Þegar þau Halldór Ó. Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Ríkiskaupa og Margrét Hjaltested, fyrrverandi sviðsstjóri uppýsingatækni Actavis, byrjuðu saman fluttu þau í Hólmgarðinn, á æskuheimili Halldórs. Foreldrar hans fluttu í Borgarnes og því upplagt að leigja íbúð þeirra á námsárum Halldórs í HÍ. Þau fluttu síðan saman til Danmerkur til náms þar sem þau bjuggu í tæp 4 ár. Þá komu þau til Íslands og fyrsta árið heima var leigumarkaðurinn þannig að þau þurftu að flytja fjórum sinnum. “Það var mjög erfitt en þannig var leigumarkaðurinn þá,” segir Margrét og brosir. Foreldrar Halldórs bjuggu ennþá í Borgarnesi og leigðu íbúðina í Reykjavík út. Svo hittist þannig á, þegar til stóð að Halldór og Margrét flyttu í fimmta sinn, að íbúðin í Hólmgarði losnaði og þau ákváðu að kaupa íbúðina af foreldrum Halldórs.
Samtals í 56 ár á sama stað
Þar með var Halldór kominn á æskustöðvarnar og þar höfðu þau Margrét verið í samanlagt 33 ár eða allt þar til nú að þau ákváðu að minnka við sig fyrir rúmu ári. Nú eru þau komin á eftirlaunaaldur og annar veruleiki blasir við. Margrét segir hlæjandi frá því að þegar þau fluttu inn í Hólmgarðinn hafi hún sagt að hún ætlaði aldrei að flytja aftur því hún var komin með svo mikið nóg af flutningum. “En þegar við fundum þessa íbúð í Kuggavogi vissum við bæði að hér gátum við hugsað okkur að vera,” segir hún. Íbúðin er í nýju hverfi inni í Vogum með góðu útsýni og er hæfilega lítil en þau minnkuðu við sig nánast um helming. Íbúðin sjálf er um 80 fermetrar og svo geymslur þar fyrir utan. Halldór segir að það sé í rauninni töluverður léttir að vera kominn í minna og í ljós hafi komið að þau þurftu sannarlega ekki meira pláss. “Það er svo skrýtið hvað mannskepnan hefur mikla aðlögunarhæfileika,” segir Halldór. “Ég hélt að ég myndi eiga erfitt með að segja skilið við húsið af því ég var búinn að búa svo lengi í því eða í 56 ár alls. Svo var ég búinn að eiga svo mikið við húsið og garðinn o.s.frv. En þegar til kom var ég feginn og fann ekki fyrir söknuði.”
Undirbjuggu sig vel
Margrét segir að líklega sé ástæðan fyrir því að þau áttu tiltölulega auðvelt með þá stóru ákvörðun að minnka við sig sú að þau undirbjuggu sig mjög vel. “Ég var búin að fara í ótal “opin hús” í tvö ár og var því búin að finna hvar ég vildi ekki búa og útiloka þannig stóran hluta borgarinnar.”
Svo var það um vorið 2019 að þau Margrét og Halldór skoðuðu íbúðina í Kuggavogi, sem þá var í nýbyggðu húsi, og þar kom strax yfir þau góð tilfinning. “Þetta var sýningaríbúðin og það heillaði okkur bæði hversu vel plássið var nýtt og að lofthæðin var þrír metrar. Það gaf íbúðinni sérstakan blæ og var mjög aðlaðandi,” segir Halldór.
Þá tók við salan á Hólmgarðinum
Húsnæðið þar sem þau voru búin að ala börnin upp og þar sem þeim hafði liðið vel í 33 ár var orðið allt of stórt fyrir þau tvö. “Við vorum í rúmlega 160 m2 með tvö svefnherbergi, sjónvarpsherbergi og baðherbergi í risinu, á næstu hæð voru svo þrjár stofur, baðherbergi og eldhús. Þegar börnin voru farin notuðum við auðvitað bara brot af þessu plássi og hver var þá tilgangurinn við að halda í eignina.”
