Velski fatahönnuðurinn Mary Quant lést þann 13. apríl 2023. Hún var leiðandi í tískuheiminum á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá tilheyrðu unglingar annað hvort moddurum eða rokkurum og Mary var sú sem lagði línurnar fyrir „mods“. Það var hún sem fyrst kom fram með mínípilsin og hrakstuttu stuttbuxurnar, „hot pants“, háu stígvélin og rúllukragapeysurnar. Vörumerki Mary, stílíserað blóm þykir einnig eitt það best heppnaða í vörumerkjasögunni en það er byggt á freyjubrá.
Mary fæddist í London árið 1934 en foreldrar hennar voru bæði kennarar. Þau voru bæði börn velskra námumanna sem höfðu fengið skólastyrk til háskólanámsvegna afburðanámshæfileika. Á þessum árum voru velsku kolanámurnar óðum að tæmast og námumannaþorpin líka. Stórir bingir af kolasalla og öðrum námuúrgangi menguðu loftið og lungnaþemba, krabbamein og astmi landlægir sjúkdómar í heimalandi þeirra. Þau voru ein af þeim heppnu og gátu boðið dóttur sinni bjartari framtíð fyrir vikið. Mary sýndi snemma listræna hæfileika og stundaði nám í myndskreytingum í Goldsmiths College-listaskólanum. Eftir það bauðst henni læri hjá einum virtasta hattara Lundúnaborgar, Erik í Mayfair-hverfinu. Þar kynntist hún manni sínum og viðskiptafélaga, Alexander Plunket Greene og árið 1955 opnuðu þau í félagi við lögfræðinginn Archie McNair fyrstu verslunina, Bazaar í Chelsea-hverfinu í London. Það varð allt vitlaust.
Mary var fylgjandi því að unglingar og ungt fólk ætti að klæða sig eins og þau vildu og fötin ættu að vera klæðileg og þægileg. Vinsælasta vara hennar til að byrja með voru litríkir plastkragar til að lífga upp á peysur og kjóla og einstaklega þægilegar náttbuxur til heimabrúks. Fljótlega fór hún sjálf að framleiða allan fatnað fyrir verslun sína í stað þess að kaupa vinnuna af öðrum. Í byrjun sjöunda áratugarins kom hún svo fram með mínípilsið, skokkinn sem allar stúlkur klæddust skyrtum með stórum kraga undir og síðbuxurnar með trúðamynstrinu eða harlequin-pattern. Þegar skoðaðar eru myndir frá þessum árum er önnur hver kona klædd hönnun frá Mary Quant eða einhverju sem líkist hennar fatnaði.
Litrík og unggæðisleg hönnun
Hönnun Mary var litrík og hún var ekki hrædd við mynstur. Hún sagði sjálf í ævisögu sinni sem kom út árið 1966 að hún hafi verið innblásin af löngun til að skapa eitthvað nýtt og að hún hafi ekki viljað vaxa upp og klæðast fullorðinsfötum. Eitt helsta einkenni á allri hönnun hennar var einmitt þessi ungæðisháttur og næstum barnleg áferð. Mínípilsið ber því einmitt vitni, kannski betur en nokkur önnur hönnun hennar.
Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar náði hún að festa sig vel í sessi. Snyrtivörulína hennar sló í gegn og umbúðirnar voru allar skreyttar freyjubránni, vörumerki hennar. Hún kom fram með gloss í litlum boxum, varalitur sem gljáði meira en hann litaði var algjör nýjung þá en að auki fengust hentugir eyeliner-pennar, blautir augnskuggar, þekjandi meik og annað sem þurfti til að ná fram því útliti sem þá taldist eftirsóknarverðast. Síðar hóf hún líka að framleiða húsgögn og alls konar heimilisvörur og hætti að mestu að hanna föt. Árið 1988 var hún fengin til að hanna innviði í eina útgáfu af Austin Mini en sú gerð bílsins var kölluð the Mini Quant. Seinna hættu framleiðendurnir við það nafn því vinsældir Mary höfðu dalað og ekki nægilega margir þekktu nafn hennar. Árið 2000 keyptu japanskir fjárfestar upp nánast allt hlutafé í fyrirtæki hennar og hún dró sig í kjölfarið í hlé. Enn eru reknar búðir undir nafni og merki Mary Quant í Japan en í Evrópu hefur merkið ekki sést síðan um aldamótin.
Mary Quant hlaut hlotið ótal verðlaun fyrir hönnun sína, m.a. hlaut hún verðlaun fyrir kjól ársins árið 1963, fékk Minerva-orðuna fyrir starf sitt, var gerð að Officer of the Order of the British Empire, það er hlaut OBE orðuna árið 1966, árið 1990 fékk hún sitt sæti í Hall of Fame hjá the British Fashion Council og var gerð að Dame Commander of the Order of the British Empire sem færði henni réttinn til að kalla sig Dame áríð 2015.