Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar
Fyrir nokkrum árum sóttum við langfeðgar sonurinn Óskar Þór, sonarsonurinn Valur Kári og undirritaður tæknisýningu í Hörpunni. M.a. var boðið upp á að bregða sér í sýndarveruleika. Við sátum þrír í röð hver með sín sýndargleraugu og hittumst svo úti í geimnum, Valur 12 ára, Óskar 36 ára og ég þá 72 ára. Þar sem við sátum þarna í framtíðinni var mér var hugsað til þess hvernig tækniveröldin myndi líta út þegar sonarsonur minn eftir 60 ár sæti í mínu sæti kominn á áttunda tuginn að aldri með barn og barnabarn sér við hlið eins og ég nú. Ég velti einnig fyrir mér hvernig kynslóðirnar komnar á efri ár líta í baksýnisspegilinn frá æskudögum.
Móðir mín, Aðalbjörg Bjarnadóttir, var fædd árið 1910 í torfbæ í Dýrafirði og gekk um á sauðskinsskóm í bernsku. Breytingar frá æsku voru henni ofarlega í huga og hún ræddi þær oft. Hún talaði t.d. um breytinguna þegar pappírinn kom fyrst á heimilið sem umbúðarpappír frá kaupmanninum á Þingeyri. Pappírinn var notaður til þess að skrifa kvæði en hún lærði að draga til stafs með griffli. Kynslóð móður minnar lifði mun meiri breytingar á lifnaðarháttum en mín kynslóð.
Kynslóðin mín, en ég er fæddur 1944 og alinn upp á Akranesi, hefur líka lifað miklar breytingar. Í baksýnisspeglinum heyri ég kallið á götunni fyrir jólin að eplin væru komin í Kaupfélagið. Við krakkarnir fórum í verslunina til þess að anda að okkur eplalyktinni. Ég man útileiki, sjónvarpsleysi en mikinn bókalestur, hvernig fólk gekk milli ólæstra húsa án þess að hringja á undan sér. „Er ekki einhver heima!“ Ég minnist breytinganna þegar fyrsti bíllinn kom á heimilið og farið var að heimsækja ættingjana í Borgarfirðinum. Ég minnist ísskápsins, kaldrar mjólkur og framleiðslu móður minnar á ís í stað frystingar með ísblöndu úti á tröppum. Ég minnist lyktarinnar af sunnudagssteikinni sem ilmaði um húsið í hádeginu og skátaútileganna þar sem sviðakjammar, vestfirskar soðkökur með hangikjöti voru nestið. Þá voru Sómasamlokur ekki fáanlegar.
Ég spurði börnin mín og tengdabörn hvað þau sjá þegar þau líta í baksýnisspegilinn. Þau töluðu um hljómflutningstækin sem þau fengu í fermingargjöf og gátu leikið á uppáhalds tónlistina að eigin vild og síðar Walkmannsins og ferðageislaspilarans. Þau rifjuðu upp andvaraleysi öryggismála í bílum þegar belti voru aðeins í framsætinu og engin öryggisbelti í aftursætinu. Systurnar Sif og Hrönn töluðu um bróður sinn sem stóð alltaf á milli sætanna á stóra jeppanum með gírstöngina beint að sér og systurnar sitt hvoru megin þegar ekið var upp um fjöll og firnindi. Þegar þurfti að stoppa snögglega skutu pabbi og mamma hendi milli sætanna til þess að koma í veg fyrir að pilturinn færi á gírstöngina. Jafnvel var legið í afturglugganum og sofið á löngum ferðum. Mestar breytingar segja þau samt vera samskiptin við aðra með tilkomu bílsíma og síðar farsíma og aðgangurinn að afþreyingu.
Svo set ég ímyndunaraflið af stað og velti fyrir mér hvað barnabörnin sem nú eru að vaxa úr grasi munu sjá í baksýnispeglinum. Börn sem alin eru upp við alsnægtir miðað við fyrri kynslóðir og þekkja ekki bættan efnahag miðað við það sem áður var. Ég ímynda mér að það sem þau munu sjá í baksýnisspeglinum verði miklar breytingar einkum á sviði sjálfvirkni og gervigreindar og mikið breyttan tækniheim. Þau munu minnast horfinnar tækni og starfa og minnast þess að hafa þurft að fylgjast með breytingum í störfum og nýrri tækni til þess að daga ekki ekki uppi í síbreytilegu atvinnuhverfi. Um umhverfisþáttinn þori ég ekki að spá.
Vonandi verður samt ekki breyting á einum grunnþætti lífsins hvernig sem tæknin þróast. Þótt samskiptin verði meira og minna sjálfvirk í töluðu og skriflegu máli verði mannlegi þátturinn ekki útundan og fólk virði persónuleg samskipti.
Nærvera, hlýja og ástúð á alltaf að vera ríkjandi.