Tengdar greinar

10 atriði sem stuðla að góðum eftirlaunaárum

Svo gott sem allir eiga sér sama takmarkið, sama hvort þeir eru enn í vinnu eða bíða þess að fara á eftirlaun. Að eiga gott líf eftir formleg starfslok á vinnumarkaði. En hvernig er hægt að ná þessu takmarki?

Það er misjafnt hvað menn telja gott líf á eftrirlaunaaldri. AARP vefsíða efrilaunafólks  í Bandaríkjunum leitaði til þriggja sérfræðinga sem hafa skrifað bækur um eftirlaunaárin og hér á eftir fara 10 helstu atriðin sem þeir telja að geti stuðlað að ánægjulegri efri árum, stytt og staðfærð

1. Að vera sparsamur en ekki eyðslukló

Það er miklu auðveldara að eyða peningum en spara þá, en ánægjan sem fylgir því að eiga varasjóð á efri árum, gerir sparnað á vinnuárunum sannarlega þess virði.  Galdurinn er að byja að spara nógu snemma. Það er líka gott markmið að vera skuldlaus þegar að því kemur að fólk fer á eftirlaun.

2. Að eiga sér mörg áhugamál. 

Að sitja á rassinum og horfa á Netflix alla daga, er trúlega ekki leiðin til að eiga skemmtileg eftirlaunaár. Ánægðasta fólkið meðal þeirra sem eru komnir yfir miðjan aldur eru þeir sem hafa tamið sér að ferðast, skemmta sér og kynnast nýjum ævintýrum. Þeir eiga sér líka þrjú áhugamál eða fleiri sem þeir stunda reglulega. Það skiptir ekki öllu máli hvaða áhugamál fólk hefur. Það geta verið fjallgöngur, hjólreiðar, ljósmyndur, sjálfboðaliðastarf eða að mála myndir. Það eina sem skiptir máli er að menn hafi brennandi áhuga á því sem þeir eru að gera.

3. Að koma sér upp fastri daglegri rútínu

Það er fátt mikilvægara þegar eftirlaunaaldri er náð, en að koma sér upp daglegri rútínu. Það getur tekið tíma að finna út úr því hvað hentar best og veitir mesta ánægju. Fólk getur þurft að prófa sig áfram til að sjá hvað virkar og hvað ekki. Það eru mikil umskipti að fara á eftirlaun, hlutverk fólks breytist, dagleg rútína breytist, sambönd við aðra breytast og menn upplifa að þurfa að hugsa líf sitt og stöðu uppá nýtt. Það krefst þolinmæði að finna sér nýjar leiðir í lífinu og koma sér upp nýrri rútínu. En ekki gefast upp.

4. Að halda góðu sambandi við börnin – en ekki fara yfir strikið

Það hefur sýnt sig að ánægja eldra fólks með lífið eykst verulega ef það býr nálægt að minnsta kosti einu barna sinna – helst tveimur. En það er mikilvægt að uppkomnu börnin séu ekki háð foreldrunum. Uppkomin börn ánægðasta eftirlaunafólksins, eru sjálfstæðir einstaklingar sem lifa eigin lífi og eru ekki uppá foreldrana komin fjárhagslega. Það hefur líka sýnt sig að ánægja foreldranna á eftirlaunaárum er í mörgum tilvikum minni, því meira sem þeir styðja uppkomnu börnin sín fjárhagslega.

5. Að skapa sér hlutverk sem hefur ekkert með vinnuna að gera

Lengi framan af ævinni skilgreinir fólk sjálft sig út frá starfinu sem það gegnir. Þegar það síðan fer á eftirlaun missir það starfstitilinn og þar með hlutverkið. Þess vegna er svo mikilvægt að finna annan og almennari tilgang með lífinu. Sumir einhenda sér í að skrifa bækurnar sem þeir ætluðu alltaf að skrifa, aðrir taka til við sköpun af ýmsu tagi eða læra að kyrra hugann.

