Gunnar Baldvinsson formaður Landssamtaka lífeyrissjóða skrifar grein í Morgunblaðið í dag og gerir að umtalsefni þá miklu fjölgun eldra fólks sem nú er yfirvofandi. „Breytingar í vændum, erum við tilbúin?“ heitir greinin.
Samkvæmt mannfjöldaspá Hafstofunnar fyrir tímabilið 2014 til 2065, verða Íslendingar orðnir 450.000 árið 2065. Í grein Gunnars segir:
Fólki á eftirlaunaaldri fjölgar á þessum tíma um 180% en vinnandi fólki á aldrinum 16-66 ára fjölgar einungis um liðlega 20%. Eftirlaunaþegum fjölgar hraðar en vinnandi fólki á Íslandi frá og með árinu 2023. Í hnotskurn verða breytingarnar þær að vinnandi fólk verður innan við 60% þjóðarinnar, en er 67% nú. Fólk á eftirlaunaaldri verður hátt í fjórðungur þjóðarinnar 2065 en er 11% nú. Þjóðfélagið breytist því mikið á allra næstu árum og það þarf að undirbúa“.
Gunnar bendir á að stjórnvöld þurfi að búa í haginn fyrir þessar breytingar og undirbúa að ýmis þjónusta við fólk á síðari hluta ævinnar aukist. Ríki og sveitarfélög þurfi að búa sig undir lækkandi skattekjur og grynnka á skuldum. Þá sé mikilvægt fyrir atvinnulíf og stjórnvöld að skapa aðstæður fyrir sveigjanleg starfslok. Síðan segir hann:
Íslendingar eru betur undirbúnir fyrir fyrirsjáanlega fjölgun lífeyrisþega en margar aðrar þjóðir. Lífeyrissjóðirnir greiða nú þegar meirihluta af eftirlaunum landsmanna og eru tilbúnir fyrir mikla fjölgun eftirlaunaþega og hækkun lífeyrisgreiðslna þegar kynslóðir fara á eftirlaun sem hafa greitt í lífeyrissjóð alla ævina“.
Hann segir að íslenska lífeyriskerifð standi samt frammi fyrir brýnum viðfangsefnum. Langvarandi gjaldeyrishöft séu ógnun við starfsemi lífeyrissjóðanna, því án erlendra fjárfestinga geti sjóðirnir ekki náð fram eðlilegri áhættudreifingu. Hann segir líklegt að eftirlaunaaldur hækki í framtíðinni auk þess sem svigrúm lífeyrisþega til að flýta eða seinka töku lífeyris verði aukið.