Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar
Það var bankað létt á dyrnar hjá okkur. Konan fór til dyra. Úti stóðu þrír strákar, 10-11 ára gamlir. Ég var inni en heyrði erindið. Þeir höfðu sparkað bolta upp á þak hjá okkur og spurðu hvort pabbi eins þeirra mætti koma með stiga til þess að ná í boltann. Það var auðvitað sjálfsagt. Strákarnir ruku af stað til að ná í pabbann og stigann um leið og ég kom í gættina. Ég kallaði til þeirra og bað þá að koma til baka því ég byggi svo vel að eiga stiga og gæti því sótt boltann fyrir þá. Pabbinn væri því óþarfur.
Ég brá mér því út og sótti stigann. Strákarnir röltu til baka og komu að um leið og ég reisti stigann við húsvegginn. Þeir horfðu á mig um stund uns einn þeirra sagði – af þeirri barnslegu hreinskilni sem hann bjó yfir: „Ert þú ekki aðeins of gamall til þess að klifra upp á þak?”
Ég verð að viðurkenna að það kom aðeins á mig. „Gamall segirðu, hvað heldurðu eiginlega að ég sé gamall?” „Örugglega sextíu og eitthvað,” sagði guttinn án þess að hika. Ég gat ekki neitað því. Það leyndi sér ekki að hann taldi þann sem var sextíu og eitthvað hvorki hafa getu né kjark til þess að klifra í stiga upp á húsþak.
Ég hafði ekki frekari orð um málið heldur stillti stiganum nokkuð bratt upp við húsvegginn, kleif hann all hratt og vippaði mér upp á þak með nokkrum tilþrifum. Þetta var nokkru áður en Joe Biden Bandaríkjaforseti reyndi að hraða för sinni sem mest upp stigann að forsetavél sinni en hrasaði nokkrum sinnum á leiðinni. Það var ekki stíll yfir því og kannski hefði ég farið hægar ef ég hefði horft á myndband af því stigaklifri áður en ég setti í þriðja gír upp á þak. Kemst þó hægt fari, segir máltækið. Þess ber þó að geta að Jói forseti er sjötíu og eitthvað mikið.
Boltann fann ég á þakinu og henti til drengjanna. Þeir hlupu burt, kátir með endurheimtan knöttinn. Ég klöngraðist yfir þakbrúnina og niður stigann, nokkuð hægar en upp – enda voru áhorfendurnir farnir. Hvort þeir hafi endurskoðað afstöðu sína til klifurgetu þeirra sem eru sextíu og eitthvað skal ósagt látið.
Því skal til haga haldið, þegar greint er frá klifurafreki mínu, að húsið er einnar hæðar með flötu þaki. Það telst því ekki til meiriháttar afreka að að komast upp á þak þess, þó að sönnu þurfi stiga til. Ég málaði húsið raunar í fyrrasumar úr þessum sama stiga og þótti ekki tiltökumál. Því kom hreinskilin athugasemd drengsins mér á óvart. Enginn efi er á að honum fannst ég of gamall til þess að fara í stiga upp á þak. Slíkt hafði ekki hvarflað að mér. Ég taldi mig fullfæran um að klifra upp stigann og fara upp á þakið, jafnvel þótt ég sé sannarlega sextíu og eitthvað, raunar talsvert nær sjöunda áratugnum en þeim sjötta. Það sagði ég samt ekki við strákinn. Sextíu og eitthvað er nokkuð vítt hugtak og talsverður spölur á lífsleiðinni.
Svona er afstaða til aldurs afstæð. Ég verð að sætta mig við sjónarhorn drengsins. Hann treysti pabba sínum betur til að fara upp á þak til að ná í boltann en mér. Í augum tíu ára drengs getur pabbi allt, kannski ekki afi annarra barna. Gott og vel. Sjálfsagt hefur afstaða mín verið svipuð þegar ég var tíu eða ellefu ára gamall. Þeir sem voru sextíu og eitthvað í mínu ungdæmi voru ansi gamlir. Ég minnist þess til dæmis að þegar við bekkjarsystkinin hófum menntaskólagöngu okkar á sínum tíma, þá sextán ára, var einn bekkjarbræðra okkar 23 ára. Við skildum ekki hvað svo gamall maður, sem þegar hafði lokið iðnnámi, var að vilja í menntaskóla. Þroski okkar bekkjarsystkinanna var ekki meiri en það. Þessi ágæti skólabróðir okkar lauk síðan sínu stúdentsprófi og háskólaprófi síðar – og það munar litlu á aldri hans og okkar hinna í dag. Þetta var áður en svokallaðar öldungadeildir komu til. Nú þykir sjálfsagt, sem betur fer, að fólk hefji nám á hvaða aldri sem er.
Ég reyndi því, eftir boltabjörgunina, að láta athugasemd fótboltadrengsins ekki á mig fá. Ég stóð mig þó að því að kíkja í spegil eftir að hafa gengið frá stiganum. Svona líta þeir þá út sem eru sextíu og eitthvað. Ég var samt bara sáttur, enn í kjörþyngd, með allar tennur, bærilega heyrn og sjón.. Hvíthærður raunar, eitthvað verður víst undan að láta.
Það var samt, finnst mér, óþarfi af stráknum að nefna þetta.