Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar
„Hættu aldrei að rækta samband við vini þína, því þú veist aldrei hvenær þú verður einmana,“ stóð á blaði sem Elín Óskarsdóttir eiginkona mín fann nýlega í fórum sínum. Þessi orð eru sígild og eiga líklega aldrei betur við en í núverandi Covid19 ástandi. Nú eru margir einmana í einangrun sinni. Stutt símtal á þessum tímum frá vini er ígildi matarboðs.
Hvernig eignumst við vini? Þegar við sem eldri erum horfum til baka, leitar hugurinn m.a. að myndun vinatengsla. Við eignuðumst vini í æsku en svo skilja oft leiðir. Á skólaárum eignuðumst við nýja vini. Í tilfelli mínu varð vina- og kunningjahópur minn stór sem ég eignaðist í Menntaskólanum á Akureyri, en ég var fimm vetur í heimavist MA frá landsprófi til stúdentsprófs. Yndisleg ár. Þau vináttubönd sem mynduðust í MA hafa varað fram á þennan dag. Háskólaárin leiddu til nýrra vina- og kunningjatengsla ekki aðeins í viðskiptafræðinni þar sem við hjónin stunduðum nám, heldur einnig í öðrum deildum en ég tók virkan þátt í félagslífinu í Háskólanum eins og í MA. Störf í fyrirtækjum á lífsleiðinni, seta í stjórnun fyrirtækja og stofnanna og ýmis konar félagsstörf eins og í Round Table hreyfingunni og síðar í Rótarý, mynduðu enn fleiri tengsl sem ég hef notið ríkulega. Útivistarhópur þar sem við vorum meðlimir ferðaðist saman um landið í áratugi og veitti okkur hjónum ómetanlega ánægju. Við höfum kynnst einstaklingum í öðrum löndum og Vinabókin gerir nú auðveldara að halda uppi samskiptum við þá sem og aðra vini og kunningja. Margir einstaklingar sem við áttum í samskiptum við í lífinu hafa horfið í þoku minninganna, en aðrir hafa orðið fastir strengir í samskiptaneti lífsins og auðgað líf okkar. Best er samt að eiga lífsförunautinn sem sinn besta vin eins og við hjónin, sem höfum deilt bæði gleði og sorg í 54 ár.
Góð vinatengsl er afar mikilvægur þáttur í daglegu lífi allra einstaklinga. Vinir geta haft mikil áhrif á hugsanagang og líðan okkar. Einstaklingar leita eftir mismunandi eiginleikum og áhugasviðum í vinum sínum. Mest um vert finnst mér að eiga vini sem auðga líf mitt, eru jákvæðir og hafa kímnigáfu. Ég reyni að forðast þá sem eru neikvæðir og sjá ekki sólargeislana í tilverunni fyrir skuggunum sem nóg er af.
Svo eru aðrar leiðir sem leiða til vinatengsla. Mig langar til þess að deila hér sögu um hvernig við hjónin eignuðumst á óvenjulegan hátt einstaka breska vini sem hafa verið góðir vinir okkar í 46 ár.
Ég stundaði meistaranám í markaðs- og sölufræðum í Háskólanum í Lancaster, Bretlandi í rúmt ár 1973 til 1974. Boðið var upp á 12 mánaða nám í stað tveggja vetra hefðbundins meistaranáms. Nemendur vorum rækilega minntir á það í upphafi skólaárs að við 30, sem voru í náminu, væru valin úr 300 umsækjendum og ef við ættum auða stund í náminu ættum við að snúa heim. Við það var staðið og álagið var mikið þennan vetur. Elín kona mín og Sif dóttir okkar, fyrsta barn okkar sem var þá þriggja ára, sáu mig varla þetta árið en lesdagarnir voru langir. Við veittum okkur ekki mikinn munað en á laugardagskvöldum deildum við stundum einni hvítvínsflösku og Bounty súkkulaði sem enn í dag eiga virðulegan sess í lífi okkar.
Þegar leið að lokum skólaársins var ég orðinn afar þreyttur. Ég hafði mikið grennst og sjónin hafði mikið gefið eftir. Við ákváðum að gott væri fyrir okkur að fara til sólarlands í hvíld eftir allt erfiðið. Við keyptum ferð til Spánar og hálfsmánaðardvöl á Lloret de Mar. Við vorum orðin peningalítil en áttum gamlan bíl sem við höfðum keypt sem við urðum að selja til þess að geta greitt fyrir það sem á vantaði fyrir ferðinni. Okkur tókst að selja bílinn og fá hann greiddan á síðustu stundu fyrir brottför.
Okkur leið vel á hótelinu og þreytan hopaði fljótt. Við lékum við Sif dóttur okkar við ströndina. Eftir nokkra daga fór samt að bera á leiða hjá henni. Einn morguninn leit ég út um herbergisgluggann út í garðinn á bak við hótelið. Þar sá ég fjölda pabba sem voru að leik með börnum sínum. Ég sagði við Elínu að nú færi ég úti garðinn með Sif í leit að leikfélaga. Við feðginin fórum niður og hófum að leika okkar í leiktækjunum í garðinum. Meðan á leiknum stóð horfði ég vandlega umhverfis okkur, mældi út börnin í leit að stúlku sem gæti verið á aldur við Sif og væri í fylgd föður sem bæri af sér góðmennsku og góðan þokka. Eftir vandlega skoðun leist mér vel á ein feðgin og hóf samræður við föðurinn. Stúlkurnar
Stúlkurnar Naomi og Sif hófu strax að leika sér saman. Þær reyndust vera jafn gamlar fæddar með viku millibili. Strax fór vel á með okkur feðrum í garðinum og síðar með okkur hjónum og Emmu yngri dóttur þeirra. Í ljós kom að þessi hjón voru einstaklega elskulegt fólk, hjartahlý, traust og skemmtileg. Við nutum afar vel samskiptanna til loka dvalarinnar. Á þessum tíma var hægt að finna sér mannlausa strönd á Lloret de Mar og njóta þar sólar og samveru. Hjónin Janet og Nigel Spratt hafa síðan verið vinir okkar í 46 ár. Við höfum heimsótt hvert annað, farið í sólarlandaferðir saman og notið góðrar samveru.
Stundum hef ég hugsað til þess hvaða sambands við hefðum stofnað ef ég hefði valið annan pabba í garðinum til þess að kynnast, en við vorum heppin að eignast Spratt fjölskylduna sem vini og sambandið við þau hefur auðgað líf okkar.