Allir þurfa djúpa tilfinningalega tengingu

Þrátt fyrir góð lífsskilyrði á Vesturlöndum er einmanaleiki vaxandi áhyggjuefni heilbrigðisstarfsfólks. Stundum er talað um faraldur einsemdar. Ásgeir Rúnar Helgason sálfræðingur, Ph.D., hefur rannsakað tilfinningalega einangrun fólks og hann telur að eitthvað gerist með aldrinum sem verði þess valdandi að við eigum ekki eins auðvelt með að deila okkar innstu draumum,þrám, kvíða og ótta með annarri manneskju.

Að undanförnu hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum að einmanaleiki sé algengur meðal eldra fólks á Vesturlöndum. Er þetta eitthvað nýtt og er rétt að tala um faraldur?

„Já, þetta er faraldur í raun og veru,“ segir Ásgeir. „En einsemd og einmanaleiki, ef við segjum að það sé sami hluturinn, er ekki það sama og skortur á vinum. Þú getur átt fullt af svokölluðum vinum án þess að hafa einhvern sem þú getur deilt öllu með. Hvað er skilgreining okkar á einsemd? Hún er sú að hafa engan til að deila með erfiðum tilfinningum. Ef þú getur deilt öllu eða flestu með þó ekki sé nema einum einstaklingi líður þér miklu mun betur en þeim  sem er umkringdur kunningjum. Að hafa gott félagslegt tengslanet kemur aldrei í staðinn fyrir að eiga einhvern að sem þú getur deilt flestu með.“

Sagt er að konur eigi auðveldara með að rækta félagsleg tengsl og þær eigi yfirleitt stærri vinhóp en karlar. Eru einhverjar rannsóknir sem styðja það?

„Þetta er alveg öfugt. Karlar eftir sextugt eiga oft gríðarlegt tengslanet og oft mun meira en konurnar. Þeir eiga fullt af vinum og kunningjum og eru starfandi í klúbbum og félögum en þeir eiga engan sem þeir geta deilt með öllum sínum erfiðleikum og tilfinningum með nema makann, ef þeir eiga maka. Þeir deila flestu með makanum ef þeir á annað borð lifa að verða sextugir og enn í hjónabandi,“ segir Ásgeir og brosir. „Þeir eru gersamlega háðir konunni og þegar hún síðan fer eru þeir algjörlega einir. Konur á hinn bóginn eru oftar með einhvern annan en maka sinn sem þær deila öllu með. En þetta er að breytast og langt frá því allar konur sem eiga vini samkvæmt þessari skilgreiningu. Með hækkandi aldri fjölgar í þeim hópi fólks sem á enga slíka vini.“

Mjög lítið hefur breyst

Vitum við af hverju það er? Er það eitthvað sem hefur breyst eða alltaf verið þannig?

„Við vitum það ekki því rannsóknir hafa ekki verið gerðar á þennan hátt fyrr en ég gerði mína doktorsrannsókn á tilfinningalegri einangrun karla. Unnur Valdimarsdóttir var doktorsnemi hjá mér í Svíþjóð og tók sömu spurningu og ég notaði og spurði konur, bæði ekkjur og konur sem voru í sambandi. Þá sáum við, sem við vissum ekki, að margar konur eru að glíma við sams konar einsemd og karlar, þ.e. eiga engan annan en maka sinn sem þær deila öllu með. Þetta kom okkur á óvart. Við höfum alltaf fókuserað á karlana en 80% karla deilir ekki öllu með öðrum en makanum en 45% kvenna. Þótt talan sé hærri karlamegin erum við samt að tala um tæplega helming kvenna.“

Hefur þú haldið rannsókn þinni áfram þ.e. athugað hvort eitthvað hafi breyst?

„Já, við endurtókum þessa rannsókn innan ramma rannsóknar sem við gerðum hjá Krabbameinsfélaginu meðal krabbameinsgreindra. Þetta er kallað Áttavitinn. Þá sáum við að hlutfall tilfinningalega einangraðra er nákvæmlega eins og í rannsókn sem var gerð miklu fyrr. Mjög lítið hefur því breyst. Þarna erum við að tala um hlutfall þeirra yfir sextugt sem deila fáu eða engu með öðrum. Ég persónulega held að það gerist eitthvað innra með okkur þegar við erum komin um og yfir fimmtugt sem gerir það að verkum að við förum að einangra okkur tilfinningalega og færa sterkustu tengslin á einn aðila. Ég man eftir að í menntaskóla var mun algengara að maður deildi öllu með einhverjum. Þannig er þetta, held ég, ennþá hjá ungu fólki og svo gerist eitthvað. Þegar við endurtókum þessa rannsókn hjá krabbameinsgreindum á Íslandi taldi ég að við myndum sjá öðruvísi tölu en það var ekki.“

Sú hugmynd okkar að yngri kynslóðir Íslendinga séu opnari en þær eldri og þá sérstaklega karlar virðast þá ekki eiga við rök að styðjast?

„Nei, alla vega ekki ennþá,“ segir Ásgeir. „Ég gerði mína rannsókn í Svíþjóð árið 1995 á körlum sem þá voru komnir yfir sextugt og svo gerði Unnur sína árið 2000 á sænskum konum. Í Áttavitanum vorum við að tala við fólk sem komið er yfir sextugt núna og sjáum ekki breytingar. Það er hins vegar algengara í dag að verið sé að lyfta fram tilfinningalegum, opnum viðtölum við unga menn til að vinna á móti því sem kallað er eitruð karlmennska en það vinnur ekki með raunverulegum breytingum, að minnsta kosti ekki með aldrinum. Það hefur alltaf verið til hópur karla, um það bil einn af tíu í mínum rannsóknum, sem eru tilfinningalega opnir.“

Fara fullir á trúnó

Ýmsar rannsóknir benda einnig til þess að það að vera einmana hafi áhrif á heilsu fólks.

