Stjórn Landssambands eldri borgara hefur ályktað um kjör eldri borgara á tímum COVID 19, en aðgerðir stjórnvalda snúast meira og minna um að minnka það fjárhagslega högg sem við verðum mörg óhjákvæmilega fyrir við þessar aðstæður. Stjórn LEB telur að ekki hafi verið nægilega vel gætt að högum eldri borgara við þessar aðstæður. Ályktun hennar er eftirfarandi.
Stjórn LEB – Landssambands eldri borgara bendir á að í öllum þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gert til að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið er hvergi minnst á aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins.
Margir eldri borgarar þurfa á víðtækri þjónustu að halda eins og að fara í mötuneyti, verslanir og apótek, margir í leigubíl. Nú þurfa eldri borgarar að fá sendingar heim sem felur í sér aukinn kostnað.
Stjórn LEB skorar á sveitarfélögin að taka upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín.
Stjórn LEB skorar á sveitarfélögin að lækka fasteignagjöld sem kemur öllum til góða.
Stjórn LEB telur í því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu gæti verið rétt að leggja fram fé til Tryggingastofnunar ríkisins til að sinna þeim verst settu.
Stjórn LEB skorar á ríkisvaldið að stíga nú það skref að hækka almenna frítekjumarkið í 50 þús.kr. á mánuði. Sú aðgerð mun auka ráðstöfunartekjur sambýlinga um 7.094 kr.á mánuði og hjá einbýlingum um 8.970 kr. á mánuði eftir skatt.
Stjórn LEB skorar á stjórnvöld að afgreiða frumvarp að lögum nr.666 sem nú eru til umsagnar. Þau eru um félagslega aðstoð við fólk með skerta búsetu.