Pipar er með elstu kryddjurtum heims og hefur verið notaður í þúsundir ára. Ekki er vitað með vissu hvenær hann barst til Evrópu en Grikkir þekktu til pipars á 4. öld fyrir Krist og vitað er að Rómverjar notuðu pipar, aðallega í lækningaskyni til að byrja með en líka sem krydd.
Pipar var mjög dýrt krydd fyrr á tímum og ein af ástæðum þess að Evrópubúar leituðu að siglingaleið til Austurlanda. Í dag er pipar ein algengasta og mest selda kryddtegund heims. Víetnam er mesti piparframleiðandi heims, með um 34% heimsframleiðslunnar. Aðrir stórtækir framleiðendur eru Indónesía, Indland, Brasilía og Kína.
Svonefndur rósapipar er ekki eiginlegur pipar heldur er hann ber af trjátegund sem vex í Suður-Ameríku. Rósapipar er bragðlítill og aðallega notaður til skrauts. Hann getur valdið eitrunaráhrifum borði menn mikið af honum.
Uppruni pipars
Pipar er krydd úr berjum piparjurtarinnar en hún er klifurjurt upprunnin í Asíu. Jurtin getur orðið 4-6 metrar á hæð og við þriggja eða fjögurra ára aldur byrjar hún að blómstra litlum, hvítum blómum sem verða að berjum sem kallast piparkorn. Til eru nokkrar gerðir af pipar en bragðið af þeim fer eftir því hvernig kornin eru meðhöndluð.
Óþroskuð ber piparjurtarinnar eru græn
Þegar berin eru óþroskuð eru þau græn. Þannig eru þau ýmist lögð í saltpækil eða edik og seld þannig eða þau eru þurrkuð með sérstakri aðferð sem varðveitir græna litinn.
Svörtu piparkornin eru tínd þegar þau eru að verða rauð en áður en þau eru fullþroskuð. Þeim er safnað í hrúgur þar sem þau fara að gerjast og síðan er dreift úr þeim í sólinni og þau þurrkuð þannig eða á annan hátt. Við það verða þau svört og skorpin.
Rauður eða appelsínugulur pipar eru þroskuð ber plöntunnar. Eins og græni piparinn eru þau ýmist lögð í saltpækil eða edik eða þau eru þurrkuð til að varðveita litinn.
Hvítur pipar verður til þegar þroskuð ber plöntunnar eru lögð í bleyti til þess að ná af þeim rauða hýðinu og aldinkjötinu. Fræið sem erftir stendur er þá þurrkað og er hvítt á litinn.
(Upplýsingar af Vísindavefnum)