Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar
Eftirlaunaárin eru mörgum gleðiefni en valda öðrum áhyggjum. Sumir horfa fram á afslöppun og áhyggjulitla daga en aðrir kvíða athafnaleysi og einangrun. Fyrir nokkru sat ég hjá félaga mínum í Rótarýklúbbi Reykjavíkur, Guðfinnu Sesselju Bjarnadóttur fyrsta rektors Háskólans í Reykjavík. Við ræddum m.a. eftirlaunaárin. Hún spurði mig, sem dró mig í hlé sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins SagaMedica fyrir 6 árum þá 69 ára, hvaða ráðleggingar ég gæti gefið þeim sem eru að hverfa til eftirlauna. Ég svaraði Guðfinnu að eftir að ég „hætti að vinna“ hafi ég svo mikið að gera að ég hefði hugleitt að fara aftur að vinna til þess að gera slappað af !!!. Ég sagðist telja mikilvægt að finna sér viðfangsefni til að fást við þar sem hægt væri að ráða tíma sínum. Í daglegum störfum velja flest verkefnin okkur en á eftirlaunaárum eigum við að geta valið verkefnin sjálf. Verkefnin geta verið af margvíslegum toga. Sjálfum finnist mér eftirsóknarvert að vinna að viðfangsefnum sem tengjast því að hjálpa öðrum. Hugurinn beinist þá frá eigin vandamálum að vandamálum annarra. Ég hef valið mitt aðal viðfangsefni að styðja menn sem eru að greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein og miðla þar af 14 ára eigin reynslu. Ég fæst einnig við fjölda áhugamála eins og ljósmyndun, útiveru og ferðalög innanlands og utan. Svo þarf fjölskyldan einnig sína athygli.
Guðfinna sagði mér skemmtilegar sögur sem tengjast því að komast á eftirlaunaaldur sem mér finnast eiga erindi til þeirra sem eru að undirbúa sig fyrir eftirlauna árin eða hafa þegar hafið þá vegferð. Guðfinna er með doktorspróf frá Vestur Virginíuháskóla í Bandaríkjunum. Nýlega fór hún í gamla háskólabæinn sinn og hitti nokkra prófessora sína sem komnir voru á eftirlaun. Einn þeirra kom með þá skemmtilegu skilgreiningu á eftirlaunaárum að fólk ætti ekki hugsa þannig að það hverfi frá einverjum viðfangsefnum heldur hverfi til nýrra verkefna. (Don´t retire from something, retire to something.) Fólk ætti að finna sér verkefni sem það gæti helgað líf sitt og auðgað eftirlaunaárin. Verkefni þyrftu ekki endilega að vera tengd fyrra starfi heldur gætu þau verið á nýju sviði. Viðkomandi prófessor hafði ásamt konu sinni verið áhugasamur um Tai Chi æfingakerfið. Þau öfluðu sér frekari þekkingar og reynslu á því sviði og ferðast nú um Bandaríkin til að halda námskeið og fyrirlestra. Þetta gefur þeim nýtt líf og nýjan tilgang sem þau njóta til hins ýtrasta. Annar prófessor benti á mikilvægi þess að hafa mörg áhugamál sem helst kostuðu sem minnst. Sá ferðast sem mest á hjóli og málar og teiknar ágætis verk. Það er gaman að taka saman reynslusögur sem gefa vísbendingar um tækifæri þessara verðmætu ára. Það er viðfangsefni margra okkar að gera sem mest úr þessu tímabili ævinnar í þágu okkar sjálfra og annarra.
Í áhugaverðri i grein sem ég rakst á í tímaritinu Psychology today „In Helping Others, You Help Yourself“ Sjá greinina hér. en inntakið er að með því að hjálpa öðrum hjálpum við sjálfum okkur. Í greininni kemur fram að margar rannsóknir hafi verið gerðar á því hvernig fólk meðhöndlar eigin tilfinningar en minna er vitað um eigin tilfinningalegan ávinning af því að hafa áhrif á tilfinningar annarra. Greinin segir frá athugun á hvaða áhrif það hafi ef fólk beitir sér fyrir að hjálpa öðrum miðað við að deila og fá stuðning við eigin vandamál. Athugunin sýndi lækkun á þunglyndi viðkomandi hóps. Í greininni er sagt frá rannsókn á vegum háskólans í Columbia sem leiddi í ljós að þegar við hjálpum öðrum í streituvaldandi aðstæðum, erum við að auka eigin færni til að stjórna tilfinningum og þannig bætum við tilfinningalega líðan okkar sjálfra.
Mörgum er það nóg viðfangsefni á eftirlaunaaldri að iðka golf, mála, stunda útskurð, bóklestur o.s.fr.v.. Öðrum er það ekki nóg og vilja vinna í samstarfi við aðra að því hjálpa öðrum. Verkefnin eru allt í kringum okkur. Við þekkjum einstaklinga sem þarfnast andlegs stuðnings og nærveru. Einnig er fjöldi félaga og samtaka sem vinna að slíkum verkefnum og allstaðar er skortur á stuðningsfólki. Spurningin er aðeins fyrir fólk á efri árum að finna sér réttan farveg. Slík störf leiða til betri eigin líðan og minnka líkurnar á einmanaleika.