Fatahreinsun sem staðsett hefur verið í Suðurveri árum saman ber rammíslenska nafnið Snögg. Nafnið gefur fyrirheit um hraða þjónustu sem er óneitanlega kostur í nútímasamfélagi. Þegar inn er komið mætir manni mjög hlýlegt viðmót eiganda fatahreinsunarinnar, Bryndísar Phuongto, og á henni er enginn asi. Bryndís er dökk á brún og brá, með asískt yfirbragð og hún talar íslensku með hreim. Hvernig stendur á að þessi kona er hingað komin lengst norður á hjara og hver er saga hennar?
Bryndís segir að eiginmaður hennar hafi fyrst komið hingað frá heimalandi þeirra Víetnam 1994 en systir hans kom hingað 1990 sem flóttamaður. Hún hvatti bróður sinn til að koma til Íslands því hér væri vinnu að fá sem hann gerði og sótti Bryndísi síðan þremur árum síðar eða 1997. Hún er því búin að vera á Íslandi í 23 ár og talar núna mjög góða íslensku. Þau eiga tvö börn, stúlku fædda 1998 en hún er í háskólanámi í Bandaríkjunum og dreng fæddan 2004 en hann er á fyrsta ári á íþróttabraut í MK. Börnin eru bæði fædd á Íslandi svo nú eru þau öll íslenskir ríkisborgarar. Þegar Bryndís var komin til Íslands fluttu foreldrar hennar og systkini hingað líka og sömuleiðis fjölskylda eiginmanns hennar. Allt þetta fólk segir Bryndís að hafi aðlagast vel á Íslandi og njóti þess að vera í landi þar sem ríki friður og almennt fái fólk tækifæri til að bjarga sér ef það vill. Mörg þeirra reka nú lítil fyrirtæki eins og veitingahús eða naglafyrirtæki og öllum líði vel.
Saga Bryndísar á Íslandi er þannig að hún fékk vinnu í Fönn skömmu eftir komuna til landsins. Fljótlega bætti hún við sig vinnu við að skúra í þremur skólum, einum menntaskóla og tveimur leikskólum. Hún var að vinna í Fönn til 2007 en þá færði hún sig yfir í fatahreinsunina Snögg. Bryndís hélt áfram að skúra í skólum ásamt því að vinna í fatahreinsuninni á daginn. Þegar Snögg fór á sölu 2015 var Bryndís búin að spara nógu mikið til að geta keypt fyrirtækið og síðan hefur hún rekið sitt eigið fyrirtæki í framandi landi. Hún tekur fram að þennan tíma hafi hún unnið geysilega mikið og varla tekið sér frí einn einasta dag. Hún segir að þau hafi öll aðlagast mjög vel á Íslandi og muni ekki flytja aftur til Víetnam en muni örugglega fara þangað í heimsókn seinna.
Bryndís segir að hér hafi þau mætt mikilli góðvild hjá góðu fólki og sem dæmi hafi fyrrverandi eigandi verið sér ómetanleg hjálp við að læra á reksturinn og líka við að leiðrétta íslenskuna sína sem Bryndís segist hafa lagt mikla áherslu á að ná tökum á. Bryndís rekur fatahreinsunina í dag. Hjá henni vinnur mágkona hennar og með henni skottast lítill strákur, dökkhærður og fallegur. Allir hjálpast að og börnin venjast því snemma að vera með foreldrum sínum í vinnunni.
Dóttir Bryndísar kom heim frá Bandaríkjunum vegna covid ástandsins og fékk fljótlega vinnu hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Hún er sannur Íslendingur en er strax farin að leggja fyrir til að eiga fyrir farinu þegar hún ætlar að heimsækja ættingja þeirra sem enn búa í Víetnam. Sú ferð verður ekki farin strax en þegar að því kemur mun hún eiga fyrir farinu.