Tengdar greinar

Bragðgóð bókaklúbbsbaka

Sigrún Ásmundsdóttir iðjuþjálfi er liðtæk í eldamennskunni og hikar ekki við að nota ýmis „trix“ til að gera matseldina auðveldari og fljótlegri. Hún bakaði þessa fallegu böku sem hún fékk upphaflega í Gestgjafanum, fyrir bókaklúbbinn sinn fyrir skömmu, og luku félagar í klúbbnum upp einum munni um hversu góð hún væri. Það er alveg tilvalið að eiga andríkar samræður um bókmenntir með þessari böku. En hér er uppskriftin.

 

1 pk smjördeig (fæst í Hagkaup og fleiri verslunum)

2 blaðlaukar  (hvíti hlutinn)

1 stórt spergilkál – skorið í litlar greinar

1-2 rauðar paprikur – skornar í litla bita

1 piparostur, smátt skorinn ( fæst niðurskorinn í pakkningu)

1 bréf skinka, skorin smátt  ( fæst líka niðurskorin í pakkningu)

6 – 8 egg

1 – 2 dl rjómi / mjólk

4 – 5 litlir tómatar

1 camembert ostur – skorinn í sneiðar

Nýmalaður svartur pipar

 

Salatið og hvítlaukssósan smellpössuðu með bökunni

Setjið smjördeigið í bökuform og þrýstið vel upp að kantinum á forminu og pikkið  deigið með gaffli.

Mýkið blaðlauk, spergilkál og papriku á pönnu við vægan hita í ca 15 mín. Grænmetið á ekki að brúnast. Dreifið grænmetinu á smjördeigið, ásamt piparosti og skinku. Þeytið egg og rjóma saman og saltið örlítið. Hellið í bökuformið yfir grænmetið, ostinn og skinkuna. Leggið hálfa litla tómata ( eða tómatsneiðar) ofan á eggjablönduna ásamt sneiðum af camembert. Það er ekki nauðsynlegt að nota camembertinn, en skemmir ekki fyrir.

Kryddið með svörtum pipar. Bakið við 180 gráður í ca 40 mín.

Skreytt með steinselju eða basiliku og borið fram með góðu blaðsalati. Hér var notuð létt hvítlaukssósa með, sem sýrðum rjóma var hrært saman við. Vínglas með bökunni setur síðan punktinn yfir i-ið.

Ritstjórn september 21, 2018 12:39