Hjörleifur Guttormsson

Hjörleifur sér ekki út úr augum fyrir verkefnum þótt hann sé “kominn á aldur” eins og sagt er. Hann er fæddur á Hallormsstað 1935 þar sem faðir hans var skógarvörður og móðir hans vefnaðar- og hannyrðakona. Hjörleifur er einn af þeim heppnu sem nýtur lífsins og heldur heilsu þótt árin séu orðin mörg. Hann segist vinna eins og hann hefur alltaf gert, allt frá því hann var settur í ábyrgðarmikið starf í fjósinu heima á Hallormsstað átta ára gamall og að slá með orfi og ljá. Hann byrjaði strax þá í fullorðinnavinnu og hefur haldið því síðan. Þá var ekki um það að ræða að vera í fríi suma daga heldur var unnið bæði um helgar og virka daga og hann hefur alla tíð haldið þeim takti, allt frá því hann stundaði landbúnaðarstörfin upp á gamla mátann, þar til hann fór að vinna launavinnu til að kosta skólagöngu sína.

Hjörleifur skilgreinir sjálfan sig sem náttúrufræðing en hann lauk diploma prófi í líffræði frá Háskólanum í Leipzig 1963.

Viðfangsefni hans þessa dagana tengjast ritstörfum af ýmsu tagi og allan sinn aldur hefur Hjörleifur starfað á sviði náttúruverndar á einn eða annan hátt. Hann vann við landbúnaðarstörf, skógrækt, landmælingar, þýðingar og túlkun á námsárum sínum og  lét snemma til sín taka á sviði náttúrurannsókna. Hjörleifur starfaði við slíkar rannsóknir, einkum á Austurlandi á árunum 1968-´78. Hann átti sæti í náttúruverndarráði ´72-´78 og var fulltrúi á átta náttúruverndarþingum´72-´92. Hjörleifur vann margvísleg störf á vegum Náttúruverndarráðs og  var frumkvöðull að Safnastofnun Austurlands og stjórnarformaður hennar til 1978. Það ár var Hjörleifur kosinn á þing og strax skipaður iðnaðarráðherra, fyrst í rúmt ár og aftur 1980 -´83. Hann var alþingismaður í 21 ár og átti stóran hlut í stofnun Vinstri grænna 1999. Hann sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1984,1994 og 1997 og í Norðurlandaráði 1988-´95.

Hjörleifur hefur ritað um unhverfisvernd, orkumál, náttúrurannsóknir, jafnréttismál, þjóðmál o.fl. Hann er höfundur 13 bóka og birtir að meðaltali greinar hálfsmánaðarlega í fjölmiðlum. Þær eru um hugðarefni hans sem tengjast iðulega náttúrunni, gjarnan umhverfismálum, og þessa dagana eru loftslagsmálin ofarlega á baugi. Hann sækir fyrirlestra eins og hann kemur við og daginn sem viðtalið var tekið var hann á leiðinni á einn slíkan í Landsvirkjun, um loftslagsmálin.

Hjörleifur hefur mikið stundað ferðalög í gegnum tíðina og segist ennþá taka tíma frá fyrir slíkar ferðir, sér í lagi að sumarlagi. Síðan er Hjörleifur að fylla í eyður þekkingar sinnar með því að aðstoða við skráningu á fornminjum sem hann segir hafa verið vanræktar. Hann hefur þá skoðun að það skipti miklu máli að reyna að kortleggja fortíðina ef við mannfólkið ætlum að tóra eitthvað hér á jörðinni áfram.

Hjörleifur reynir að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi til að láta sér líða vel. Hann fer í leikfimi og sund og göngutúra þegar veður leyfir. Þannig segir hann að líkamleg líðan sé miklu betri og svo  gætir hann þess að vera í samvistum við ættingja og vini reglulega. Síðan lesi hann alltaf mikið, til að átta sig bæði á alþjóðamálum og innanlandsmálum. Hann heldur líka úti heimasíðunni, grænnvettvangur.is þar sem hægt er að lesa greinar hans um menn og málefni.

Hjörleifur segist ekki vita hvað hann sé þessi helgi steinn sem margir tala um að setjast í og vonar að hann eigi ekki eftir að eyða löngum tíma í slíkri tilvist.

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 11, 2019 07:39