„Við reynum að njóta lífsins eins lengi og hægt er. Meðan við getum verið í Félagi eldri borgara í Hafnarfirði og stundað sund með öllu þessu skemmtilega fólki er okkur borgið“, segir Ragnheiður Ragnarsdóttir, sem er Gaflari í húð og hár. Hún býr að sjálfsögðu í Hafnarfirði ásamt eiginmanninum Agli Þórðarsyni verkfræðingi, en sjálf starfaði hún sem leikskólakennari í 40 ár. Þau eru bæði komin á eftirlaun. Hún var einmitt að koma úr sundi þegar blaðamaður hitti hana að máli á kaffihúsinu Súfistanum, auðvitað í Hafnarfirði.
Vill ekki missa úr í sundinu
Þau Egill eru saman í sundinu og svo fara þau mikið saman í ferðalög. „Við höfum ferðast mikið“, segir hún. „Við ferðumst innanlands á sumrin og eigum ættingja í hverjum landsfjórðungi“. Þau stunda sundið í Suðurbæjarlauginni í Hafnarfirði, en þar eru nokkrir hópar sem synda á morgnana. „Húnafólkið er sérhópur sem mætir um leið og það er opnað á morgnana, en við mætum milli klukkan níu og hálf tíu. Sumir eru ansi duglegir að synda, sérstaklega karlarnir, það má telja það í kílómetrum hvað þeir synda mikið. Þarna er maður að hitta gamla skólafélaga, það er alltaf að bætast í hópinn. Þetta er alveg einstaklega skemmtilegur og jákvæður hópur. Gulrótin er svo, að á föstudögum kaupir einhver eitthvað með kaffinu“, segir Ragnheiður sem vill ekki missa úr dag í sundinu og segist orðin háð því.
Fór á Klíníkina
„Ég er stálslegin kona, ein af þeim“, segir hún. En hún er með nýtt hné eins og margir sem eru komnir á eftirlaunaaldurinn. „Ég var svo illa haldin að ég fór á Klíníkina. Ég hugsaði með mér að ég myndi fjárfesta í heilsunni og Egill sagði „Ragnheiður við verðum bara að leggja út fyrir þessu, þetta er ekki hægt“. Ég var hjá sjúkraþjálfara og var því í góðri þjálfun þegar ég fór í aðgerðina. Bæklunarlæknirinn segir að það sé gott fyrir mig að synda baksund með blöðkum, það er hjólahreyfing, sem er góð fyrir hnéð. Það er agalegt að þurfa að bíða svona eftir aðgerðum. Andlega hliðin fer alveg niður, ef fólk er alltaf með mikla verki og sefur ekki á næturnar. Ég var orðin kvíðin og svartsýn, en það er víst nóg að því í þjóðfélaginu í dag“, segir hún ánægð með sitt nýja hné.
Brunuðu niður götuna á skíðasleðum
Ragnheiður fæddist á Selvogsgötu 6 í Hafnarfirði, í húsi sem afi hennar og amma byggðu ásamt móðurbróður hennar. Foreldrar hennar þau Ragnar Björnsson og Aðalbjörg Ingólfsdóttir hófu búskap í húsinu. „Mamma var alltaf kölluð Dúfa. Ástæðan fyrir því er að eldri bróðir hennar var með dúfnakofa úti í garði og þegar litla systir var fædd, kom hann inn og sagði „Nei sko, litlu dúfuna!“, segir Ragnheiður. Fjölskyldan flutti svo seinna á Hringbraut 33, í hús sem Ragnar byggði þar eftir teikningu bróður síns Harðar Björnssonar. Ragnheiður segir að það hafi verið yndislegt að alast upp í suðurbænum í Hafnarfirði. „Holtið fyrir neðan Hringbrautina var ósnortið umhverfi og þar lékum við okkur í búleikjum“, rifjar hún upp. „Við brunuðum svo niður Selvogsgötuna á skíðasleðum. Það yrði ekki leyft í dag“, segir hún hlæjandi.
Það er af sem áður var
„Manni fannst vera mjólkurbúðir og fiskbúðir í öðru hverju húsi á þessum árum og það voru margar vefnaðarvörubúðir í bænum. Nú fær maður varla tvinna í verslunum og það er ekki hægt að kaupa efnisstranga lengur í sérverslunum“, segir Ragnheiður og þylur upp verslunarheiti eins og Beggubúð, sem nú hefur verið flutt og gerð að safni í miðbænum, Skemmuna og Edduna. „Þarna var hægt að kaupa rennilása og tölur, efnisstranga og allt til saumaskapar. Mamma prjónaði og saumaði allan fatnað á okkur börnin, jakkaföt á strákana og kjóla á stelpurnar og sjálfa sig“, segir hún. Það hefur verið mikil vinna, en systkinin á Hringbrautinni voru sex fyrir utan eina systur sem lést innan sólarhrings“.
Velti starfslokunum ekki sérstaklega fyrir sér
Ragnheiður gekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar og fór þaðan í Flensborg. Átján ára gömul hóf hún svo nám í Fósturskóla Sumargjafar, sem var til húsa á Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík. Þegar náminu lauk fór hún að vinna í leikskólum, fyrst í Kató, sem var leikskóli St.Jósefs systra í Hafnarfirði, en síðan á leikskólanum Víðivöllum og seinna leikskólanum Norðurbergi. Hún segist síðustu árin í starfinu hafa unnið við málörvun, þar sem hún tileinkaði sér aðferðir Hólmfríðar Árnadóttur talkennara. „Ég lærði mikið af henni hún var afar fær í sínu starfi“, segir Ragnheiður, sem segist ekki hafa velt starfslokunum sérstaklega fyrir sér. Síðustu árin áður en hún fór á eftirlaun var hún komin í hlutastarf og tveimur árum áður en hún hætti, tók hún sér ársleyfi til að passa yngsta barnabarnið, strák sem þá var átta mánaða. „Það var yndislegur tími“, segir hún. „Ég fór heim til þeirra og var með hann þar. Ósjálfrátt fór maður í sama prógramm og á leikskólanum, morgunverður fyrst á morgnana, síðan samverustund og svo út í vagninn. Þetta var svo gefandi, börnin þroskast svo mikið á þessum aldri“.
