Nýgerðum kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum fylgja engar bókanir um að aldraðir og öryrkjar fái sambærilegar hækkanir og samið var um. Vilhjálmur E Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir að það sé ríkið sem ákvarði hækkanir á bótum almannatrygginga um slíkt sé ekki hægt að semja í almennum kjarasamningum milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar. Vilhjálmur bendir hins vegar á að aldraðir og öryrkjar njóti góðs af ýmsu því sem komi fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hann bendir til að mynda á að hagur þessara hópa muni batna með skattkerfisbreytingum. Stjórnvöld ætla að koma á þriggja þrepa skattkerfi með nýju lágtekjuþrepi og á sú aðgerð að auka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu um 10 þúsund krónur á mánuði. Þá segir Vilhjálmur að eldra fólk og öryrkjar sem skulda komi til með að njóta góðs af vaxtalækkunum sem boðaðar eru í yfirlýsingunni.