Fögnum vorinu með dásamlegri döðluköku. Okkur veitir nú ekki af að létta lund þessa dagana! Þessi dýrlega uppskrift að köku sem hér birtist núna sigraði í eftirréttasamkeppni í York í Englandi í fyrravor. Það var einmitt á þessum árstíma fyrir ári að íbúarnir voru búnir að fá nóg af drunga vetrarins og voru tilbúnir í bjartari vordaga. Þeir héldu upp á það með eftirréttasamkeppni sem margir tóku þátt í og niðurstaðan var þessi dásamlega döðlukaka sem best er að bera fram volga með heitri karamellusósu og rjóma. Ein lítil sneið dugir hverjum því hún er sæt þessi.
350 g döðlur
4 1/4 dl vatn
1 1/2 tsk. matarsódi
90 g lint smjör
220 g sykur
3 egg
180 g hveiti
Hitið ofninn í 180°C. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt vatninu. Sjóðið í 2-3 mínútur eða þar til döðlurnar eru orðnar mjúkar. Setjið matarsódann saman við og látið standa í 5 mínútur. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið hinum eggjunum saman við. Bætið síðan hveitinu saman við og svo döðlumassanum, hann má vera heitur, og blandið öllu vel saman. Hellið deiginu í 22-24 sm smelluform og bakið í 50-60 mínútur. Ef kakan fer að dökkna að ofan setjið þá álpappír yfir hana en bakið allan tímann. Losið kökuna úr mótinu og látið á disk.
Sósa:
200 g púðursykur
100 g síróp
140 g smjör
1 1/2 dl rjómi
50 g valhnetur eða pekanhnetur skornar gróft niður
Sjóðið allt saman í 5 mínútur eða þar til sósan fer að þykkna. Berið þeyttan rjóma og heita sósuna fram með kökunni.