Varar við hækkun lífeyrisaldurs að vanhugsuðu máli

Drífa Snædal forseti Así gerði lífeyrismál að umræðuefni í forsetapistli fyrir skömmu og varar við að lífeyrisaldur sé hækkaður að vanhugsuðu máli. Gefum henni orðið.

Annað stórt mál þessa dagana er hækkun lífeyrisaldurs. Vissulega er þrýstingur frá ákveðnum stéttum að hækka lífeyristökualdur. Margir opinberir starfsmenn vilja gjarnan vinna lengur en til sjötugs. Að hækka lífeyrisaldur á línuna er hins vegar algerlega vanhugsað út frá bæði stétt og kyni. Fólk sem vinnur erfiðisvinnu andlega og líkamlega endist ekki starfsævin eins og örorkutölur segja til um og er láglaunafólk og konur þar í meirihluta. Að hækka lífeyristökualdur þess hóps er ávísun á lífsgæða- og kjaraskerðingu og fjölgun öryrkja. Nær væri að innleiða sérstakan forgangslífeyri fyrir erfiðisvinnufólk til að brúa bilið frá því að starfskraftar þverra þangað til komið er að lífeyristökualdri. Önnur leið er að hækka frítekjumark gagnvart lífeyrissjóðstekjum til að létta undir með láglaunafólki sem tekur lífeyrinn fyrr. Að hækka lífeyristökualdur án þess að taka tillit til stéttar eða kyns er forréttindablinda sem viðheldur fátækt og heilsubresti þeirra sem vinna erfiðustu störfin. Lífeyristökualdur á með réttu að semja um í kjarasamningum en ekki ákvarða með breytingum á reglugerðum á vegum fjármálaráðuneytisins. Það er eðlilegt að lífeyristökualdur verði undir í kjarasamningsviðræðum þessa árs.

Ritstjórn febrúar 9, 2022 10:55