar annað um börn sem eru vön að hlusta á tónlist eða horfa á mynd meðan þau eru að sofna. Það gæti verið að það verði að leyfa slíkt.
Ef að þið hafið fengið nokkur barnabörn í heimsókn, sitjið þá hjá þeim þangað til þau sofna. Ef þið farið frá börnunum gætu þau farið að leika sér. Þá þurfið þið að skakka leikinn krakkarnir gætu hins vegar séð við ykkur og látið sem þau séu sofnuð og byrjað svo upp á nýtt.
Að horfa á eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu getur róað hópinn. Reynið að finna stutta mynd eða þátt sem allir hafa gaman af í stað þess að fara að horfa á bíómynd í fullri lengd. Það getur seinkað háttatímanum um allt að tvo tíma geti krakkarnir haldið sér vakandi á annað borð.
Það er hægt að gera ýmislegt skemmtilegt með barnabörnunum. Það er til dæmis hægt að halda þema partý. Ef að veðrið er gott er hægt að tjalda úti með krökkunum eða rýma til og tjalda inni ef ekki viðrar vel. Svo má bjóða upp á útilegufæði, pylsur eða hamborgara og passið upp á að það sé nóg af vasaljósum til að leika með.
Syngið og dansið. Það hægt að leigja karókítæki eða fáið það lánað. Finnið gömul föt og glingur, blásið í blöðrur. Það fá allir að njóta sín og skemmta sér konunglega. Það er um að gera að vera nógu og hugmyndaríkur.
Bíókvöld. Endurraðið í stofunni og poppið. Finnið svo einhverja bíómynd sem höfðar til allra aldurshópa. Til að gera þetta skemmtilegt fyrir yngstu börnin má prenta út bíómiða í tölvunni og leyfa þeim að selja. Gjaldmiðillinn getur verið allskonar til dæmis brjóstsykursmolar, súkkulaðibitar eða ávaxtabitar. Þeim litlu finnst gaman að hafa hlutverk.
Svo er upplagt að birgja sig upp af blýöntum, litum og spilum. Flestum börnum finnst gaman að teikna eða lita myndir og það sama gildir um spilin. Börnum finnst gaman að spila við afa og ömmu sérstaklega ef þau fá að vinna öðru hvoru.