Þessi lambakjötsréttur kom skemmtilega á óvart. Uppskriftin dugar fyrir hóp af fólki og ef von er á gestum má sem best gera réttinn deginum áður.
2,5 kíló af úrbeinuðum lambabóg. Snyrtið og skerið í nokkuð stóra bita.
2 laukar, skiptið hvorum lauk í átta báta
3 gulrætur, gróft brytjaðar
3 sellerístilkar, gróft brytjaðir
1 msk. ólífuolía
250 ml. hvítvín
½ l lamba- eða nautasoð
2 msk. tómatpúrra
80 ml. balsemik edik.
6 hvítlauksrif, skorin í þunnar sneiðar
2 góðir rósmarin stilkar (pillið blöðin af)
2 lárviðarlauf
Salt og pipar
Flatblaða steinselja , gróft skorin.
Hitið ofninn í 220 gráður. Setjið lambið, laukinn, gulræturnar og selleríið í ofnfast fat, saltið og piprið. Dreifið olíunni yfir og látið brúnast í ofninum í 20 mínútur. Snúið kjötinu og grænmetinu þegar tíminn er hálfnaður.
Lækkið hitann í 160 gráður. Takið fatið út og látið fituna renna af kjötinu. Setjið vínið, soðið, tómatpúrruna og balsemikedikið út í fatið og hrærið . Dreifið hvítlauknum og rósmaríninu yfir grænmetið og kjötið og setjið lárviðarlaufin út í fatið. Kryddið með salti og pipar. Lokið fatinu með álpappír og steikið í um það bil tvo tíma.
Hækkið hitann í 180 gráður. Takið kjötbitana til hliðar. Sigtið soðið frá grænmetinu og hendið því. Látið soðið standa í fimm mínútur og fleytið fitu fitu ofan af. Setjið soðið i pott og látið sjóða niður í 12 til 15 mínútur á meðalhita. Gott að miða við að tveir þriðju séu eftir af soðinu þegar það er tekið af eldavélarhellunni. Setjið kjötbitana aftur í ofnfasta fatið, hellið soðinu yfir og setjið inn í ofn í 15 til 20 mínútur. Stráið steinseljunni yfir og berið fram. Þennan rétt er gott að bera fram með góðri kartöflumús, eða pasta og góðu salati.