Reglulega berast fréttir utan úr heimi af því að fólk finnist látið inn á heimilum sínum mörgum árum eftir að banastundin rann upp. Fregnir sem þessar skera okkur í hjartað og sú staðreynd að enginn vitjaði þessi fólks er að okkar mati til marks um einstæðingsskap þeirra og vanrækslu samfélagsins. Í Rotterdam í Hollandi, 21. nóvember 2013, fannst kona látin í íbúð sinni og ljóst var að áratugur var frá því hún lést. Þessi atburður hafði svo sterk áhrif á Hollendinga að það hrinti af stað átaki sem enn er í gangi og hefur breytt miklu fyrir íbúa Rotterdam.
Konan sem um ræðir hét Bep de Bruin. Hún fæddist í Vestur-Indíum meðan þær voru enn undir yfirráðum Hollendinga og flutti ásamt fjölskyldu sinni til baka þegar hún var unglingur. Eftir að hafa orðið fyrir andlegu áfalli sleit hún öllu sambandi við fjölskyldu og vini og einangraði sig. Hún fékk greidd eftirlaun sín inn á bankareikning og í hverjum mánuði voru reikningar hennar greiddir sjálfvirkt. Ekkert varð því til þess að vekja athygli yfirvalda á að eitthvað óeðlilegt væri á seyði. Lík hennar fannst eftir að viðgerðarmenn kölluðu til lögreglu því þeir þurftu að brjóta sér leið inn í íbúð hennar til að gera við gasleiðslur.
Nöturleg örlög Bep urðu til þess að borgaryfirvöld í Rotterdam ákváðu að gera gangskör að því að koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt gerðist aftur. Hugo de Jong, stjórnmálamaður í Rotterdam, tjáði sig um hversu sorglegt atvikið væri og til marks um hve skerandi sár einmanaleikinn í stórborgum gæti verið. Hann gekkst fyrir að koma á fót verkefni sem snerist um að skipuleggja heimsóknir sjálfboðaliða til allra yfir 75 ára aldri til að sinna þeim og hjálpa þeim að komast aftur í félagsleg tengsl hafi þau verið rofin. Og áhrifin bárust víðar. Um allt Holland spruttu upp sambærileg verkefni og þau eru í gangi enn í dag áratug eftir að Bep de Bruin fannst. Baráttan gegn einmanaleikanum er í fullum gangi.
Póstburðarmenn til hjálpar
Hugo de Jonge var síðar skipaður heilbrigðis-, velferðar-, og íþróttmálaráðaherra og hans fyrsta verk var að hrinda í framkvæmd aðgerðum gegn einmanaleika og nýjustu athuganir og tölur frá Hollandi benda til að þær gangi vel. Meðan kannanir Evrópusambandsins sýna að einmanaleiki og félagsleg einangrun eykst meðal allra aðildarþjóða fara tölurnar lækkandi í Hollandi og nú er svo komið að einsemd og sambandsleysi mælast einna lægst þar í samburði við önnur ríki Evrópu. Átakið kallaði hann Een tegen eenzaamheid, eða Einn á móti einsemdinni. Í verkefninu fólst að ráðgjafar heimsóttu sveitar- og bæjarfélög og hjálpuðu starfsfólki að setja saman áætlanir til að vinna gegn einangrun og einmanaleika á svæðinu. Þeir leituðu einnig uppi heilbrigðisstarfsfólk, sjálfboðaliða og fyrirtæki og fræddu þá um hvað hægt væri að gera.
Átakið var upphafið að landssamtökum gegn einmanaleika og þátttakendur eru allt frá bankaútibúum, stórmörkuðum, góðgerðarfélögum, íþróttafélögum, menningarstofnunum og opinberum stofnunum. Allt miðar að því að allir vinni saman og finni leiðir til að ná til allra í samfélaginu. Félagar í samtökunum hittast tvisvar á ári og bera saman bækur sínar. Og það vantar ekki frumlegar hugmyndir því til að mynda má nefna að í Jumbo-stórmörkuðunum geta viðskiptavinir farið í röð við svokallaða „spjallkassa“ en þar tekur á móti þeim afgreiðslufólk sem er tilbúið til að tala við þá um daginn og veginn og gefa sér tíma í afgreiðsluna. Hollenska póstþjónustan hefur einnig komið upp kerfi þar sem póstburðarmenn láta vita ef þeir hafa grun um að einhver íbúi í þeim hverfum sem þeir bera út póst í sé í vanda. Þeim er sagt að fylgjast með merkjum eins og að póstur safnist upp eða gluggatjöld séu aldrei dregin frá gluggum.
Fjórfættir vinir
Á vefsíða Einn á móti einsemdinni er fjallað um samtök og félög sem sýnt hafa árangur og opinberir starfsmenn hvattir til að notfæra sér þeirra leiðir. Eitt af því eru samtökin Oopoeh en þau leita uppi eldra fólk sem getur tekið að sér að passa eða sinna gæludýrum fyrir önnum kafið fólk.
