Þýðir ekkert annað en fara dómstólaleiðina

Umræða um skerðingar á kjörum eldri borgara í almannatryggingakerfinu hefur verið mikil síðustu misseri og raunar lengur.  Margir telja þær of miklar og í þeim hópi er meðal annars framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða. Finnur Birgisson arkitekt hefur einnig látið málið til sín taka, en hann segist lengi hafa pælt í jaðarsköttum og tekjutengingum.

Það byrjaði eiginlega með því að ég tók eftir fréttum af dómi sem gekk í Þýskalandi árið 1990. Fjölskyldufaðir þar í landi hafði höfðað mál vegna tekjutengingar barnabóta. Dómurinn gekk honum í vil og stjórnlagadómstóllinn úrskurðaði að tekjutengingarnar brytu í bága við stjórnarskrána, sér í lagi jafnræðisregluna, sem er þriðja grein þýsku stjórnarskárinnar og skyldu ríkisins til að standa með fjölskyldu og hjónabandi, sem er sjötta greinin. Síðan þá eru barnabætur í Þýskalandi ekki tekjutengdar, gagnstætt því sem lengi hefur verið hér á landi og er enn.

Finnur segist eftir bestu getu hafa reynt að koma þessu á framfæri hér heima og sannfæra fólk um að tekjutenging barnabóta væri ekkert síður röng hér á Íslandi en dæmt hafði verið í Þýskalandi. Hann skrifaði margar greinar um málið á þeim tíma en árangurinn varð enginn. Sú reynsla hafi sannfært hann um,  að í málum af þessu tagi þýddi ekkert annað en að fara dómstólaleiðina.

Nú eru börnin mín löngu orðin fullorðin og fá sjálf tekjutengdar barnabætur, ef nokkrar, nema sá yngsti sem fær danska „børneydelse“ ótekjutengda. Ég er hins vegar kominn í efri deildina og orðinn aldraður og þar hitti ég tekjutengingarnar aftur fyrir í ellilífeyrinum. Gagnstætt því sem var með barnabæturnar, þá eru þeir fjölmargir sem hafa áttað sig á því að tekjutenging ellilífeyrisins er meinsemd og vilja berjast gegn henni. En ég held því fram að fenginni reynslu að það þýði ekkert að treysta á að stjórnmálin muni gera eitthvað af viti í þessu, það er of stórt og flókið fyrir þau. Eini möguleikinn til að hnekkja tekjutengingunum, ef það þá er yfirleitt hægt, er því að fara dómstólaleiðina. Og verði það gert, þá er ég nokkuð viss um að það muni þurfi að fara með málið alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg.

Margir hafa velt upp þeirri spurningu hvort stórefnað fólk eigi að fá ellilífeyri frá almannatryggingum, en ellilífeyrir Tryggingastofnunar fellur niður þegar tekjur frá lífeyrissjóði ná 557 þúsund krónum á mánuði. Finnur bendir á að þessi upphæð sé langt undir meðallaunum fullvinnandi fólks á Íslandi sem voru 667 þúsund krónur á mánuði árið 2016 en séu líklega um 766 þúsund krónur á mánuði núna, miðað við þróun launavísitölu.

Mín skoðun er reyndar ekki sú að tekjutenging lífeyris almannatrygginga sé alfarið röng, – hún er réttmæt og eðlileg að vissu marki. En hjá okkur er þetta samt alltof bratt og leiðir til þess að allar lífeyrisgreiðslur almannatrygginga falla niður hjá fólki sem ekki einu sinni nær meðaltekjum Íslendinga. Það er alls ekki í lagi að jaðarskattarnir sem fólk mætir á þessari leið séu allt uppí 73%, það getur ekki verið löglegt og siðlegt.

 

Skoðaðu upplýsingar um lífeyrismál, Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði með því að smella hér á Upplýsingabanka Lifðu núna.

Ritstjórn september 12, 2018 09:31