„Ég kannaði það ekki beint sjálfur. Við sáum það hins vegar að þeir sem voru einmana og voru með krabbamein, leið miklu verr en þeim sem áttu einhvern sem þeir gátu deilt hlutunum með. Það er ekki þar með sagt að þeir hafi fengið krabbamein vegna þess að þeim leið illa. En þegar þeir voru komnir með sjúkdóminn var líðan þeirra verri en hinna. Ég komst einnig að því að það er algengara að þeir sem eiga engan nákominn noti áfengi í óhófi. Þeir sögðu frá því í djúpviðtölum í tengslum við þessa rannsókn. Það kom mér í rauninni ekkert á óvart. Í þessum viðtölum kom líka fram að þegar menn voru að drekka gátu þeir farið á það sem við köllum trúnó. Voru að tala við annan fullan en þetta fór aldrei lengra en það því daginn eftir var eins og ekkert hafi gerst. Svo tóku menn kannski upp þráðinn aftur á næsta fylleríi. Þannig að þetta er nátengt.“

Getur verið að þessi vaxandi einsemd standi í einhverju sambandi við hversu breytt samfélagið er? Við höfum allt önnur hlutverk en áður og komum oft inn á efri ár í raun án þess að hafa hlutverk eða rödd. Börnin flogin, fólk hætt að vinna og engar skyldur eða tilgang lengur að hafa.

„Þetta er í raun önnur spurning,“ segir Ásgeir og kímir. „En jú, jú, ég er viss um að þetta skiptir máli en ég hef ekki rannsakað þetta svo ég get ekki sagt mikið um það en finnst lógískt að hugsa þetta svona. Að einsemdin endurspeglist í að maður hefur ekki hlutverk og þá fer hún að verða aðkallandi og minnir á sig.

Svo sé ég í þeim viðtölum sem ég er að taka að það virðist vera að hlutfall kvenna í einsemd tengist að hluta til því að konur fara meira og meira í stjórnunarstöður. Ég hef talað við konur sem skilgreina sig einar á þann hátt að þær hafa engan að deila öllu með. Þær lýsa því stundum þannig að það hafi gerst, að þær misstu þau tengsl, þegar þær gengu inn í stjórnunarstörf. Ég held líka að það skýri að hluta hvers vegna karlar eru svona. Það fyrsta sem menn læra þegar þeir fara í herinn í Svíþjóð er að þú sýnir aldrei óvini veikleika. Svo færist þetta yfir á allt samfélagið og allir verða hugsanlegir óvinir. Þetta er ákveðinn stjórnunarstíll. Þetta er auðvitað ekki bara tengt stjórnunarstöðum því ekki eru svo margir í þeim í samfélaginu en kannski er þetta ákveðin menning. Ég hef í það minnsta þessa kenningu.“

Erfitt að rjúfa tilfinningalega einangrun

Nú virðist þróunin hvað einsemd varðar vera svipuð á Vesturlöndum. Menn eru farnir að hafa áhyggjur af einsemd og einangrun eldra fólks víða og hrundið hefur verið af stað verkefnum til að draga úr og það hefur verið gert hér líka. Hefur þú kynnt þér þessa umfjöllun?

„Já, ég hef kynnt mér þetta allt. Skortur á nánum tengslum er eitt og skortur á félagslegu tengslaneti annað. Þetta fylgist auðvitað að vissu leyti að en minna hefur verið rætt um að þótt þú hafir félagslega tengslanetið getur þú lifað í einsemd. Þetta eru tiltölulega ólíkir hlutir. Í þessum rannsóknum er mest talað um félagslega einangrun en ég er að rannsaka tilfinningalega einangrun sem er annar hlutur þótt það fari oft saman.“

Hefur þú skoðað úrræði eða leiðir fyrir fólk til að rjúfa þessa tilfinningalegu einangrun?

„Það er ofboðslega erfitt að rjúfa hana hjá fólki sem er komið yfir sextugt. Í raun snýst þetta um einhvers konar þjálfun. Ég held að mikilvægara sé að fólk sem er að vinna með eldra fólki sé meðvitað um þetta. Þannig að það sé ekki bara gefið að vegna þess að þessi eða hinn aðilinn hafi svo gott tengslanet sé hann tilfinningalega tengdur. Honum getur liðið mjög illa jafnvel þótt í kringum hann sé margt fólk. Þeir sem vinna með þennan aldurshóp þurfa að vera vakandi fyrir að þannig geti þetta verið. Oft er eina leiðin til að rjúfa svona einangrun faglegt inngrip, djáknar, prestar, sálfræðingar eða annað fagfólk gengur inn í líf viðkomandi og myndar tilfinningalega rás fyrir hann, gerir honum kleift að vera tilfinningalega opinn. En þetta er svolítið gervi eða phony því það virkar bara á annan veginn, betra en ekkert þó. Gerir viðkomandi kleift að tjá tilfinningar sínar úr djúpinu en kemur aldrei í staðinn fyrir raunverulegt tilfinningasamband sem virkar á báða bóga.“

Þetta verða lokaorð Ásgeirs Rúnars um einsemd en í Bretlandi hefur frá 2018 verið starfandi sérstakur ráðherra einmanaleika og í Japan er sams konar ráðuneyti. Rauði krossinn hér á landi hefur gengist fyrir heimsóknum bæði einstaklinga og gæludýra til eldra fólks á hjúkrunar- og dvalarheimilum en eins og Ásgeir Rúnar bendir á kemur ekkert í staðinn við raunveruleg djúp tengsl og þau kunnu Íslendingar lengi að rækta.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 13, 2023 20:00