Elding býður fjölskyldur velkomnar út í Viðey í leit að páskaeggjum á skírdag, fimmtudaginn 6. apríl. Þátttaka er ókeypis en greiða þarf gjald í ferjuna. Takmarkaður miðafjöldi og eru þátttakendur hvattir til að festa sér miða á elding.is sem allra fyrst.
Siglingar hefjast kl. 11:00 frá Skarfabakka og siglt er reglulega yfir þar til leikurinn verður ræstur kl. 12:30 við Viðeyjarstofu. Þátttakendur eru beðnir um að fylgja leiðbeiningum starfsfólks varðandi rástíma og leitarsvæði á eyjunni og hafa í huga að leikurinn er ætlaður börnum og eru því kappsamir beðnir um að gæta hófs svo öll börn geti notið leiksins.
Páskaeggjaleitin er frískandi leikur í fallegri náttúru sem öll fjölskyldan ætti að geta haft gaman af. Leikurinn gengur út á að finna lítil súkkulaði páskaegg en einnig verða nokkrir stærri vinningar fyrir þau sem finna „sérstök egg“. Sérmerkt svæði fyrir yngstu kynslóðina ,6 ára og yngri, verður á leiksvæðinu á bak við Viðeyjarstofu.
Mikilvægt er að koma í hlýjum fötum þar sem leikurinn er haldinn utandyra. Gott er að hafa með sér nesti og tilvalið að fara í lautarferð á eynni. Fyrir þau sem vilja gæða sér á nesti er fín aðstaða bak við Viðeyjarstofu. Í Viðeyjarstofu verður hægt að kaupa ljúffengar veitingar sem gott er að njóta innandyra jafnt sem utan.
Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Viðeyjarstofu og Borgarsögusafn. Nánari upplýsingar veitir starfsfólk Eldingar í síma 519 5000 eða með tölvupósti á elding@elding.is.