Þrisvar sinnum fleiri gifta sig eftir sextugt

Það færist í vöxt í Bretlandi að fólk á sjötugsaldri láti gefa sig saman í hjónaband. Þannig fjölgaði brúðgumum 65 ára og eldri um 25% og brúðum á sama aldri um 21% á árunum 2011 og 2012, á sama tíma og hjónavígslum fjölgaði almennt um 5%.

Fleiri eldri í hópi brúðhjóna

Ef tölur Hagstofu Íslands um aldur brúðguma og brúða sem eru komin yfir sextugt eru skoðaðar, kemur í ljós að á 20 árum frá 1991 til 2011 rúmlega  þrefaldaðist fjöldi brúðguma og brúða sem gengu í hjónaband á þessum aldri. Árið 1991 voru brúðgumar yfir sextugu 17, en brúðir á sama aldri 9. Tuttugu árum síðar, árið 2011 voru brúðgumar á þessum aldri 55 en brúðir 28.   Á sama tíma hefur fólki í landinu fjölgað, en fjöldi fólks á þessum aldri náði samt ekki að þrefaldast á þessum 20 árum.

Ekki sprenging í hjónavígslum eldra fólks

Prestar sem Lifðu núna talaði við voru ekki þeirrar skoðunar að það hefði orðið mikil aukning í hjónaböndum eldra fólks á síðustu árum. Vigfús Þór Árnason í Grafarvogssókn sagði að það væri alltaf eitthvað um að eldra fólk gifti sig og  Anna Sigríður Pálsdóttir í Dómkirkjunni sagði að í þau 17 ár sem hún hefði starfað, hefði þetta verið jafnt og þétt, en þau voru bæði þeirrar skoðunar að það væri ekki hægt að tala sprengingu í hjónavígslum eldra fólks á allra síðustu árum.   Anna Sigríður sagðist hafa gefið saman fólk sem hefði ákveðið að ganga í hjónaband eftir 36 ára sambúð. Þeim fannst ekki viðeigandi að vera sjálf ógift þegar að því kom að börnin þeirra fóru að gifta sig. Hún sagði líka að það væri algengara en hún hefði haldið, að fólk vildi endurnýja hjúskaparsáttmála sinn á eldri árum.  Vigfús Þór sagði  áberandi meiri ró yfir athöfnum hjá eldri brúðhjónum en yngri.

Ritstjórn júlí 18, 2014 10:31