Þeir sem hafa búið í 40 ár á Íslandi og eru orðnir 65 ára geta átt rétt á ellilífeyri frá Tryggingastofnun, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Farið var yfir það á fundi hjá TR nýlega hvernig fólk á að snúa sér þegar kemur að töku lífeyris frá stofnuninni. Fjöldi fólks fylgdist með fundinum bæði á staðnum í Tryggingastofnun og svo í streymi frá fundinum. Sigrún Jónsdóttir sviðsstjóri samskipta bauð gestina velkomna og sagði mikilvægt að koma upplýsingum um þessi mál til fólks og að starfsmenn TR væru reiðubúnir að mæta hjá félagasamtökum sem vildu fá upplýsingar. „Það er bara að hafa samband“, sagði hún.
Tíu þúsund fá ekki greiðslur frá TR
Á fundinum kom fram að 39 þúsund manns fá ellilífeyri frá Tryggingastofnun. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands eru Íslendingar 67 ára og eldri rúmlega 48.700, sem þýðir að tæplega 10 þúsund manns á þeim aldri fá ekki greiðslur frá TR, oftast vegna þess að þeir hafa þegar aðrar tekjur og reglurnar eru þannig að þeir sem hafa meira en rétt tæpar 662.000 krónur á mánuði í tekjur annars staðar frá, eiga ekki rétt á ellilífeyri frá TR. Tekjumörkin eru lægri hjá þeim sem eiga líka rétt á heimilisuppbót, eða rúmar 633.000 á mánuði.
Greiðslur frá TR eru tekjutengdar og skattskyldar
Full réttindi í almannatryggingakerfinu miðast við samtals 40 ára búsetu hér á landi, á tímabilinu 16-67 ára. Greiðslurnar frá Tryggingastofnun eru tekjutengdar og skattskyldar. Eignir og skuldir hafa ekki áhrif á greiðslur frá TR en fjármagnstekjur hafa hins vegar áhrif. Það þarf að sækja um allar greiðslur frá TR, þær koma ekki sjálfkrafa til fólks í pósti þegar það verður 67 ára. Það er hægt að sækja um ellilífeyri á Mínum síðum hjá TR og þar þarf einnig að fylla út tekjuáætlun. Kerfið er hins vegar flókið og það er hægt að koma í Tryggingastofnun í Hlíðarsmára í Kópavogi og fá þar frekari upplýsingar eða fara til sýslumanna á landsbyggðinni sem eru með umboð fyrir TR.
Hámarksgreiðsla til einstaklings að hámarki tæpar 360.000 krónur
Hámarksgreiðslur ellilífeyris frá TR eru núna 286.619 krónur á mánuði fyrir skatt. Þeir sem eru einhleypir og búa einir eiga rétt á svokallaðri heimilisuppbót ofan á þessa upphæð og fá því samtals 359.046 krónur á mánuði fyrir skatt. Hjón og sambúðarfólk á ekki rétt á heimilisuppbót. En ef maki er kominn á stofnun, getur sá sem er orðinn einn heima fengið heimilisuppbót.
Það er hægt að hefja töku lífeyris snemma og þá lækkar greiðslan varanlega frá TR, eða fresta töku lífeyris allt til 80 ára aldurs, hjá þeim sem eru fæddir 1952 og síðar, og þá hækkar greiðslan varanlega. Inní þetta allt saman spila svo frítekjumörkin, sem eru 25.000 krónur fyrir fjármagnstekjur og tekjur úr lífeyrissjóði. Sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna er 200.000 krónur á mánuði. Eftir að frítekjumörkum er náð, skerðist ellilífeyrinn um 45%. Tekjur umfram frítekjumörk skerða heimilisuppbót um tæp 12%.
Réttindin mismunandi og ástæða fyrir hvern og einn að kynna sér málin
Á fundinum var farið vel yfir það hvernig kerfið virkar. Sumir kunna að eiga rétt á greiðslum erlendis frá og aðrir vilja taka hálfan ellilífeyri á móti hálfum lífeyri úr lífeyrissjóði. Um áramót verða svo breytingar sem snúa að meðferð séreignasparnaðar í lífeyrissjóðunum, en það eru ekki allir lífeyrissjóðir sem greiða fólki hann. Þetta er ekki séreignasparnaðurinn sem menn hafa lagt fyrir í bönkum, svo kallaður viðbótarlífeyrissparnaður. Fyrir flesta sem koma að lífeyrismálunum í fyrsta sinn er þetta flókið og því ætti fólk að afla sér upplýsinga hjá TR og lífeyrissjóðunum sínum. Það sem gildir fyrir einn, þarf ekki að gilda fyrir annan.