Fordómar gagnvart Félagi eldri borgara
Ragnheiður segist hafa gengið í Félag eldri borgara í Hafnarfirði fljótlega eftir að hún hætti að vinna. Hún er núna í stjórn félagsins og hefur einnig verið í fimm ár í dansleikfimi, sem nýtur mikilla vinsælda í félaginu. Nýlega var haldin danshátíð, þar sem danshópar úr Hafnarfirði, Garðabæ og Reykjavík stilltu saman strengi, undir stjórn kennarans Auðar Hörpu Andrésdóttur. „Þetta er mjög kröftugt og flott félag og formaðurinn er frábær“, segir Ragnheiður og bætir við að hún hafi orðið hissa þegar hún fann hversu miklir fordómar voru gagnvart félaginu. Fólk spurði hana undrandi og hneykslað „Ertu farin að vinna með eldri borgurum???“. Hún segist hafa svarað að þetta væri fólk á aldur sig og það væri yndislegt að starfa með félaginu, sem býður uppá fjölbreytt starf svo sem ferðalög, gönguferðir, sundleikfimi, listsköpun, bridge og fleira.
Mikill samgangur í fjölskyldunni
Fyrir utan félagsstarfið, tekur fjölskyldan heilmikið rými í lífi Ragnheiðar. „Við systkinin erum mjög samrýmd, tvö búa að vísu erlendis, systir sem er gift lækni í Bandaríkjunum og bróðir sem er læknir í Noregi, en þau koma mikið til landsins. Við hin reynum að hittast reglulega. Mamma deyr mjög snögglega 58 ára. Við hittumst gjarnan í kringum afmælisdaginn hennar í september, en hópurinn stækkar og stækkar. Það hefur æxlast þannig að Björk dóttir mín og maðurinn hennar bjóða okkur í sumarbústaðinn sinn í Ásahreppi og við höfum öll hist þar. Við reynum líka að hittast í kringum jól og áramót. Það er ekki sjálfgefið að það sé svona mikill samgangur í fjölskyldum en sem betur fer hefur okkur tekist að halda því“.
Yngstir í Rithöfundasambandinu
Ég er líka í góðu og nánu sambandi við börnin mín og barnabörnin“, segir Ragnheiður, sem á þrjú börn og fimm barnabörn. Börnin hennar heita Björk, Aðalbjörg og Ragnar. Það er mikið að gerast hjá þessum hópi og Ragnheiður og Egill fara mikið í leikhús og á tónleika. Barnabörnin eru mikið í leiklist, enda Björk dóttir hennar Jakobsdóttir, leikkona. Tveir ömmustrákar Ragnheiðar, þeir Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson eru yngstu félagarnir í Rithöfundasambandi Íslands. Þeir hafa skrifað saman leikrit og eru virkir í Gaflaraleikhúsinu. Hún segir að ömmustrákarnir séu farnir að gera meira af því en áður, að koma í heimsókn til afa og ömmu. „Það er svo gaman að spjalla við þá og heyra hvað þeir eru að gera, það er svo mikið að gerast í kringum þá“, segir hún.
Fastagestir í sjúkraþjálfun
Þegar sjötugsaldrinum er náð er orðið enn mikilvægara en áður að hugsa um heilsuna. Margir eru orðnir fastagestir hjá sjúkraþjálfurum, komnir með nýja liði og jafnvel nýja augasteina. Ragnheiður segir að fyrir utan hnéð sem gaf sig, séu það helst verkir í öxlum og hálsi sem hafi hrjáð sig. Hún segir að í leikskólakennarastarfið sé líkamlega krefjandi. Starfsfólkið þurfi stöðugt að vinna niður fyrir sig, beygja sig og krjúpa. Í dag séu komin alls kyns hjálpartæki til að auðvelda störfin, sem voru ekki til þegar hún byrjaði. Hún er svo með heyrnartæki, en það fékk hún fyrir löngu síðan, vegna þess að kuðungur og ístað kölkuðu saman. Hún fór að eiga erfiðara með að heyra háar barnsraddirnar á leikskólanum. Núna er hún með nýjustu gerð af heyrnartækjum frá Heyrnartækni. Þegar hún varð sjötug, gáfu börnin henni snjallsíma í afmælisgjöf. Hægt er að stilla hann þannig að hljóðið í heyrnartækinu fari beint í símann: „Þau vildu geta talað við mig í síma“ segir Ragnheiður og hlær.
Getum vonandi notið lífsins sem lengst
Ragnheiður sér efri árin hjá þeim Agli þannig fyrir sér, að þau muni snúast um ferðalög, skemmtilegheit, dans, að fylgjast með barnabörnum og fara á leiksýningar. „Vonandi getum við notið lífsins sem lengst. Okkur finnst gaman að taka í spil og skraffla. Egill er krossgátuunnandi, hann yrkir og er farinn að gefa út ljóðabækur á efri árum. Við reynum að njóta lífsins eins lengi og mögulegt er“, segir þessi lífsglaði Gaflari að lokum.