„Við erum með aldurstengda reglu um starfslok en svo viljum við eiga samtal um hvað sé best fyrir alla,“ segir Þórunn Reynisdóttir forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals Útsýnar. „Sumir sjá í hillingum að geta hætt að vinna og hafa loks tíma til að sinna hugðarefnum sínum og það er mjög gott en aðrir kjósa að fá að vinna áfram og meta félagslega þáttinn mjög mikinn. Við vinnum þá náið með hverjum og einum starfsmanni varðandi vinnutíma og hvaða verkefni eru í boði. Allt er þetta einstaklingsbundið og fer eftir verkefnum hverju sinni. Það eru alltaf til lausnir á öllum málum. Ég er núna með fjóra starfsmenn sem hafa valið að vinna áfram og það gengur glimrandi vel. Flestir vilja minnka eitthvað við sig vinnu og hafa aukið frelsi og það er alveg hægt að vinna í kringum það ef vilji er fyrir hendi. Einn af þeim kemur til dæmis inn einn dag í viku og sinnir ákveðnu verkefni,“ segir Þórunn. „Fararstjórarnir okkar eru til dæmis nokkrir 70+ og það gefst verulega vel. Allt fólk með mikla þekkingu, hefur mikið að gefa og getur miðlað til farþeganna okkar úr sínum brunni.“
Starfaði um árabil í Bandaríkjunum
Þórunn starfaði sem forstjóri í Bandaríkjunum í nokkur ár. „Að mínu mati eru bestu vinnustaðirnir með blandaðan aldur starfsmanna sem hafa áhuga á að vinna og vakna hress á morgnana.“ Þórunn segir að allt snúist um að fólk hafi áhuga og getu og á meðan fyrirtækið hafi verkefni sé öllum borgið og þá sé gaman.
„Inn í þetta kemur reyndar vandinn með lífeyriskjör eftirlaunafólks,“ segir Þórunn. „Það þarf að meta hvernig er hagstæðast fyrir viðkomandi að haga sínum málum. Það er engum blöðum um það að fletta að við getum auðvitað haldið áfram að taka þátt í lífinu þótt tilteknum aldri sé náð. Ef starfsmenn hafa viljann, getuna og áhugann þá er vægast sagt óskynsamlegt að senda þá heim einn daginn í aðgerðarleysi með alla sína reynslu og þekkingu. Það getur í ofanálag orðið verulega kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Við höfum til dæmis getað nýtt þá sem eru í þessari stöðu til að hjálpa okkur við að þjálfa upp nýtt fólk og það er ómetanlegt.“
Náði í dýrmætan starfsmann með reynslu
Þórunn er með galopin augun þegar kemur að því að manna fyrirtækið. „Ég frétti af starfsmanni með langan starfsaldur sem var látinn fara frá fyrirtæki í sama geira og við,“ segir Þórunn. „Þetta er kona sem ég vissi að hafði gífurlega reynslu svo ég hafði samband við hana og spurði hana hvort hún vildi ekki bara koma í fjörið til okkar. Hún hélt það nú og skellti sér í starfið með okkur sem er búið að vera rosalega gaman og hefur sannarlega skilað sér. Þrátt fyrir aldur hefur þessi starfsmaður þor, áhuga og vilja og hefur staðið sig algerlega hundrað prósent í starfi. Við erum mjög þakklát fyrir að hafa hana í okkar hópi á meðan henni hafði verið hafnað annars staðar sökum aldurs. Það gefur auga leið að reynsla þeirra eldri er ómetanleg og það er verulega óskynsamlegt að senda alla heim á einum tímapunkti því allt þetta fólk hefur mikið að gefa. Við þurfum bara að stilla saman getu þeirra og vilja við þarfir fyrirtækisins.“
Opnum gluggann og eigum samtalið
Þórunn er sjálf orðin sextug og þykir fráleitt að eftir nokkur ár verði hún úr leik. „Ég tel það vera svo mikil lífsgæði að vera innan um fólk og láta til mín taka á meðan ég hef lifandi áhuga á því sem ég er að fást við og heilsan heldur. Það á við um mjög marga og hvaða vitleysa er þá að vísa því fólki frá vinnumarkaðnum?“
Þórunn segist vita um marga vinnustaði sem skella í lás og vísa fólki út eftir langan starfsaldur. „Það eru svo margar leiðir til að gera starfslokin falleg fyrir alla sem koma að málinu. Mín afstaða er sú að hafa viðmiðunarreglu en finna leið sem hentar öllum því sú leið er til. Samtalið verður bara að eiga sér stað.“
Stjórnmálamenn og lífeyrismálin
Þórunn segir að bæði Bjarni og Katrín hafi haft á stefnuskránni fyrir síðustu kosningar að flokkar þeirra myndu berjast fyrir breytingum í réttindamálum eldra fólks en ekkert hafi áunnist. „Þau fengu fjögur ár til að vinna í þessum málum og nú er komið að kosningum aftur. Þau gætu fengið annað tækifæri og nú verður spennandi að sjá,“ segir Þórunn og brosir. „Það er ekki skynsamlegt að hafa reglurnar þannig að réttindi skerðist og refsa fólki svo ef það vill taka þátt. Hvaða vitleysa er það?“ spyr Þórunn hneyksluð. „Svo getur fólk ekki lifað á lífeyrisgreiðslum einum saman þótt það vildi,“ bætir hún við.
„Við verðum að breyta viðhorfi okkar því reglurnar eru rangar,“ segir Þórunn ákveðin og hún hefur sannað að svo sé.
Sólveig Baldursdóttir skrifar.