„Sumir skjólstæðinga okkar óttast að hundur lifi lengur en þeir eða þeir eiga ekki peninga til að borga dýralæknum,“ segir Ellen Groneman forstjóri samtakanna. „Með þessu móti geta þeir verið með hund hluta úr degi. Það eflir líkamlega og andlega heilsu og þeir hitta fólk í hverfinu sínu.“ Samkvæmt frétt BBC um þessa sérstæðu nálgun hollenskra yfirvalda hefur Oopoeh komið saman 4.500 hundaeigendum og eldra fólki sem líta vill eftir þeim.
Annað frumlegt og skemmtilegt verkefni er á vegum súpufyrirtækisins Oma’s Soep. Forsvarsmenn þess nota helming ágóða síns til að kosta matreiðslunámskeið fyrir eldri borgara og sjálfboðaliða meðal námsmanna. Þeir komust fljótt að því að námsmennirnir nutu ekki síður góðs af framtakinu en þeir sem eldri voru, enda virðist einmanaleiki viðvarandi meðal námsfólks sérstaklega þeirra sem koma utan af landi inn í borgirnar til að læra.
Tengsl myndast milli ólíkra einstaklinga
Áhugaverðir sjónvarpsþættir, Sambúðin, voru sýndir í haust á Stöð 2 en þar voru eldri og yngri einstaklingar paraðir saman og þeim gert að búa saman í nokkra daga. Parið var neytt til að koma sér saman um matarinnkaup, eldamennsku, sjónvarpsáhorf og kynna sér áhugamál hins. Út úr þessu koma margt skemmtilegt og eftirtektarvert, einkum þegar tengsl mynduðust og skilningur á milli ólíkra einstaklinga. Mjög svipuð tilraun var gerð í Bretlandi í þáttunum Forever Young.
Einmanaleiki er flókið vandamál og eins Ásgeir Rúnar Helgason Ph.D. kom inn á í viðtali við Lifðu núna, þurfa allir á djúpri tilfinningalegri tengingu að halda og fólk getur haft stórt og öflugt félagslegt tengslanet en samt verið einmana. Ástæður þess að einstaklingur glímir við einsemd geta verið margvíslegar. Sumir hafa litla félagslega hæfni og rekast ekki vel í hópi eins og sagt er, aðrir glíma við áfallastreitu eða eru að takast á við afleiðingar erfiðrar lífsreynslu og kjósa að einangra sig þess vegna. Mjög sterk tengsl eru milli andlegra og líkamlegra veikinda og einmanaleika. Þeir sem glíma við heilsufarsvandamál eru yfirleitt mun einangraðri en aðrir og finna oft sárt fyrir einsemd. Erlendar rannsóknir sýna að háskólastúdentar í krefjandi námi, öryrkjar, aldraðir og fátækt fólk eru þeir sem helst þjást vegna einmanaleika og félagslegrar einangrunar. Það er mjög mikilvægt að rjúfa slíka einangrun vegna þess að verði það ekki gert leiðir hún til enn frekari og alvarlegri heilsufarsvandamála.
Eitt af því sem gerir einmanaleika erfiðan viðfangs er að fæstir vilja viðurkenna að þeir séu einmana. Það fylgir því einhver skömm að segja slíkt, okkur finnst það líkt og að viðurkenna að okkur hafi mistekist. Sumir óttast að særa þá sem næst þeim standa með því að segja þeim að þeir finni fyrir einmanaleika en hversu marga manneskja þekkir eða umgengst er ekki mælikvarði á hve tengd hún er þeim sem hún umgengst. Margir eru umkringdir fólki en upplifa samt einsemd.
Þótt það gerist ekki oft hér á landi að manneskja liggi látin árum saman einhvers staðar án þess að hennar sé vitjað hefur það þó gerst að fólk finnist ekki fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Eitt alvarlegasta dæmið var þegar karlmaður fannst látinn í skógi milli Hóla- og Bakkahverfis í Breiðholti en hann hafði legið þar í einhverja mánuði. Hollendingar hafa fundið einstaka og öfluga leið til að koma í veg fyrir að saga Bep de Bruin endurtaki sig ekki og Íslendingar hafa á undanförnum árum gert margt gott. Rauði krossinn er með vinaverkefni sem felast bæði í heimsóknum yngra fólks til hinna eldri og heimsókna hunda á dvalar- og hjúkrunarheimili.
Helsta heimild: https://www.bbc.com/news/world-europe-67714026?fbclid=IwAR2KcKgFXpgL-4wRq6qk5aiFHA4giLuXqJUmowTxZkKq6kolkpihzTpnXpw
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.