Vildu vera skuldlaus á þriðja aldursskeiðinu
Halldór og Margrét settu sér það markmið þegar þau voru ung að vera skuldlaus þegar þau væru komin á þennan aldur sem þau eru á núna. “En af því við fórum í ansi miklar framkvæmdir á gamla húsnæðinu 2006 vorum við með einhverjar skuldir. Þá var tilvalið að selja Hólmgarðinn og eiga milligjöfina til að lifa lífinu lifandi. “Svo fundum við þessa íbúð sem við erum svo svakalega sátt við og þá var eftirleikurinn auðveldari,” segir Halldór. “Þetta er búið að vera mjög spennandi ferli þótt auðvitað hafi verið erfitt að minnka við sig. Það segir sig sjálft að það er rosalegt mál að fara í gegnum allt gamla dótið þegar flutt er í helmingi minna húsnæði, taka ákvörðum um að henda því sem var einskis virði og gefa eða selja það sem var einhvers virði. En léttirinn þegar það var búið er ólýsanlegur,” segja þau í kór og brosa út að eyrum. “En af því það er erfitt að henda, t.d. bókum, þá leigðum við geymslu úti á Granda þar sem við settum það sem við vildum ekki losa okkur við í bili. Ég er búin að hlæja svolítið að Halldóri þegar hann stendur yfir gömlum skólabókum og tímir ekki að henda þeim. En svoleiðis hlutir hafa eitthvert tilfinningalegt gildi og þá er allt í lagi að setja það í geymslu,” segir Margrét og brosir. “Ég á auðveldara með að losa mig við gamalt dót en það er kúnst að hella sér í gírinn. Ég fór til dæmis upp í Hamraborg til fornsala sem þar er með alls konar silfurdót sem ég hafði ekki notað í mörg ár og kom því í svolítinn pening.
Hvernig eigum við að hafa seinni hluta ævinnar
Halldór og Margrét reyndu snemma að gera sér grein fyrir því hvernig þau vildu hafa seinni hluta ævinnar. “Okkur langaði að verja einum þriðja af árinu í útlöndum, einum þriðja í innanlandsferðalög og í sumarbústað þar sem við eigum land og dvelja svo einn þriðja heima. Alls staðar mun golf koma við sögu. Þetta sáum við sem draumastöðu og hver veit nema þetta takist,“ segja þau vongóð.
Sátt við að hætta að vinna
Halldór er orðinn 67 ára og er að trappa sig niður eftir starf sitt hjá Ríkiskaupum. Hann var mjög sáttur við að taka ekki þátt í breytingum sem stóðu fyrir dyrum hjá stofnuninni og telur sig lánsaman að hafa fengið
að vinna áfram við áhugaverð verkefni hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar til hann hættir alveg. Margrét er 65 ára og hætti í sinni vinnu 2016. Hún hafi fengið brjóstakrabbamein þrettán árum áður og náð sér af því. Síðan kom upp ristilkrabbamein 2014 og þá tók hún ákvörðun um að setja sjálfa sig í fyrsta sæti. Hún segist ekki hafa fengið eins mikið sjokk í seinna skiptið því hún vissi sem var að fá krabbamein er engin endalok eins og hún hélt í fyrra sinnið. “Eitt af því sem hjálpaði mér gífurlega mikið í veikindunum var að fá að vera í sambandi við Ljósið sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda. Þar er unnið kraftaverk af fagfólki allan ársins hring. Æskuvinkona mín greindist líka þegar ég var í mínu seinna skipti sem var lán fyrir mig í óláni hennar. Við erum ásamt 3ju vinkonunni úr Ljósinu enn í föstu uppbyggingarprógrami hvern virkan dag þó við séum hættar í Ljósinu. Þessi sjúkdómur er svo algengur að það þekkja allir einhvern sem stendur í meðferðum. Það skiptir svo miklu máli að finna andlega stuðninginn hjá öðrum í svipaðri stöðu og líka frá fagfólkinu sem starfar í Ljósinu. Ég mæli 100% með þessum stað fyrir krabbameinsgreinda.”
Tók til við að mála myndir aftur
Margrét málaði myndir áður fyrr og er að taka til við það aftur. “Hún er búin að breyta aðeins um stíl og vinir sonar okkar hafa falast eftir myndum eftir hana,” segir Halldór stoltur af sinni konu. Þegar viðtalinu var að ljúka hringdi síminn frá Danmörku og á línunni var 2ja ára barnabarn sem þau hafa ekki séð síðan í covid-smugunni í sumar. En nú standa vonir til að fjöskyldur geti farið að sameinast eftir því sem bólusetningum fjölgar. Þau hlakka mikið til þess tíma eins og allir Íslendingar.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.