Afi, hvenær er kjötsúpan?

Sighvatur Sveinsson hljómlistarmaður lumar á tveimur kjötsúpu boxum í frystinum hjá sér, en hann var nýlega með stórfjölskylduna í kjötsúpu eins og hann er vanur á haustin og átti þennan afgang. Venjulega eru gestirnir í kringum 16 og það veitir ekki af stórum potti fyrir súpuna. Sighvatur er svo heppinn að eiga 20 lítra pott sem hann sýður kjötsúpuna alltaf í, en amma hans Sigríður Blöndal átti hann. Hún bjó í Lækjargötu 6b á sínum tíma og var með kostgangara. Einn þeirra var afi Sighvats sem var að læra lögfræði í Háskóla Íslands og  kynntist þarna konuefninu.  Sighvatur býr ekki til eina súpu sem allt er sett út í. Hann sýður kjöt, kartöflur og grænmeti og ber kjötið og grænmetið fram sér. Súpuna setur hann í stóra tarínu og eys úr henni upp á hvern og einn súpudisk. Þannig var kjötsúpan oftast höfð hér áður fyrr.  Uppskrift Sighvats er þannig:

 1. 2 – 2,5 kg af lambakjöti. Bætt er við tveimur leggjum eða bitum að vali kokksins.
 2. 1 bolli af haframjöli
 3. 1 bolli af hrísgrjónum.
 4. salt, pipar, múskat og kryddjurtir eftir smekk. T.d. basilikum.
 5. 1 pakki súpujurtir.
 6. 1 Púrrulaukur
 7. 4 gulir laukar
 8. ½ hvítkálshöfuð
 9. 4 gulrófur
 10. 6 gulrætur
 11. 2 blómkálshöfuð meðalstór
 12.  1 kg. kartöflur

Sighvatur setur kjöt, haframjöl, grjón og krydd í pott og ásamt vatni sem á að fljóta yfir kjötið. Hann lætur suðuna koma upp og fleytir froðuna síðan ofan af í pottinum.  Á meðan kjötið sýður, saxar hann hluta af gulrótunum og gulrófunum mjög smátt og einnig svolítið af púrrulauk, lauk og hálft lítið hvítkálshöfuð. Þetta setur hann í stóra skál ásamt 1 pk. af súpujurtum.  Hann setur svo saxaða grænmetið út í kjötsúpuna og lætur suðuna koma aftur upp í pottinum.

Þetta gerir hann á föstudagskvöldi og hefur kjötsúpuna á svölunum fram á sunnudag. Stundum sýður hann aðeins upp í pottinum á laugardegi, en gerði það ekki núna.

Á sunnudeginum tekur Sighvatur aftur til við eldamennskuna. Hann sækir pottinn út á svalir og lætur suðuna koma upp í honum. Þá er kjötið tekið uppúr, sett í lokaðan pott og inn í ofn ti að halda því heitu. Á meðan sýður hann afganginn af grænmetinu rófur, gulrætur og lauk í sérpotti og blómkál í öðrum potti þar sem það þarf mjög stutta suður. Kartöflurnar sýður hann sér í kartöflupottinum sínum.

Þegar er komið undir kvöldmat, tekur hann soðið af grænmetinu, hellir því í kjötsúpupottinn góða og lætur malla aðeins. Smakkar síðan og kryddar aðeins meira með salti og pipar ef þörf er á.

Sighvatur Sveinsson

Kjötinu er síðan raðað á fat og grænmeti og blómkáli á sitt hvort fatið. Súpunni er hellt í súputarínu og Sighvatur eys henni á hvern disk. „Þetta er fyrir 25 manns, en við erum yfirleitt 16-17 í mat. Þeir sem komast ekki í matarboðið fá súpu senda heim. Systir mín fær líka alltaf skammt heim með sér. Ég tek svo fram tveggja lítra ísbox og saxa niður kjötbita og grænmeti í botninn og helli súpunni yfir. Ég á núna tvö box í frystinum, síðan um daginn“, segir Sigvatur. Hann segir barnabörnin mjög hrifin af súpunni. „Þau spyrji iðulega  Afi, hvenær er kjötsúpan?  Þetta er matur sem þau fá ekki heima hjá sér, segir hann og hlær.

Þetta fer allt í súpuna

 

 

 

Ritstjórn október 28, 2022 13:09