Samskipti við vini og fjölskyldu minni en áður

Samskipti fólks við vini og vandamenn minnkuðu verulega þegar COVID faraldurinn stóð sem hæst. Mörgum fannst það undarlegt og sumum erfitt. Búðarferðir breyttust og margir horfðu mikið á sjónvarp. Þeir sem Lifðu núna spurði um áhrif COVID á sambandið við fjölskyldu og vini höfðu svipaða sögu að segja.

Faraldurinn hafði mikil áhrif á samband við fjölskyldu og vini. Ég hafði engin samskipti við vini og mjög takmarkað við fjölskyldu, bara samband við ákveðna fjölskyldumeðlimi. Þetta var auðvitað skipulagt samkvæmt leiðbeiningum um sóttvarnir og varði í ákveðinn tiltekinn  tíma. Þetta var skrítinn tími og leiðinlegt að hitta ekki sína nánustu beint en aðrar samskiptaleiðir voru notaðar sem auðveldaði þennan tíma. Mér þótti þetta ekki svo erfitt þar sem allir í kringum mann voru í sömu stöðu og mikil samkennd í þjóðfélaginu.

Einn viðmælenda sagði að sambandið við fjölskylduna hefði gengið furðuvel, þótt mörgu hafi þurft að breyta, fresta og færa til.

Við höfum ekki verið í hópi hinna sótthræddustu en samt farið varlega. Hitt t.d. fjölskyldur dætra okkar hverja í sínu lagi en ekki í stórum fjölskylduveislum o.s.frv. Eitt brúkaup náðist þó að halda í stórfjölskyldunni þegar opnað var fyrir samkomur í sumar og það var bæði veglegt og flott og án smits. Vini okkar höfum við einnig hitt í „föstum atriðum“ en ekki eins og venjulega heldur með tilfæringum. Það hefur verið mikilægt að láta ekki reglulega samfundi vina og félaga falla með öllu niður.

Annar sagði um sambandið við fjölskylduna.

Það breytti ekki miklu öðruvísi en að okkar nánustu héldu sig í hæfilegri fjarlægð að mestu til að hlífa okkur gamla fólkinu sem mest. Samgangur við vini varð hins vegar mun minni. Við fórum lítið og fengum fáar heimsóknir.

Einn viðmælenda hélt daglegu sambandi við börnin sín , en var í símasambandi við systkini sín.  

Ég hitti vinina minna en áður. Í þeim  tilvikum sem ég hafði hitt ákveðinn hóp regluleg hélt ég því áfram. Til dæmis höfum við nokkrar Kvennalistavinkonur hist undanfarin ár í hádeginu á föstudögum á Jómfrúnni og við héldum því áfram.  Annar vinkvennahópur hefur spilað saman golf vikulega í 11 ár. Þegar golfvellirnir voru opnaðir um miðjan maí byrjuðum við að spila aftur.  Ég er í bókaklúbbum og þeir hittust allir eins og verið hafði áður en sumarfríið hófst.

„Ég og eiginkona mín fórum í sjálfskipaða sóttkví og höfðum samskipti við ástvini okkar í gegnum tölvur og síma“, sagði einn viðmælendanna. „Samskipti við vini minnkuðu mikið eða urðu með öðrum hætti“  Annar sagði að COVID ástandið hefði styrkt fjölskylduna frekar en hitt.  En leiddist fólki á meðan þetta ástand varði?

Mér leiddist aldrei, þvert á móti fannst mér þessi tími gefa mér heilmikið. Það var ró og friður yfir öllu. Flestir fastir fundir voru haldnir eftir sem áður í raunheimum eða á zoom. Ég fór nánast daglega í ReykjavíurAkademína, göngutúra, spilaði bridds on line og talaði daglega við börnin mín eins og verið hafði. Það var alltaf nóg af verkefnum en minni spenna, meiri friður og ró, minna um boð og fundi og minni kröfur um að mæta einhvers staðar.

Annar svaraði spurningunni þannig.

Meðan maður heldur orku, hreyfigetu og sönsum er ástæðulaust að láta sér leiðast. Ef allt annað þrýtur er fullt út úr dyrum á heimilinu af bókum sem þola endurlestur og sumar hafa ekki enn verið lesnar. Sagði ekki Groucho Marx að í hvert skipti sem hann settist við sjónvarp myndi hann eftir því að hann ætti ólesna bók í bókaskápnum. Ég byrjaði t.d. á plágubókmenntum og las Pláguna eftir Camus í þýðingu Jóns Óskars og Decamerone á dönsku úr bókasafni foreldra minna. Sú síðarnefda sýnir að það er lengi hægt að skemmta sér við sögur þótt úti „séu stormur og él“. Svo þurfti að heiðra Jan-Olov Enquist, sem burtsofnaði úr heimi, með því að reyna enn einu sinni að botna í Kaftein Nemo og  svo endurlesa þríleikinn Úlfastundina eftir Kerstin Ekman.  Bóka sem snúa að þróuninni í löndum sem fyrrum tilheyrðu svokallaðri Austur-Evrópu hefur svo verið aflað með ýmsum hætti. Það veitir ekki af að reyna að kynna sér þá þróun því endurspeglanir sjáuum við í pólitíkinni víða. Svo er alltaf hægt að skerpa á frönskunni og ég reyni að fylgjast svolítið með Kanadaútvarpinu á frönsku. Maður getur semsagt komið sér upp þemum til að elta þegar tóm er.

Einn viðmælenda sagði lífið hafa verið rólegt í sjálfskipaðri sóttkví.

Okkur leiddist ekki. Við höfum verið mikið í sumarbústaðnum okkar, vorum að  fella tré og klippa greinar, enda  skógurinn í  miklum vexti, svo höfum við  lesið bækur og notað símann óspart. Ég þekki ekki til neinna í fjölskyldunni sem hafa fengið veiruna, við höfum verið mjög heppin með okkar samskipti bæði við fjölskyldu og vini.

Annar sagði að sér hefði ekki leiðst verulega, hann hefði fundið sér ýmislegt til að gera heima og notað fjölmiðla og samskiptamiðla mikið. Enn annar sagðist bara hafa haldið áfram að vinna heima og sá þriðji fann litla breytingu frá fyrri tíð, veiran hefði ekki valdið sér sérstökum leiðindum.  Þá tók einn geymsluna í gegn og það gerðu ugglaust fleiri, því mikil velta var í verslunum sem selja alls kyns vörur, þeim sem eru að endurbæta eða laga heima hjá sér.

Þeir sem lögðu Lifðu núna lið, við skrif þessarar greinar um áhrif Covid á sambandið við fjölskyldu og vini voru: Bjarki Bjarnason, Einar Karl Haraldsson. Hrafnhildur Schram, Kristín Erlingsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Sigrún Ásmundsdóttir og Þorgeir Baldursson.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 1, 2020 08:07