6. Að halda sambandi við vinina 

Mikilvægi þess að eiga góða vini þegar eftirlaunaárin taka við, verður seint ofmetið. Það er ekki bara að fólk sem á góða vini sé ánægðara, heldur lifir það lengur. Og það er mikilvægt að einskorða ekki vináttuna við samstarfsfólkið í vinnunni. Flestir vinnufélagar hverfa á braut þegar samstarfi á vinnustaðnum lýkur. Það er því afar mikilvægt að eiga vini sem tengjast okkur persónulega, eða áhugamálum okkar. Það er einnig mikilvægt að eiga vini á ýmsum aldri og ekki síst  unga vini. Karlmenn eiga oft erfiðara með það en konur, að eignast vini. En það er þess virði að reyna, vegna þess að vinátta við fólk á mismunandi aldri og úr ýmsum áttum skiptir verulegu máli  ef menn vilja eiga áængjuleg eftirlaunaár

7. Að prófa eitthvað nýtt

Það er jafn mikilvægt að hafa tök á að prófa eitthvað nýtt, eins og að koma sér upp daglegri rútínu. Að fara aldrei út fyrir þægindarammann getur dregið úr frumkvæði og valdið deyfð  á eftirlaunaárum. Að fara á eftirlaun og flytja á sama tíma getur verið áhugavert, því þá þurfa menn ekki bara að venjast nýju umhverfi, heldur líka að kynnast nýju fólki. Ekki þar með sagt að það sé nauðsynlegt að gera hvoru tveggja á sama tíma, en það heldur fólki  á tánum að kynna sér eitthvað nýtt á eftirlaunaárunum og athuga hvernig það er.

8. Að leggja til hliðar til efri áranna 

Það er ekki gott að búa við efnahagslegt óöryggi þegar eftirlaunaárin renna upp. Það veldur áhyggjum og vanlíðan. Það er hins vegar mikilvægt að byrja snemma að huga að því, hvernig fjárhagurinn verður eftir starfslok. Að eiga séreignasparnað og góðan lífeyrissjóð getur vissulega hjálpað, en nokkur hópur eftirlaunafólks á Íslandi, hefur ekki að neinu að hverfa nema ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, sem er lægri en sem svarar lægstu launum á vinnumarkaði. Það er því afar mikilvægt að leggja fyrir til að eiga í sjóði á efri árum, ef menn hafa nokkurn möguleika á því.

9. Að huga vel að heilsunni

Það kemur ekki á óvart að ánægðasta eftirlaunafólkið er það sem býr við góða heilsu. Það fólk er oft mjög virkt á efri árum. Það er ekkert hægt að gera við þeim genum sem fólk fæðist með, en það er hægt að hugsa vel um líkamann. Það snýst ekki um stöðuga  megrunarkúra, heldur að skoða vel hvað menn láta ofan í sig. Og það snýst heldur ekki um að fara allt í einu á fullt  í líkamsræktarstöðinni, heldur að finna tíma til að hreyfa sig, fara í gönguferðir, hjóla eða synda á hverjum degi.

10. Að fara vel með aurana

Eftirlaunaárin eru ekki góður tími til að eyða peningum í vitleysu, en ættu heldur ekki að vera þannig að menn þurfi að velta hverri krónu milli handanna. Það er best að vera þarna mitt á milli ef það er mögulegt.  Þó menn geti ekki farið reglulega út að borða á flottum veitingastöðum á efri árunum, ættu þeir ekki að neita sér um góðan kaffibolla á kaffihúsi annað slagið. Ef menn eiga einhvern sparnað er honum vel varið í ferðalög og heimsóknir til ættingja. Það þarf kannski ekki að fljúga á ódýrasta fargjaldi og dvelja á hræódýrum gistiheimilum, en heldur ekki að fljúga á saga class og gista á fimm stjörnu hótelum.

 

Ritstjórn ágúst 4, 2022 07:00